Minnkar líkur á smiti að syngja lægra

Anita Rachvelishvili, mezzósópran frá Georgíu, á sviði í Aþenu í …
Anita Rachvelishvili, mezzósópran frá Georgíu, á sviði í Aþenu í júlí. AFP

Ný rannsókn leiðir í ljós að draga má úr líkum á kórónuveirusmiti ef söngvarar syngja lægra og blásturshljóðfæraleikarar spila veikar en ella. Einnig ætti að sleppa öllu öskri á sviðum til að minnka vegalengd þeirra dropa sem koma frá flytjendum. Í frétt breska dagblaðsins The Guardian um málið kemur fram að rannsóknarniðurstöðurnar muni mögulega leiða til þess að tónlistar- og sviðslistafólk fái senn að stíga aftur á svið þar í landi.

„Þetta snýst ekki um hljóðið sem slíkt, hvort sem sungið er eða talað, heldur um styrkinn,“ segir Jonathan Reid, prófessor við Háskólann í Bristol og einn meðhöfunda rannsóknarinnar, sem enn er ekki búið að ritrýna. „Með því að syngja aðeins veikar er hægt að draga úr smithættunni.“

Rannsakendur létu 25 atvinnusöngvara draga andann, tala, hósta og syngja inn í trekt til að mæla dropamagnið sem frá viðkomandi kom. Rannsóknin leiddi í ljós að því lægri sem söngstyrkurinn var því minna magn dropa barst í loftinu.

Declan Costello, háls-, nef- og eyrnalæknir hjá Wexham Park-spítalanum og einn meðhöfunda rannsóknarinnar, bendir á að sýningarrýmið og loftræstingin hafi líka mikið að segja varðandi smithættuna. Með öðrum orðum felist minni smithætta í því að syngja í kirkju en að öskra á yfirfullum bar.

Oliver Dowden, menningarmálaráðherra Bretlands, fagnar rannsókninni og bendir á að yfirvöld séu í nánu samstarfi við vísindafólk landsins til að skipuleggja hvernig best sé að aflétta samkomutakmörkunum sem haft hafa mikil áhrif á menningarlíf landsins.

mbl.is