Einföld eplakaka í bolla

mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir

Það eru sjálfsagt flestir sem elska eplakökur enda eru þær einstaklega fullkomin fyrirbæri og bráðnauðsynlegar endrum og eins. Þessi uppskrift er úr smiðju Berglindar Hreiðarsdóttur á Gotteri.is og bregður hún á það snjalla ráð að baka hverja köku í bolla sem er afar lekkert.

Bökuð karamelluepli í bolla

Eplablanda

 • 1 x stórt Jonagold-epli (eða tvö minni gul/græn epli)
 • 1 msk. hveiti
 • 1 tsk. sítrónusafi
 • 1 msk. púðursykur
 • 1 msk. saxaðar pekanhnetur
 • Walkers-karamellur (þessar í fjólubláu bréfunum)

„Kröst“ á toppinn

 • 50 gr. brætt smjör
 • 50 gr. haframjöl
 • 1½ msk. púðursykur
 • 1 msk. hlynsíróp
 • 1 tsk. kanill
 • ¼ tsk. salt

Aðferð:

 1. Skerið eplið niður í litla teninga (um það bil 0,5 x 0,5 cm).
 2. Blandið restinni af hráefnunum fyrir eplablönduna saman við eplabitana fyrir utan karamellurnar.
 3. Skiptið eplablöndunni niður í 3-4 bolla og fyllið þá rúmlega til hálfs, setjið þá eina til tvær karamellur ofan á og útbúið því næst „kröstið“.
 4. Setjið öll hráefnin fyrir „kröstið“ saman í skál og setjið ofan á eplablönduna og karamelluna. Bakið í örbylgjuofninum í 3- 3½ mínútu eða þar til blandan fer aðeins að „bubbla“.
 5. Takið þá úr ofninum, hrærið upp í blöndunni og blandið öllu saman og leyfið aðeins að kólna (varið ykkur því bollinn er heitur).
 6. Gott er að bera bökuðu eplin fram með góðri ískúlu og smá af söxuðum pekanhnetum. Hvað er skemmtilegra en það að bjóða upp á eplaköku í krúttlegustu bollum heims!
 7. Mig grunar líka að ansi margir Íslendingar séu að safna þessum bollum og nú er heldur betur komið nýtt notagildi fyrir þá. Bolli er sko ekki bara bolli, hann má vera kökuform líka :)
mbl.isl/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is