Ómótstæðilegur kjúklingur með 30 sekúndna sósu

„Þessi sósa er svo mikil snilld því það tekur nákvæmlega 30 sekúndur að gera hana sem er Íslandsmet innanhúss,“ segir Gunnar Már Sigfússon um þessa uppskrift sem hann á heiðurinn af. „Það er líka hægt að skera ferskar paprikur í sneiðar, pensla þær með olíu og baka þær í ofni í 10 mínútur ef þú vilt gera allt frá grunni.“

Þessi uppskrift er jafnframt ketó þannig að nú getið þið glaðst!

Kjúklingur með paprikusósu og smjörsteiktu hvítkáli

Uppskrift fyrir: 2

Eldunartími: 20 mín.

Hráefni

  • 2 úrbeinuð kjúklingalæri
  • kryddblanda að eigin vali
  • 1 stk grillaðar paprikur í krukku (Jamie's eru tilvaldar)
  • 150 ml rjómi
  • 400 g hvítkál
  • 2 msk smjör
  • salt

Það sem þú þarft að hafa við höndina er hnífur, eldfast mót og steikarpanna.

Stilltu ofninn á 180° og blástur.

Aðferð

1. Byrjaðu á að steikja kjúklingalærin á vel heitri pönnu upp úr olíu eða klípu af smjöri. Kryddaðu og þegar lærin hafa fengið góðan lit færirðu þau í eldfast mót og inn í heitan ofn í 10 mínútur.

2. Skerðu hvítkálið í þunnar sneiðar eða settu í matvinnsluvél. Skolaðu af pönnunni eftir kjúklinginn, settu smjör á hana og steiktu hvítkálið á háum hita í 5 mínútur. Kryddaðu það með grófu salti, lækkaðu hitann og leyfðu því að malla þar til kjúklingurinn er tilbúinn.

3. Settu papriku og rjóma í blandara í 20 sek. Settu sósuna síðan í pott og hitaðu rólega upp. Saltaðu hana eftir smekk.

4. Settu hvítkálið upp á disk, kjúklinginn yfir og að síðustu sósuna.

mbl.is