Smjörsteiktur þorskur sem slær í gegn

mbl.is/Svava Gunnarsdóttir

„Mánudagar eru fiskidagar, það er eldgömul saga,“ segir Svava Gunnars á Ljúfmeti & lekkerheit en hér erum við með fiskuppskrift sem hún segir að hafi vakið óvenjumikla lukku á sínu heimili þrátt fyrir að vera eins einföld og mögulegt er.

„Það sem gerði hann svo æðislega góðan var að þorskurinn var kryddaður með ljúffengri kryddblöndu áður en hann var bæði steiktur upp úr smjöri og eftir að hafa verið snúið á pönnunni var smjör látið bráðna yfir hann. Útkoman var svo góð að það var barist um síðasta bitann á pönnunni,“ segir Svava um þennan snilldarrétt. 

Smjörsteiktur þorskur

  • 600-700 g þorskur
  • 6 msk. smjör
  • ¼ tsk. hvítlauksduft
  • ½ tsk. salt
  • ¼ tsk. mulinn pipar
  • ¾ tsk. paprikukrydd
  • sítróna, skorin í sneiðar
  • fersk steinselja

Hrærið saman hvítlauksdufti, salti, pipar og paprikukryddi. Skerið þorskinn í passlega stóra bita (eftir smekk). Kryddið þorskinn á öllum hliðum með kryddblöndunni.

Hitið 2 msk. af smjöri á pönnu yfir miðlungsháum hita (ég var með stillingu 7 af 9). Þegar smjörið hefur bráðnað er þorskinum bætt á pönnuna og steiktur í 2 mínútur. Lækkið hitann örlítið (ég lækkaði hann niður í stillingu 5), snúið þorskinum og setjið það sem eftir var af smjörinu yfir hann. Steikið þorskinn í 3-4 mínútur. Þá hefur smjörið á fiskinum bráðnað og hann orðinn fulleldaður. Passið að steikja þorskinn ekki of lengi! Kreistið sítrónusafa yfir þorskinn og berið hann strax fram.

mbl.is/Svava Gunnarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert