Bókin sem öll börn verða að eignast

Undirrituð er mögulega ögn hlutdræg þegar kemur að þessari bók enda í senn mikill aðdáandi Tobbu Marínós og hetjanna frá Disney. Hér erum við að tala um nýju Disney-matreiðslubókina sem nýtur mikilla vinsælda nú fyrir jólin og verður eflaust í fjölmörgum jólapökkum.

Snilldin við bókina er að hún er ætluð börnum og miða uppskriftirnar að því að börnin ráði vel við eldamennskuna. Bókin byggir á samansafni bestu uppskrifta fyrri matreiðslubóka sem Tobba valdi auk þess sem hún bætti við fjölda uppskrifta sem hún sérhannaði með börn í huga. 

Sjálf segir Tobba að allir krakkar geti eldað réttina því þeir séu merktir með númeri eftir erfiðleikastuðli. „Við Mikki mælum þó með því að það sé alltaf einhver fullorðinn á staðnum,“ segir Tobba aðspurð. Hún játar jafnframt að uppáhaldspersónan hennar í bókinni sé Vaiana því hún sé svo hugrökk. 

Uppáhaldsuppskriftin hennar séu hafrakökurnar og stökku súkkulaðikúlurnar sem hún segir að sé stórkostleg. Hins vegar elski Regína dóttir hennar plokkfiskinn hvað heitast í bland við stökku granólasúkkulaðikúlurnar. 

Í bókinni er að finna aragrúa girnilegra og auðveldra uppskrifta.
Í bókinni er að finna aragrúa girnilegra og auðveldra uppskrifta. Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is