Af hverju er ketó svona vinsælt?

Jenna Jameson fyrir og eftir lífstílsbreytinguna en hún hefur verið …
Jenna Jameson fyrir og eftir lífstílsbreytinguna en hún hefur verið á ketó mataræði síðan í byrjun síðasta árs og misst yfir 30 kíló. mbl.is/sjáskot af Instagram

Ketóbækurnar hans Gunnars Más rjúka út í Hagkaup og eftir okkar bestu heimildum er fyrsta upplagið að verða uppselt. En hvað er það við ketó sem er að æra landann og af hverju er það svona vinsælt?

Við lögðum þessa spurningu fyrir Gunnar Má og segist hann telja það vera nokkrar ástæður.

„Fyrir það fyrsta þá er ketó að virka. Fólk sem fer á ketó sér fljótt árangur, þá erum við að tala um daga og vikur. Bjúgur rennur fljótt af fólki og vigtin dettur hratt niður í upphafi og það er jákvætt því það virkar vel að sjá árangur fljótt þegar maður er að gera breytingar.“

„Ketó er einfalt, þetta er bara matur sem þú færð í öllum stórmörkuðum og eins og ég set þetta upp þá eru þetta 5-7 hráefni oftast sem tekur um 15-20 mínútur að elda. Einfalt og fljótlegt er eitthvað sem allir eru að leita að þegar kemur að máltíðunum. Maturinn er góður á ketó, þegar þú mátt og átt að bæta við fitugjöfum eins og rjóma og smjöri þá verður maturinn auðvitað mjög bragðgóður því það er fitan í matnum sem gefur þetta uummm bragð.“

„Síðast en ekki síst þá er ketó vinsælt því það eru sífellt fleiri læknar að benda fólki á ketó mataræði sem mögulegan valkost í stað lyfjagjafar. Það er sérstaklega ánægjulegt fyrir mig að fá til mín aðila sem vilja tileinka sér ketó mataræði af því að læknirinn þeirra benti þeim á að prófa það fyrst áður en gripið væri til lyfja. Þetta finnst mér frábært og ég efast ekki um það að samfélag okkar í heild mun „græða“ á því að fólk tileinki sér ketó mataræðið með sparnaði á lyfjum og heilbrigðisþjónustu. Nóg er álagið fyrir.“

mbl.is