Lágkolvetna gratíneruð nætursöltuð ýsa

mbl.is/Einn, tveir og elda

Nætursaltaður fiskur á alltaf vel við enda algjört sælgæti. Þessi uppskrift er algjört æði því hún er líka lágkolvetna sem klikkar aldrei. Þetta er því hinn fullkomni fjölskylduréttur svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Það eru snillingarnir hjá Einn, tveir og elda sem eiga þessa uppskrift.

LKL gratíneruð nætursöltuð ýsa

  • Nætursöltuð ýsa eða annar sambærilegur saltfiskur 400 g
  • 300 g blómkál 
  • 100 g blaðlaukur 
  • 1 laukur 
  • 2 hvítlauksrif
  • 100 ml rjómi 
  • 80 g rifinn ostur
  • 100 g bygg 
  • 1 stk. grænmetiskraftur 
  • olía, salt og pipar

Aðferð:

1. Hitið ofninn í 180°C og blástur. Skerið blómkál niður í grófa bita og dreifið í botninn á eldföstu móti með smá olíu. Hitið 300 ml af vatni í pott að suðu og sjóðið byggið ásamt grænmetiskraftinum í 20 mínútur eða þar til fullsoðið.

2. Skerið blaðlaukinn í sneiðar og saxið niður lauk og hvítlauk. Steikið laukinn og hvítlaukinn á vel heitri pönnu upp úr 2-3 msk. af olíu í nokkrar mínútur eða þar til hann hefur mýkst.

3. Dreifið steikta lauknum jafnt yfir blómkálið og skerið fiskinn í meðalstóra bita.

4. Dreifið fiskibitunum yfir blómkálið og laukinn og dreifið blaðlauknum yfir fiskinn, kryddið með smá salti og pipar.

5. Hellið rjómanum yfir allt saman og stráið rifna ostinum yfir. Bakið fiskréttinn í 20- 30 mínútur og berið síðan fram með bygginu. Njótið vel!

mbl.is