Saltkaramelludraumur sem bræðir hjörtu

mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir

„Ég veit ekki hvar ég á að byrja, þessi kaka var svo dásamlega góð og falleg!“ segir Berglind Hreiðars á Gotteri.is um þessa dásamlega fögru köku.

„Uppskriftina sá ég á síðu sem heitir Sugar & Sparrow og er þetta núna nýja uppáhaldssíðan mín og ég þarf klárlega að prófa fleiri uppskiftir og hugmyndir þaðan!“

„Það tekur smá tíma að útbúa þessa en það er hægt að útbúa botnana með fyrirvara og frysta og líka karamelluna og geyma í ísskáp því hana má alltaf hita aðeins upp til þess að fá í fljótandi form aftur.“

mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir

Saltkaramelludraumur 

Kakan

 • 390 g smjör við stofuhita
 • 200 g púðursykur
 • 270 g sykur
 • 2 egg
 • 520 g hveiti
 • 2 tsk. matarsódi
 • 1 tsk. lyftiduft
 • 1 ½ tsk. salt
 • 3 tsk. kanill
 • 1 tsk. múskat
 • 800 ml eplamauk (barnamauk)

Aðferð:

 1. Hitið ofninn 185°C
 2. Spreyið 3 x 15 cm kökuform með matarolíuspreyi og setjið bökunarpappír í botninn.
 3. Þeytið saman smjör og báðar tegundir af sykri þar til létt og ljóst.
 4. Bætið eggjunum saman við einu í einu og skafið vel niður á milli.
 5. Setjið öll þurrefnin í skál og blandið saman og setjið út í skálina til skiptis við eplamaukið og skafið niður eftir þörfum.
 6. Skiptið jafnt í formin þrjú og sléttið vel, athugið að deigið er mjög þykkt.
 7. Bakið í 50-60 mínútur eða þar til prjónn kemur hreinn út.
 8. Kælið þá alveg og jafnið toppinn með hníf/kökuskera. Takið síðan hvern botn í tvennt svo úr verða sex þynnri botnar.

Saltkaramella

Dugar í kremið, drippið og til að hjúpa nokkur epli

 • 400 g sykur
 • 200 g smjör við stofuhita
 • 270 ml rjómi
 • 1 ½ tsk. salt

Aðferð:

 1. Hafið öll hráefnin tilbúin í upphafi þar sem hræra þarf stanslaust í blöndunni.
 2. Setjið sykurinn í pott og hitið á meðalháum hita þar til hann er bráðinn og hrærið stanslaust í með sleif á meðan (þetta tekur um 6-8 mínútur).
 3. Setjið smjörið saman við sykurinn (það mun bubbla aðeins og það er allt í lagi) og hrærið vel þar til blandað.
 4. Blandið rjómanum þá út í pottinn og hrærið vel þar til blandað. Hér bubblar aftur og það má hækka hitann í 1-2 mínútur á því stigi og síðan taka af hellunni og setja saltið saman við.
 5. Gott er að hella karamellunni í aðra skál (ég setti strax 120 ml í mæliglas fyrir kremið og restina í stærri skál).
 6. Karamellan þarf að ná stofuhita og þá má nota hana í kremið, drippið og fyrir karamellueplin.
 7. Ef hún verður of þykk áður en þið gerið drippið þá má setja hana 10-15 sek á meðalhita í örbylgjuofinn og hræra upp aftur (hún má samt vera frekar þykk þar sem hún lekur merkilega vel niður þó hún sé þannig).

Saltkaramellukrem

Til þess að setja milli laga og grunnhjúpa kökuna.

 • 230 g smjör við stofuhita
 • 480 g flórsykur
 • 2 tsk. vanilludropar
 • 120 ml karamellusósa (sjá uppskrift að ofan)

Aðferð:

 1. Þeytið smjörið þar til létt og ljóst.
 2. Bætið flórsykrinum saman við í nokkrum skömmtum.
 3. Setjið vanilludropana og karamellusósuna saman við og blandið vel.
 4. Smyrjið jöfnu magni á milli laganna og grunnhjúpið kökuna með þunnu lagi.

Hvítt krem

Til þess að hjúpa kökuna með í lokin

 • 2 x Betty Crocker Vanilla frosting
 • 200 g flórsykur

Hrærið vel saman í hrærivélarskálinni og smyrjið 1 cm þykku lagi um alla kökuna til að hjúpa hana.

Skraut

 • 2 pokar „Til hamingju“ hakkaðar heslihnetur
 • 1 epli til þess að setja á toppinn og 3-4 til að eiga aukalega með karamellu
 • Restin af saltkaramellunni

Aðferð:

 1. Takið fulla lúku af hökkuðum heslihnetum og leggið lófann upp að neðsta hluta kökunnar og þrýstið létt að. Gott er að hafa ofnskúffu undir til að grípa hneturnar sem detta niður og nota þær síðan aftur. Endurtakið þar til þið hafið náð „hnetuhringnum“ neðst á kökunni eins og þið viljið hafa hann.
 2. Hellið karamellu í nokkrum litlum skömmtum yfir toppinn og leyfið henni að leka aðeins niður hliðarnar, varist að setja of mikið fram af brúninni því karamellan mun leka vel niður.
 3. Dýfið að lokum eplinu í karamellubráðina svo það hjúpist alveg og komið fyrir á miðri kökunni.
 4. Stráið þá heslihnetum upp á eplið og þar í kring.
mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is