Ómótstæðilegur kjúklingaréttur

mbl.is/Svava Gunnarsdóttir

Þessi uppskrift fær undirritaða til að fá vatn í munninn og gott betur. Bragðsamsetningarnar hér eru svo skemmtilegar að ég myndi klárlega skilgreina þessa uppskrift sem fullkominn lokapunkt á góðum degi. 

Það er engin önnur en Svava Gunnars á Ljúfmeti & lekkerheit sem á heiðurinn að þessari snilld.

Taílenskar kjúklinganúðlur – uppskrift fyrir 3-4

 • 2 kjúklingabringur
 • 6 dl vatn
 • 1,5 kjúklingateningar
 • 2 msk. fiskisósa
 • 1,5 msk. sykur
 • 1 tsk. chilliflögur
 • 1 lime, fínrífið hýðið (passið að taka bara græna hlutann) og safinn úr helmingnum
 • 50 g ferskt engifer, rifið
 • 200 ml kókosmjólk
 • 1 hvítlauksrif
 • 100 g glass noodles
 • 1/2 dós bambus, skolið vel og skerið í aðeins minni bita

Aðferð:

 1. Setjið vatn, kjúklingakraft, fiskisósu, sykur, chilliflögur, lime (hýðið og safann) og rifið engifer í pott og látið suðuna koma upp.
 2. Skerið hvora bringu í tvennt eftir þeim endilöngum og leggið í pottinn. Látið sjóða án loks í um 40 mínútur, eða þar til kjúklingakjötið nánast dettur í sundur og vökvinn hefur minnkað til muna.
 3. Takið kjúklinginn úr pottinum og rífið hann í sundur með tveim göfflum.
 4. Bætið kókosmjólk og hvítlauk út í soðið sem var eftir í pottinum og látið suðuna koma upp.
 5. Takið pottinn af hitanum og leggið núðlurnar í hann. Látið þær liggja í nokkrar mínútur eða þar til þær hafa tekið mestu sósuna í sig.
 6. Klippið núðlurnar aðeins niður í pottinum með skærum. Endið á að hræra kjúklingnum og bambusnum út í.
 7. Berið fram með hökkuðum salthnetum og sojasósu.

- - -

Fylgstu með Matarvefnum á Instagram og Facebook. Endalaus ævintýri, hugmyndir, skemmtilegir leikir og allt það heitasta heita...

mbl.is/Svava Gunnarsdóttir
mbl.is