Stórkotstleg heimagerð rif og hrásalat

mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir

Rif eru dásamlegur matur og ekki svo flókin að elda - ef maður kann réttu handtökin. Hér erum við með uppskrift sem er eins heimagerð og þær gerast - og svo ljúffengi að það er slegist um afgangana.

Það er Berglind Hreiðarsdóttir á Gotteri.is sem á heiðurinn að henni og eins og venjulega þá klikkar Berglind ekki.

Heimagerð rif og hrásalat

Fyrir 4-6 manns

Rif

  • 4 x heil óelduð svínarif
  • Góð kryddblanda
  • 2 x steikarpoki

Aðferð:

  1. Hitið ofninn 150°C.
  2. Kryddið rifin vel beggja megin (ég notaði salt, pipar, papriku og Bezt á allt krydd í bland).
  3. Komið þeim fyrir í steikarpoka, 2 rif í hvorn poka.
  4. Hægeldið rifin í pokunum í 1,5 klst, takið þau þá út, opnið pokann og leyfið hitanum aðeins að rjúka úr.
  5. Penslið örþunnu lagi af sósu (uppskrift hér að neðan) á rifin beggja megin og grillið á vel heitu grilli skamma stund (þetta gert til þess að fá stökka húð á kjötið).
  6. Takið af grillinu og penslið 1-2 x sósu á báðar hliðar að nýju, skerið niður, stráið smá sesamfræjum yfir til skrauts og berið fram.

Sósa

  • ½ flaska sæt bbq sósa
  • 2 msk. púðursykur
  • 2 msk. tómatsósa

Blandið öllu saman í skál og leyfið sykrinum að leysast upp. Gott að útbúa sósuna þegar rifin fara í ofninn og hræra reglulega í henni á meðan þau eldast, þá er hún klár til notkunar þegar þau eru tilbúin.

Hrásalat með sumarlegu ívafi

  • ½ kínakálshaus
  • 2 meðalstórar gulrætur
  • ½ grænt epli
  • 1 tsk. sítrónusafi
  • 1 msk. majónes
  • 1 msk. sýrður rjómi
  • 1 tsk. sætt sinnep
  • 1 msk. agave sýróp
  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Saxið kínakál smátt niður og rífið gulrætur og epli með rifjárni.
  2. Kreistið sítrónusafann yfir og blandið saman við grænmetið.
  3. Hrærið majónes, sýrðan rjóma, sinnep og sýróp saman og kryddið til með salti og pipar.
  4. Blandið saman við grænmetið og hrærið vel.
  5. Annað meðlæti sem hentar vel með þessari máltíð er til dæmis franskar kartöflur og maísstönglar.
mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert