Geggjuð flanksteik að hætti læknisins

mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson

Þessi dásemdaruppskrift er úr smiðju hins eina sanna Læknis í eldhúsinu og við mælum svo sannarlega með henni enda flanksteikin vanmetin steik hér á landi sem oft er erfitt að nálgast. 

„Flanksteik er ljúffeng nautasteik sem verður gjarnan seig sé illa með hana farið en fari maður rétt með hana verður hún ekki bara ljúffeng og bragðgóð heldur líka lungamjúk,“ segir Ragnar um steikina og bætir því við að galdurinn sé að marinera hana aðeins áður. „Þannig brýtur maður niður vöðvaþræðina og svo gildir að elda hana ekki of lengi. Þá á hún það til að dragast öll saman og verða seig.“

Þá gildir einnig að sneiða bitann niður á réttan hátt - og skera þvert á vöðvaþræðina. Sé þessari aðferð fylgt verður steikin safarík og góð og það á mjög viðunandi verði.

Heimasíðu Læknisins í eldhúsinu er hægt að nálgast HÉR.

Flanksteik, elduð undir áhrifum frá Kóreu, með kínakáli á tvo vegu - grilluðu, kimchi og hrísgrjónum

Eins og þið sjáið er hráefnalistinn úr öllum áttum - en undir aðaláhrifum frá Kóreu!

Fyrir 4-6 manns

 • 1 kg flanksteik
 • 5 cm engifer
 • 4 hvítlauksrif
 • 1 rauður chilipipar
 • 1 msk. sesamolía
 • 2 msk. rauðvínsedik
 • 2 msk. mírin
 • safi úr hálfri sítrónu
 • 4 msk. soya-sósa
 • 4 msk. jómfrúarolía
 • salt og pipar
 • handfylli fersk steinselja, mynta og graslaukur
 • 1 kínakálshaus
 • 4 msk. hvítlauksolía
 • 1 rauður chili
 • salt og pipar
 • Kimchi-súrkál
 • Hrísgrjón

Aðferð:

 1. Flanksteikin er þunn og það þarf oftast lítið að snyrta hana.
 2. Sneiðið hvítlaukinn, chili og engifer og nuddið við kjötið ásamt jómfrúarolíu, salti og pipar.
 3. Blandið svo saman við rauðvínsediki, mirin, sesamolíu og sítrónusafa.
 4. Bætið svo kryddjurtunum saman við og látið marinerast í að minnsta kosti klukkustund - meira er betra.
 5. Sneiðið kínakálið, fyrst í helminga og starið svo í smástund á mynstrið sem verður til í náttúrunni.
 6. Skerið svo í þriðjunga. Penslið með hvítlauksolíu og dreifið chilipiparnum yfir.
 7. Það er skynsamlegt að setja kínakálið á grillið fyrst þar sem það tekur aðeins lengri tíma að verða tilbúið.
 8. Svo er bara að keyra upp hitann á grillinu. Það þarf ekki að grilla flankann nema í tvær mínútur á hvorri hlið.
 9. Eftir að kjötið hefur fengið að hvíla í nokkrar mínútur er það sneitt niður í þunnar sneiðar. Ég skreytti það með nokkrum graslauksblómum sem voru nýútsprungin þegar ég var að elda þennan ljúffenga rétt.
 10. Auðvitað ætti ég að vera búinn að útbúa mitt eigið kimchi - það er nógu einfalt - en það hafði ég ekki gert og því hafði ég keypt þetta út úr búð. Þetta kimchi rífur aðeins í og er sérlega bragðgott.
 11. Sósan var eins einföld og hugsast getur. Ég sauð upp marineringuna af kjötinu og lét krauma um stund til að sjóða hana niður og þétta sig. Setti síðan klípu af smjöri til að fá gljáa og dýpt í sósuna.
mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson
mbl.is