Biblía pítsuáhugamannsins

Mörgum þykja Flateyjar-pítsur þær allra bestu hér á landi og nú ber svo við að mennirnir á bak við Flatey hafa ákveðið að ljóstra upp öllum leyndarmálum sínum og kenna fólki hvernig á að baka ekta handverkspítsu frá Napólí og ómótstæðileg súrdeigsbrauð í eldhúsinu heima.

Bókin ber titilinn Ég elska þig PIZZA og þykir mikill hvalreki fyrir gourmet-gæðinga enda er mikill áhugi hérlendis á pítsugerð og rjúka eldofnar og steypujárnspönnur út sem aldrei fyrr. Það er því ljóst að bókin er skyldueign í hvert eldhús enda er það nánast Eldhús 101 að kunna að baka almennilega pítsu.

Höfundar bókarinnar eru þeir Haukur Már Gestsson og Brynjar Guðjónsson sem eiga heiðurinn af pítsunum á Flatey. Ferðalag þeirra um lendur súrdeigsbaksturs og pítsugerðar reyndist mun meiri og ítarlegri skóli en þá hafði grunað og má segja að bókin sé glósubókin þeirra þar sem allar mikilvægustu upplýsingarnar er að finna.

Þeir félagar segja að bókin sé í senn kennslubók, sjálfshjálparrit og uppskriftabók í einum pakka. Markmiðið sé að ná góðum tökum á þeirri ævafornu matargerðarlist að búa til gott deig og þar af leiðandi gott brauð og pítsur, úr engu nema hveiti, vatni og smá salti – ásamt smá þolinmæði.

Bókin sé fyrir alla þá sem vilji gera ekta pítsu og súrdeigsbrauð frá grunni og til baksturs í ofninum heima. Hún ætti að nýtast bæði byrjendum sem og laghentum heimabökurum sem vilja þróa aðferðir sínar enn betur. Súrdeig sé miklu meðfærilegra en margan gruni og um leið og þú ert kominn upp á lag með það mun lífið snöggbreytast til hins betra.

Bókin skiptist í tvo hluta. Sá fyrri fjallar um súrdeigsbrauð og sá seinni er helgaður hinni háheilögu pítsugerð þar sem meðal annars er farið gaumgæfilega yfir það hvernig á að búa til ekta handverkspítsu eins og voru gerðar í Napólí á Ítalíu á 19. öld. Farið er yfir allt sem þú þarft að kunna og vita til að geta titlað þig heimaskólagenginn pítsugerðarmeistara og gott betur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert