Maarud kjúklingaréttur með rösti, beikon og löðrandi í ostum

Ljósmynd/María Gomez

Ef þú hefur aldrei sett snakk út á mat þá ertu að missa af nokkru stórkostlegu. Snakk á mat er hrikalega gott svo ekki sé fastar að orði kveðið og hér erum við með æðislegan rétt frá Maríu Gomez á Paz.is sem ætti að slá í gegn allstaðar.

„Þennan rétt er afar einfalt að gera og mæli ég með að þú eigir stórt eldfast mót undir hann eða setjir hann í tvö minni mót því þetta er frekar stór uppskrift. Ég myndi hafa þennan sem svona partý rétt fyrir saumaklúbb eða sem heitan rétt í veislu. Hann er líka hægt að hafa sem kvöldmáltíð en þá mæli ég með fersku salati og nóg af því með og jafnvel góðu nýbökuðu snittubrauði líka," segir María um þennan frábæra rétt.

Maarud kjúklingaréttur með rösti, beikon og löðrandi í ostum

 • 1 bréf beikon (bara svona frekar lítið en þið ráðið hversu mikið þið viljið)
 • 500 gr Aviko Rösti kartöflur
 • 3x kjúklingabringur
 • 1 dós sveppasúpa
 • 1 bolli rifinn Mozzarella
 • 1 bolli rifinn Cheddar
 • 30 gr rifinn parmesan
 • 1 bolli rjómi
 • 1/2 bolli brætt smjör
 • 1/2 bolli sýrður rjómi
 • 1 tsk. chiliflögur
 • 10-15 dropar tabasco sósa
 • 1 tsk. borðsalt
 • 1/2 tsk. laukduft
 • 1/2 tsk. hvítlauksduft (ath ekki hvílaukssalt)
 • 1/2 tsk. svartur pipar

Ofan á:

 • Maarud flögur með salti og pipar
 • 50 gr rifinn parmesan
 • 1 tsk. paprikuduft

Aðferð

 1. Hér þurfið þið stóra skál.
 2. Hitið ofninn á 210°C blástur.
 3. Afþýðið rösti kartöflurnar (ef það hefur gleymst er í lagi að setja þær 20 sek í örbylgjuofninn).
 4. Skerið svo bringur í smáa gúllasbita og beikon í smátt.
 5. Brytjið rösti kartöflurnar niður í skál og setjið kjúklinginn og beikonið út á (hrátt).
 6. Hrærið öllu vel saman.
 7. Takið nú aðra skál og setjið restina af hráefnunum út í hana. Sem sagt súpuna, mozzarella, cheddar, rjóma, brætt smjör, sýrðan rjóma og 30 gr parmesan ost og kryddið með chili flögum, salti, pipar, tabasco, hvítlauksdufti og laukdufti.
 8. Hrærið þessu mjög vel saman og hellið svo út á kjúklinginn í stóru skálinni.
 9. Hrærið öllu mjög vel saman og hellið í eldfast mót og stingið í heitan ofninn í 20 mínútur.
 10. Takið svo út og lækkið ofn niður í 180°C blástur.
 11. Stráið 50 gr af parmesan yfir réttinn og myljið Maarud snakk flögur með salt og pipar yfir og kryddið með paprikuduftinu.
 12. Stingið í ofninn í aðrar 15 mín.

- - -

Fylgstu með Matarvefnum á Instagram og Facebook. Endalaus ævintýri, hugmyndir, skemmtilegir leikir og allt það heitasta heita...

Svo megið þið endilega tagga okkur á Instagram þegar þið eruð að elda eitthvað spennandi @matur.a.mbl

Ljósmynd/María Gomez
Ljósmynd/María Gomez
mbl.is