Mömmu fiskbollur með lauksmjöri

Ljósmynd/Salt eldhús

Það er fátt betra en heimalagaðar fiskbollur og hér er það Sirrý í Salt eldhúsi sem gefur okkur uppskrift sem allir ættu að elska!

„Heimalagaðar fiskbollur eru mikið lostæti. Ekki eru þó allir á sama máli því ég var með 7 ára stubb í mat um daginn og sá þrætti við mig um að það væri hægt að „búa til” fiskbollur. „Maður kaupir þær” sagði sá stutti ákveðinn. Ég sagði honum að þegar ég var lítil var ekki hægt að kaupa þær í búð, bara gera sjálfur og það þótti honum furðulegt. Stubb þótti bollurnar skrýtnar og ólíkar þeim keyptu en féllst á að borða þær þegar ég sagði honum hversu hollar þær væru. Okkur í Salt Eldhúsi er það hjartans mál að gömlu góðu réttirnir sem við erum alin upp á gleymist ekki og þessar bollur eru eitt af því sem við eigum góðar minningar um. Oft söxum við tómata, gúrkur, papriku, fetaost og steinselju saman í skál, dreypum ólífuolíu yfir og berum með bollunum en lauksmjörið er dásamlega gott spari."

Ljósmynd/Salt eldhús

Mömmu fiskbollur með lauksmjöri

Magn: 12-14 stk. fyrir 4-5

  • 600 -700 g hvítur fiskur, ýsa, þorskur, ufsi eða langa
  • ½ laukur
  • 1 ½ dl mjólk
  • 1 egg
  • 1 tsk. salt
  • nýmalaður pipar 
  • 2 msk. hveiti eða annað mjöl sem hugnast (má sleppa því en þær verða þéttari)
  • 1 tsk. þurrkaðar kryddjurtir, ég nota t.d. oft Herbes de Provence eða 2 msk. ferskar jurtir t.d. dill, steinselja graslauk
  • 2 msk. smjör
  • 2 msk. olía

Skerið fiskinn í bita. Mér finnast fiskbollur bestar þegar þær eru vel unnar saman og þéttar (t.d. ekki með laukbitum) þannig að best er að saxa laukinn og setja hann í matvinnsluvél ásamt 1-2  bitum af fisk og ½ dl mjólk og vinna allt mjög vel saman. Skafa niður með hliðum nokkrum sinnum og gera þetta almennilega þar til ekki sést í laukbita. Bætið þá fisk, eggi og því sem eftir er af mjólk í ásamt salti, pipar og kryddum. Vinnið vel saman í  fars og bætið mjöli, ef þið notið það, út í í restina. 

Bræðið smjör og olíu á pönnu. Mótið bollur og steikið fallega brúnar á báðum hliðum, passið að lækka hitann svo þær verði ekki of dökkar. Þegar þið eruð búin að snúa bollunum, lækkið hitann vel niður og látið bollurnar eldast í gegn. Berið fram með soðnum kartöflum og lauksmjöri,

Lauksmjör:

  • 2 laukar
  • 50 -80g smjör (magn eftir smekk og samvisku)
  • 3 msk. olía

Afhýðið laukinn, skerið í tvennt og síðan í þunnar sneiðar. Hitið smjör og olíu í rúmgóðum potti eða djúpri pönnu. Setjið laukinn úr í og látið hann sjóða saman við smjörið við meðalhita, ekki steikja hann, hann á að vera mjúkur í gegn og djúsí. Þetta getur tekið góðar 10 mínútur og fínt að gera á meðan fisbollurnar klára að eldast. 

Ljósmynd/Salt eldhús
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert