Albert í alsælu í Flatey

Hér er Albert ásamt Elínborgu hótelstýru á Hótel Flatey. Í …
Hér er Albert ásamt Elínborgu hótelstýru á Hótel Flatey. Í bakgrunninum má sjá Pál Bergþórsson, veðurfræðing og tengdaföður Alberts. Ljósmynd/Albert Eiríksson

Albert Eiríksson heldur áfram ferðalagi sínu um Ísland þar sem hann uppgötvar skemmtilega veitingastaði og áhugaverða staði. Hann var staddur í Flatey á dögunum þar sem hann kunni ákaflega vel við sig. Síðast en ekki síst gaf hann Elínborgu hótelstýru á Hótel Flatey framúrskarandi einkunn og bar matnum vel söguna. 

Heimasíða Alberts.

„Það er eiginlega ólýsanlegt að koma til Flateyjar á Breiðafirði, en þangað er farið með Baldri, hvort sem er frá Stykkishólmi eða Brjánslæk.

Því fylgir dúnmjúk vernd að dvelja á eyju í burtu frá skarkala heimsins. Kyrrðin er mögnuð. Fuglalífið er einstakt, því að hér er hvorki tófa né minkur og fuglarnir því friðsælir.

Nema krían sem kroppar í kind þegar hún vogar sér of nálægt hreiðrinu. En kindin skeytir ekkert um það, heldur bara áfram að bíta gras eins og ekkert hefði í skorist. Þegar við litum út um gluggann við morgunverðarborðið á Hótel Flatey, voru æðarungahnoðrar að baða sig í flæðarmálinu og við bókstaflega krúttuðum yfir okkur.

Þorpið við Grýluvog er hlýlegt, litfögru fallegu húsin sem mörg eru frá 19. öld eru smekklega endurgerð og að þeim mikil prýði. Sagan er við hvert fótmál, klaustrið, verslunin, bókhlaðan, kirkjan. Ungfrúin góða og húsið eftir Guðnýju Halldórsdóttur Laxness verður ljóslifandi í huganum. Á hótelinu er bráðskemmtileg „Símaskrá“, Flateyjarbók hin nýja, þar sem saga hvers húss er rakin ásamt helstu upplýsingum, s.s. leiðsögn um Flatey og samfélagssamningur Framfarafélagsins, en það er stórkostleg lesning.

Elínborg Hauksdóttir rekur Hótel Flatey af miklum myndarbrag. Hótelið er gert listilega upp af Minjavernd, eins og allt sem þau gera og ekki síst skapa smáatriðin töfrandi heildarmynd, fallegir munir og samræmi. Og koddarnir eru yndislegir! Tíminn stendur í stað og gleðihormón fljóta um æðar.“

Maturinn á Hótel Flatey þótti mikið lostæti.
Maturinn á Hótel Flatey þótti mikið lostæti. Ljósmynd/Albert Eiríksson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert