Spaghetti bolognese með sparitvisti

Ljósmynd/Linda Ben

„Þetta er skemmtileg útgáfa af hinum klassíska rétti en rauðvínið í sósunni skilar sér með kröftugu og dýpra bragði af sósunni. Annars er þetta afskaplega einfaldur réttur sem allir eiga að geta leikið sér að að galdra fram í eldhúsinu,“ segir Linda Ben um þessa uppskrift sem við hvetjum ykkur til að prófa.

Rauðvíns-spaghetti bolognese

 • 250 g spagettí
 • 500 g nautahakk
 • ólífuolía
 • 1 laukur
 • 1 gulrót
 • 2-3 hvítlauksgeirar
 • 650 ml pastasósa
 • 1 msk. ítölsk kryddblanda (óreganó, timían, basil)
 • 1/8 tsk. þurrkað chili
 • 1 dl rauðvín
 • salt og pipar
 • parmesan
 • ferskt basil

Aðferð:

 1. Sjóðið spagettí samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum.
 2. Skerið lauk og gulrót niður og steikið á pönnu upp úr ólífuolíu.
 3. Bætið nautahakki út á pönnuna og steikið það í gegn.
 4. Skerið hvítlauk eða pressið í gegnum hvítlaukspressu og steikið létt, bætið svo pastasósunni út á. Kryddið til með ítalskri kryddblöndu, chili. Bætið rauðvíninu út á og blandið saman, kryddið með salti og pipar og smakkið til. Látið suðuna koma upp og leyfið að malla rólega í 4-5 mín. Bætið spagettíinu út á og blandið saman.
 5. Berið fram með parmesan og fersku basil.
Ljósmynd/Linda Ben
mbl.is