Heimagert limoncello úr Heimabarnum

Hér gefur að líta uppskrift úr bókinni Heimabarinn eftir þá Andra Davíð Pétursson og Ivan Svan Corvasce en bókin inniheldur mikinn fjölda kokteiluppskrifta, bæði áfengra og óáfengra auk uppskrifta að líkjörum og sírópum, mikinn fróðleik og annað skemmtilegt.

Flest elskum við Limoncello og nú getum við búið það til heima.

Limoncello

  • 300 ml vatn
  • 300 g sykur
  • 8 stk. lífrænar sítrónur
  • 400 ml vodka
  • 25-100 ml sítrónusafi

Limoncello er ítalskur sítrónulíkjör sem flestir kannast við. Gulleitur, sætur og ferskur líkjör sem passar vel í kokteila en er einnig ljúffengur eftir góða máltíð. Það eru til hundruð leiða til að búa til Limoncello en hver fjölskylda á Ítalíu er með sína uppskrift þar sem tegund sítrónunnar, tíminn sem tekur að búa drykkinn til, sykurmagn, spíramagn og fleira er mismunandi. Þennan líkjör getur tekur stuttan tíma að búa til en þeir sem gera hann árlega á Ítalíu taka oft marga mánuði í að ná honum réttum. Hér er uppskrift af limoncello sem getur tekið allt frá klukkustund og upp í mánuð að klára.

Aðferð: Við byrjum á að skræla sítrónurnar með rifjárni, og búa til Oleo Saccharum með sykrinum í stál- eða glerskál. Hér verðum við að passa að rífa bara ysta lagið á sítrónunni því hvíta lagið sem er næst er beiskt og við viljum það ekki.

Þá er berkinum einfaldlega nuddað saman við sykurinn, með sleif eða höndunum í dágóðan tíma þar til allar olíurnar úr berkinum hafa blandast við sykurinn.

Vatnið er hitað í litlum potti og þegar það er við suðumark hellum við því í skálina og hrærum vel þar til allur sykurinn er bráðinn. Nú setjum við vodkann saman við, setjum við lok yfir skálina og látum hana standa við stofuhita í að minnsta kosti klukkustund.

Að þeim tíma liðnum getum við annað hvort sigtað allan börkinn frá og bætt við smá sítrónusafa fyrir auka sýru og meira sítrónubragð eða við getum sett innihald skálarinnar í lokaða krukku og inn í ísskáp með berkinum í lengri tíma, en þannig náum við dýpra sítrónubragði úr berkinum og meiri lit í líkjörinn.

Þegar líkjörinn hefur kólnað niður í 4-6 gráður er hann tilbúinn til notkunar.

Líkjörinn geymist í allt að tvo mánuði í kæli.

Ljósmynd/Kristinn Magnússon
Heimabarinn er fáanlegur í flestum verslunum.
Heimabarinn er fáanlegur í flestum verslunum.
Ivan Svanur og Andri Davíð.
Ivan Svanur og Andri Davíð. Ljósmynd/Kristinn Magnússon
mbl.is