„Úr varð svona agalega góður eftirréttur!“

Ljósmynd/Þórunn Jóna Héðinsdóttir

Keppnin um Páskaeftirrétt Lindt fór fram á dögunum og það var Karolína Helenudóttir sem kom sá og sigraði með æðislegum eftirrétt.

Karólína er ekki óvön því að galdra fram girnilega rétti því hún rekur sitt eigið kaffihús, Sykurverk Cafe og veisluþjónustu á Akureyri, ásamt móður sinni og systur.

„Ég hef alla tíð haft ótrúlegan áhuga á bakstri og kökuskreytingum, en í seinni tíð hefur áhuginn farið sérstaklega út í uppskriftagerð og finnst mér lang skemmtilegast að finna upp á einhverju nýju og gómsætu í eldhúsinu,“ segir Karolína en eftirrétturinn sem hún sigraði keppnina með er Lindor rjómaostaskál með sítrus og fersku ástaraldini.

„Þegar ég sá uppskrifta leikinn hér þá hugsaði ég að ég gæti nú ekki annað en tekið þátt þar sem þetta er nú mitt aðal áhugamál og bjó til þessa frábæru uppskrift sérstaklega fyrir þennan leik, og viti menn úr varð svona agalega góður eftirréttur!“

Karolína Helenudóttir
Karolína Helenudóttir Ljósmynd/Þórunn Jóna Héðinsdóttir

Lindor rjómaostaskál með sítrus & fersku ástaraldin

Botn:

  • 100 g eggjahvítur
  • 160 g sykur
  • 40 g púðursykur
  • 1/2 tsk. vanillu dropar

Rjómaosta Lindor fylling:

  • 500 g rjómaostur
  • 500 g rjómi
  • 150 g flórsykur
  • 1 tsk. vanillusykur
  • 200 g hvítar LINDOR kúlur

Lemon curd (sítrónu búðingur):

  • 100 g ferskur sítrónu safi (u.þ.b. 3 stórar sítrónur)
  • 180 g sykur
  • 200 ml vatn
  • 4 msk. maísmjöl
  • 3 stk. eggjarauður
  • 20 g smjör

Aðferð:

Marengs: Setjið eggjahvítur og vanillu í skál og þeytið á miðlungs hraða, þegar byrjar að myndast froða skal sykrinum helt varlega út í jafnt og þétt. Hækkið hraðan og þeytið þar til stíft eða í um 10 mínútur. Smyrjið á bökunarpappír um 2 cm þykku lagi af marengs. Bakið í 60 mínútur á 140°C og leyfið að kólna inni í ofni, helst yfir nótt. Myljið marengsinn í grófa bita og setjið á botninn á t.d. eldföstumóti eða stórri skál.

Fylling: Setjið rjómaost, rjóma, flórsykur og vanillusykur í skál og þeytið með þeytara þar til blandan er eins og þeyttur rjómi. Bræðið því næst ljúffengu Lindor kúlurnar með 50ml af rjóma og þeytið það saman við blönduna. Hellið blöndunni yfir botnin og geymið í ísskáp.

Lemon curd: Sítrónusafi, sykur, vatn og maísmjöl sett saman í pott og hitað upp að suðu. Hrærið stöðugt í pottinum með písk svo ekki brenni við í botninn. Því næst skal slökkt á hellunni og eggjarauðum ásamt smjöri bætt saman við. Leyfið búðingnum að kólna áður en honum er síðan dreift/sprautað yfir eftirréttinn. Síðast en ekki síst skal strá ljúffengu fersku ástaraldin yfir réttinn og skreyta með fleiri dásamlegum lindor kúlum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert