Brennd basknesk ostakaka fyrir matarástina

Brennd basknesk ostakaka sem steinliggur. Ótrúlega einföld en fullkomlega rjómakennd …
Brennd basknesk ostakaka sem steinliggur. Ótrúlega einföld en fullkomlega rjómakennd ostakaka með brenndum toppi. Ljósmynd/Snorri Guðmundsson

Þegar kemur að heimi eftirréttanna hefur einni tiltekinni köku tekist að fanga hjörtu og bragðlauka mataráhugamanna um allan heim er og það er þessi dásemd, „Brennda baskneska ostakakan. Þessi einfaldi en syndsamlega góði eftirréttur kemur frá Baskalandi á Norður-Spáni og aðdráttarafl hans felst í óhefðbundnum sjarma hans. Snorri Guðmundsson mat­gæðing­ur með meiru sem sérhæfir sig meðal annars í matarljósmyndun og uppskriftargerð á heiður­inn af þessari draumkenndu ostaköku og fer vel yfir sögu hennar og innihaldi á heimasíðu sinni Matur og myndir. 

Brennda baskneska ostakakan, eða "Tarta de Queso," er eftirréttur sem gerir uppreisn gegn hinni hefðbundnu ostaköku. Það sem gerir þessa köku alveg einstaka er mínimalísk uppskriftin og staðreyndin að það þarf ekki að baka hana í vatnsbaði. Kakan er búin til úr fáum hráefnum, aðeins rjómaosti, sykri, rjóma, eggjum, hveiti og stundum vanillu. Hún er síðan bökuð við háan hita sem brennir á kökunni toppinn, þó aðeins allra ysta lagið, því innvolsið er rjómakennd fullkomnun. Skorturinn á skorpu gerir rjómalöguðu ostakökubragðinu kleift að skína í gegn og brenndi toppurinn gefur æðislegt karamellubragð,“ segir Snorri sem sjálfur forfallinn aðdáandi hennar.

Snorra finnst þykir gott að bera kökuna fram með sykruðum jarðarberjum, en það er mjög einfalt að útbúa þau og fylgir uppskrift frá Snorra með sykruðum jarðarberjum líka með.

Þessi dásemd er ekta kaka sem gaman væri að gleðja vinnufélagana með og brjóta upp hversdagsleikann enda er matur mannsins megin.

Fyrir þá sem vilja þá er hægt að setja ofan …
Fyrir þá sem vilja þá er hægt að setja ofan á hana sykruð jarðarber og njóta eða önnur ber eftir smekk. Ljósmynd/Snorri Guðmundsson

Brennd basknesk ostakaka

  • 500 g rjómaostur
  • 350 ml rjómi
  • 180 g sykur
  • 5 stk egg
  • 35 g hveiti
  • 1 stk. vanillustöng eða 1 tsk. vanilludropar 

Aðferð:

  1. Forhitið ofn í 220°C með blæstri.
  2. Smyrjið 20 cm springform mót með smjöri eða spreytið með bökunarspreyi.
  3. Takið eina örk af bökunarpappír og krumpið saman (það gerir auðveldara að koma pappírnum fyrir í mótinu).
  4. Komið pappírnum fyrir í mótinu og látið kanta pappírsins standa upp úr þar sem kakan lyftist svolítið við bökun.
  5. Spreyið pappírinn svo með bökunarspreyi eða smyrjið með smjöri.
  6. Setjið öll hráefnin í skál og þeytið með handþeytara þar til allt hefur samlagast að fullu (fræhreinsið vanillustöngina og notið bara fræin).
  7. Hellið blöndunni í mótið og færið varlega inn í ofn.
  8. Bakið í 50 mínútur eða þar til toppurinn er búinn að taka dökkan lit en kakan er þó „jiggly“ í miðjunni.
  9. Kakan mun lyftast svolítið við bökun en falla þegar hún kemur úr ofninum.
  10. Takið kökuna úr ofninum og látið standa í 1 klukkustund.
  11. Færið svo í ísskáp og kælið yfir nótt.
  12. Fjarlægið bökunarmótið og losið bökunarpappírinn varlega frá áður en kakan er skorin.
  13. Ef vill þá er hægt að setja sykruð jarðarber ofan á en það er valfrjálst. Sumum finnst best að leyfa einfaldleikanum að njóta sín.

Sykruð jarðarber

  • 250 g jarðarber
  • 1 stk. sítróna
  • 2 msk. sykur 

Aðferð:

  1. Skerið toppana af jarðarberjunum og skerið berin svo í fernt.
  2. Setjið í skál með 2 msk. af sykri og rífið svolítinn sítrónubörk saman við (varist að taka hvíta undirlagið með).
  3. Kreistið smá sítrónusafa saman við og blandið vel saman.
  4. Hyljið og setjið í kæli í 30 mínútur eða þar til bera á kökuna fram.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert