Lúxusfléttubrauð eins og það gerist best

Finnur Guðberg Ívarsson bakaranemi knái á heiðurinn að uppskriftinni fyrir …
Finnur Guðberg Ívarsson bakaranemi knái á heiðurinn að uppskriftinni fyrir helgarbaksturinn að þessu sinni og býður upp á brauð sem á eftir að slá í gegn. Samsett mynd/Árni Sæberg

Uppskrift fyrir helgarbaksturinn er fastur liður og kemur að þessu sinni úr smiðju bakaranemans Finns Guðbergs Ívarssonar, nemanda við Hótel- og matvælaskólann í Kópavogi.

Að þessu sinni deilir hann með lesendum uppskrift að lúxusfléttubrauði sem á eftir að hitta í mark. Þetta brauð er syndsamlega ljúffengt og fallegt, það á vel við þegar á að gera vel við sig og sína.

Finnur hefur verið að gera garðinn frægan í bakstri þrátt fyrir ungan aldur og þó svo að hann hafi ekki lokið námi, en það styttist í lok námsins, sem verða í vor. Hann er í landsliði íslenskra bakara og er núverandi Íslandsmeistari ungra bakara, auk þess sem hann hlaut þriðja sætið fyrir brauð ársins í ár. Það er því tilvalið að fá uppskrift úr smiðju Finns en brauðið sem hann mælir með fyrir komandi helgi er einstaklega skemmtilegt brauð, fléttubrauð. Fléttubrauðið er hátíðlegt í útliti og það er þess vegna hægt að bjóða upp á það með kvöldverði. Til dæmis góðum pastarétti eða súpu, jafnvel með grilluðum humarhölum. Bera það fram á viðarbretti og þeyta íslenskt smjör með. Gerist ekki betra.

Margar þjóðsögur til um fléttubrauðið

Fléttað brauð hefur fyrirfundist í margar aldir og til eru margar gamlar þjóðsögur um það. Ein sagan segir frá því að konur hafi verið skyldugar til að fylgja eiginmönnum sínum í gröfina þegar þeir dóu á undan þeim. Ekki er vitað hvort þessu var að fullu framfylgt, en líklegri ástæða er talin að konur hafi fléttað hár sitt, skorið af og látið fylgja með í gröfina sem að lokum varð að fléttuðu brauði sem átti að minna á fléttur konunnar. Þegar þessi siður fór að líða undir lok urðu fléttubrauðin æ algengari á borðum og fóru að verða daglegt brauð, brauð sem áður var bara borið fram á hátíðisdögum.

Gott að baka tvö og eiga annað til góða

Finnur deilir hér uppskriftinni að hinu fræga brauði og uppskriftin er að tveimur brauðum. Finnur segir gott að baka annað brauðið aðeins minna, frysta og klára svo að baka þegar þig langar aftur í brauðið ef ekki á að nota bæði brauðin samdægurs. Sumir setja birkifræ á fléttubrauðið en það er algjörlega valfrjálst.

Lúxusfléttubrauðið er syndsamlega ljúffengt og um það eru til margar …
Lúxusfléttubrauðið er syndsamlega ljúffengt og um það eru til margar skemmtilegar þjóðsögur. mbl.is/Árni Sæberg

Lúxusfléttubrauð

2 stykki

  • 545 g hveiti
  • 235 g mjólk
  • 1 egg
  • 10 g salt
  • 60 g púðursykur
  • 15 g þurrger
  • 125 g smjör við stofuhita

Aðferð:

  1. Setjið allt hráefnið nema smjör saman í hrærivél og hnoðið hægt með króki í um það bil 5 mínútur.
  2. Bætið síðan smjörinu saman við og hnoðið frekar hratt í 6-8 mínútur eða þar til deigið er hætt að klístrast við skálina og orðið slétt og hálfglansandi.
  3. Skiptið deiginu síðan upp í 8 hluta, um það bil 120 grömm hvern, formið í stuttar lengjur og látið standa undir viskastykki í fimm mínútur.
  4. Eftir að deigið hefur fengið að hvíla er næsta skref að lengja lengjurnar út í sirka 25 cm og flétta eins og myndirnar sýna.
  5. Hitið ofninn í 40°C og slökkvið svo á honum og setjið fat með heitu vatni inn ásamt brauðunum á ofnplötu klæddri bökunarpappír.
  6. Látið þau hefast inni í ofninum þar til þau hafa tvöfaldast.
  7. Takið þá brauðin úr ofninum og hitið hann í 210°C hita með blæstri og penslið brauðin með eggjum og mjólk.
  8. Setjið brauðin síðan aftur inn í ofn og bakið í 25-35 mínútur eða þar til þau verða fallega ljósgullinbrún á litinn.
Hér má sjá hvernig brauðið er fléttað.
Hér má sjá hvernig brauðið er fléttað. Ljósmynd/Finnur Guðberg Ívarsson
Finnur hefur verið að gera garðinn frægan í bakstri þrátt …
Finnur hefur verið að gera garðinn frægan í bakstri þrátt fyrir ungan aldur. Hann er í landsliði íslenskra bakara og er núverandi Íslandsmeistari ungra bakara svo fátt sé nefnt. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert