20-40 ferðir falla niður

Sjúkrabíll
Sjúkrabíll Júlíus Sigurjónsson

Allt nema nauðsynlegir sjúkraflutningar falla niður í verkfallsaðgerðum landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri Reykjavíkur, segir til viðbótar bætast við yfirvinnubann.

„Það þýðir í raun og veru að menn sinna nú ekki þeim verkefnum sem að öllu jöfnu eru unnin í yfirvinnu. Slík verkefni hjá okkur eru t.d. utanbæjarflutningar, þegar við flytjum sjúkling frá einhverri stofnun á höfuðborgarsvæðinu út fyrir okkar svæði. Þetta getur skapað óþægindi fyrir sjúkrahúsin, þ.e. inn kemur sjúklingur sem þau sitja uppi með,“ segir Jón Viðar í samtali við mbl.is.

 Almennir sjúkraflutningar falla því niður en með þeim eru sjúklingar fluttir á milli sjúkrastofnana. „Álagið á þeim er mun meira á dagvöktum á virkum dögum. Þetta eru um 70-75% af flutningamassa okkar. Flutningafjöldinn hjá okkur a tólf tímum eru að meðaltali 50-70 ferðir. Þetta eru u.þ.b. 20-40 ferðir á dag sem leggjast af,“ segir Jón Viðar.

Dagbjört Þyrí Þorvarðardóttir, tímabundinn innlagningastjóri Landspítalans, segir töluverða flutninga á milli húsa daglega. Aðspurð segir hún mögulegt að sjúklingar gætu nú safnast á deildum sem skapar óþægindi fyrir starfsmenn og sjúklinga.

 „Ef það kemur til þess að við þurfum flutning sem við teljum nauðsynlegan þá er það tekið fyrir á fundi,“ segir Dagbjört Þyrí sem kveður verkfallið þó hafa gengið nokkuð hnökralaust síðast.

„Við áttum gott samstarf við slökkviliðið og eins vorum við bara heppin með þann dag.“
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert