„Þessar barnabækur teikna sig ekki sjálfar“

Fyrsta bók Hrefnu Bragadóttur kom út á dögunum, og það …
Fyrsta bók Hrefnu Bragadóttur kom út á dögunum, og það í nokkrum löndum. Ljósmynd / Hrefna Bragadóttir

Myndskreytirinn og barnabókahöfundurinn Hrefna Bragadóttir sendi nýlega frá sér sína fyrstu bók, en hún nefnist Bókin hans Breka. Þrátt fyrir að þetta sé fyrsta útgefna bók Hrefnu er hún nú þegar komin út á nokkrum tungumálum, í fjölmörgum löndum, meðal annars Hollandi, Rússlandi, Kína og Nýja-Sjálandi. Hrefna gaf sér tíma til að svara nokkrum spurningum, þrátt fyrir miklar annir. Enda teikna þessar barnabækur sig ekki sjálfar, líkt og hún segir sjálf frá.

Hvert sækir þú innblástur?

„Ég sæki innblástur á svo marga staði. Þegar mig skortir hugmyndir þá reyni ég að hafa ekki of miklar áhyggjur af því heldur fer ég og geri eitthvað allt annað. Ég fer þá á kaffihús, fylgist með fólki og samræðum, les blaðagreinar, horfi á dýralífsþætti, hjóla um götur Cambridge, heimsæki vini í London, fer á listasöfn og leyfi mér almennt að dreifa huganum. Það getur stundum verið erfitt að gefa sér þann tíma, því nú til dags á allt að gerast svo hratt. Að hægja á ferðinni er þó eitt það mikilvægasta sem ég geri í svona starfi,“ segir Hrefna sem búsett hefur verið í Englandi um nokkurra ára skeið, þar sem hún bæði stundaði nám og vann að hreyfimyndagerð fyrir sjónvarpsstöðvarnar BBC og Nickelodeon.

Segðu mér frá nýju bókinni þinni, hvernig kom það til að þú gafst hana út? Og það á nokkrum tungumálum.

Bókin hans Breka er útskriftarverkefni mitt úr MA-námi í barnabókamyndskreytingu hér í Cambridge School of Art. Hugmyndin að bókinni kviknaði þegar ég rakst ég á blaðagrein sem fjallaði um topp tíu ljótustu dýr í heimi. Mér fannst þessi grein mjög fyndin og fór þá að velta fyrir mér af hverju sum dýr eru vinsælli söguhetjur í barnabókum en önnur, og hvað það er ósanngjarnt. Það var eiginlega á því augnabliki sem hugmyndin að Breka fæddist, þótt hún fjalli líka svolítið um mitt eigið ferli í að finna sjálfa mig í þessum bransa,“ viðurkennir Hrefna sem datt í lukkupottinn á eigin útskriftarsýningu þegar hún fékk tilboð frá útgefanda.

„Þetta gerðist allt voðalega hratt og áður en ég vissi af var ég komin með umboðsmann og tveggja bóka samning hjá útgefandanum Nosy Crow. Þeir hafa svo séð um að koma bókinni á heimsmarkað, og er hún komin út á Íslandi, Bretlandi, í Hollandi, Rússlandi, Kína, Nýja-Sjálandi og í Ástralíu, sem er bara mjög spennandi.“

Hefur þú lengi verið að teikna? Var þér snemma ljóst að þetta væri það sem þú ætlaðir að leggja fyrir þig?

„Já, um leið og ég lærði að halda á blýanti var ég oftast einhvers staðar krotandi á blað. Ég er mjög þakklát fyrir að eiga foreldra sem hvöttu mig áfram í listinni þrátt fyrir alla óvissuna sem því starfi getur fylgt. Ég lauk BA-námi í hreyfimyndagerð hér í Englandi og vann svo við að búa til hreyfimyndaseríur fyrir BBC, Nickelodeon og fleiri í nokkur ár. Sú reynsla hefur gagnast mér mikið í að skrifa og myndskreyta barnabækur,“ segir Hrefna, sem dreymir um að búa til eigin teiknimyndaþætti einn daginn.

Hvað er það við barnabækur sem heillar þig?

„Það að geta búið til heila veröld fyrir lesandann, alveg frá grunni. Barnabækur eru líka eitthvað sem börn geta lesið með foreldrum sínum, aftur og aftur, og skoðað myndirnar á eigin hraða og forsendum,“ játar Hrefna og bætir við að starfið sé auk þess mjög gefandi.

Hvað finnst þér skemmtilegast að teikna?

„Mér finnst langskemmtilegast að skapa furðulega karaktera sem skera sig úr hópnum. Þeir eru vanalega svolítið óöruggir með sig eða ónægðir með eitthvað. En þannig kvikna hugmyndirnar venjulega og ég fer að velta fyrir mér af hverju þeim líður svona, og hvernig hægt sé að laga það.“

Hrefna segist eiga margar fyrirmyndir, og játar að erfitt sé að gera upp á milli listamanna. Hún hrífst þó að barnabókum sem hafa að geyma eftirminnilegar persónur og áhugaverðan söguþráð, til að mynda eftir höfundana Quentin Blake og Roald Dahl, Maurice Sendak, Jon Klassen, Oliver Jeffers og Polly Dunbar svo einhverjir séu nefndir.

Hvernig er dæmigerður dagur í þínu lífi?

„Ég er búsett í Cambridge og deili vinnustofu með fjórum barnabókahöfundum og ýmsum listamönnum, þar sem ég vinn frá sirka 9  á morgnana til 18 á kvöldin. Ég vann heiman frá að Bókinni hans Breka, en uppgötvaði fljótt að það hentar mér miklu betur að mæta til vinnu á hverjum degi og geta svo skilið hana eftir þar.“

Hvað gerir þú þegar þú ert ekki að teikna?

„Ég hef mjög gaman af því að vera úti í náttúrunni. Ef tími og peningar leyfa finnst mér mikilvægt að ferðast um heiminn og skoða nýtt umhverfi.“

Hvað gerir þú til að slaka á, þegar þú ert búin að vinna yfir þig?

„Mér finnst gott að koma heim eftir mikla vinnutörn, hlusta á kósý tónlist og elda góðan mat. Stundum fer ég í jóga ef ég hef orku í það, en annars snýst það voða mikið um að eyða tíma með góðum vinum og setja tærnar upp í loftið,“ viðurkennir Hrefna sem er með mörg járn í eldinum.

Ertu með fleiri bækur í smíðum?

„Já, ég er að ljúka við bók númer tvö fyrir útgefandann minn hér í Englandi. Hún fjallar um krókódíl sem fer að heimsækja ofurhetju-íkorna í New York, en lendir í alls konar ævintýrum á leiðinni. Svo var ég að taka að mér stutt verkefni við að hanna karaktera fyrir teiknimyndahönnuð sem er að búa til auglýsingu,“ segir Hrefna að lokum sem augljóslega mun hafa nóg fyrir stafni á næstunni.

Hér má sjá kápuna sem prýðir Bókina hans Breka.
Hér má sjá kápuna sem prýðir Bókina hans Breka. Skjáskot Forlagid.is
Hrefna leggur nú lokahönd á sína aðra bók, en hún …
Hrefna leggur nú lokahönd á sína aðra bók, en hún fjallar um ævintýri krókódíls. Mynd / Hrefna Bragadóttir
Hrefna eyðir miklum tíma á skrifstofunni sinni, þar sem hún …
Hrefna eyðir miklum tíma á skrifstofunni sinni, þar sem hún teiknar allan liðlangan daginn. Ljósmynd / Hrefna Bragadóttir
mbl.is

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

svarar spurningum lesenda

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál