Fer í þakklætisgöngu til að fá hugarró

Heiða Björg Hilmisdóttir gefur kost á sér í 2. sæti …
Heiða Björg Hilmisdóttir gefur kost á sér í 2. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar, gefur kost á sér í 2. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík. Heiða Björg er 46 ára, gift Hrannari Birni og samtals eiga þau fjögur börn, þau Ísold Emblu 9 ára, Sólkötlu 12, Hilmi Jökul 19 og Særósu Mist 26 ára. Heiða Björg og Hrannar eru í fjarbúð en hann er búsettur í Danmörku. Heiða Björg er með MSc í næringarrekstrarfræði, MBA og diploma í jákvæðri sálfræði.

Getur þú lýst starfinu þínu?

„Sem fulltrúi borgarbúa í stjórn borgarinnar gegni ég ýmsum skyldum, ég er á mínu fyrsta kjörtímabili og á þeim tíma hef ég setið í fjölda nefnda og ráða um mismunandi málefni. Heilbrigðisnefnd, stjórnkerfis- og lýðræðisnefnd, borgarráði og er í umhverfis- og skipulagsráði, velferðarráði og formaður ofbeldisvarnarnefndar. Það hefur verið áhugavert að kynnast borginni frá svona mörgum ólíkum sjónarhornum allt frá skólplögnum yfir í hvernig við stuðlum að virku lýðræði. Það er bæði mikið að lesa og margir fundir að sækja en svo eru líka stöðug samskipti við borgarbúa sem gera starfið skemmtilegt, gefandi og krefjandi á sama tíma.“

Hvers vegna sóttist þú eftir þessu starfi?

„Ég hef brennandi áhuga á samfélaginu okkar og hvernig við getum gert Reykjavík að betra samfélagi þar sem allt fólk upplifir sig velkomið og þátttakendur í samfélaginu. Ég var í skólaráði í skóla barnanna minna og á langveikt barn sem alltaf var að rekast á í kerfinu, og í stað þess að tuða bara heima ákvað ég að bjóða fram krafta mína til að bæta kerfið og gera það mannvænna og færa þjónustuna nær borgarbúum öllum.“  

Hvað skiptir máli fyrir konur að hafa í huga ef þær ætla að ná langt á vinnumarkaði?

„Það skiptir mestu máli að vita hvað maður vill og setja markið á það og svo þurfa konur að standa sig jafnvel í starfi oftast betur en karlar til að ná langt. Það þarf þrautseigju, þekkingu, áhuga og sjálfstraust og þá geta konur og karlar flest.“

Hvernig var þinn ferill?

„Ég menntaði mig fyrst sem sjókokk og svo sem matartækni þar sem verknámið var á Landspítala og þar vann ég líka í ár eftir stúdentspróf með öflugum konum sem voru frábærar fyrirmyndir. Ég valdi að fara i Gautaborgarháskóla því ég hafði endalausan áhuga á næringarfræði og mat og matarmenningu. Þegar ég var að klára mastersprófið mitt var draumastarfið auglýst á Íslandi og ég flaug heim í viðtal og alflutt skömmu síðar. Frá árinu 2000 vann ég svo sem yfirmaður á Ríkisspítölum/Landspítala með alls konar ábyrgð og starfsheitum. Lengst af sem forstöðumaður yfir eldhúsum og matsölum Landspítala en líka sem deildarstjóri og gæðastjóri. Ég var yfirmaður á erfiðum tímum þar sem verið var að loka stofnunum sem höfðu starfað lengi og oft miklar tilfinningar í spilunum sem við sem vorum í framkvæmdinni þurftum að „díla“ við. Við þurftum að fara yfir framleiðslugetu, þjónustu og setja viðmið um næringu sjúklinga. Mig dreymdi um að bæta matinn og bæta þjónustuna, að fólk gæti valið milli rétta. Það tókst að mestu leyti áður en ég tók skyndilega ákvörðun um að gefa kost á mér í borgarstjórnarkosningunum 2014. Þá hafði ég verið virk í Kvennahreyfingu Samfylkingarinnar um nokkra hríð og fékk mikið pepp í að taka það skref. Sem borgarfulltrúi hef ég komið að mörgum góðum ákvörðunum og þá kannski helst átt tillögur sem mér hafa fundist mikilvægar í velferðarmálum. Meðfram vinnu sinnti ég minni ástríðu sem er matargerð og var blaðamaður hjá hinum ýmsu blöðum og eftir mig hafa komið út tvær uppskriftabækur.“

Fannst þér þú uppskera á einhverjum tímapunkti að þú værir búin að ná markmiðunum þínum?

„Ég hef yfirleitt sett vinnuna mína þannig upp að ég er alltaf að ná minni markmiðum, bæta ferla, endurskoða gæðakerfi og fleira. En mér persónulega fannst ég hafa náð markmiði þegar framleiðslueldhús Landspítala var orðið nokkuð vel tækjavætt og við vorum komin á þann stað að geta boðið öllum sjúklingum val á milli rétta sem innihalda næringu sem hentar þeim samkvæmt bestu rannsóknum. Ég gat vel hugsað mér að halda áfram og þróa starfið meira eða takast á við nýtt starf sem stjórnandi á öðrum stað þess vegna. Það varð svo borgarstjórn og þar fannst mér ég virkilega hafa náð markmiði mínu þegar ofbeldisvarnarnefnd var stofnuð og við opnuðum Bjarkarhlíð þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis, bæði mál sem ég hafði lagt mikla áherslu á fyrir og eftir kosningar.  Svo eru það bækurnar, að sjá hugmyndir og tilraunir enda í bók er alveg magnað.“

Hvað gefur vinnan þér?

„Ég hef áhuga á vinnunni minni bæði núna og áður. Það gefur mér mikið að finna að mín þekking nýtist í starfi og ekkert jafnast á við að leysa flókin úrlausnarefni og koma þeim í farveg.“ 

Hefur þú átt það til að ofkeyra þig og, ef svo er, hvernig hefur þú brugðist við því?

„Það er minn helsti galli að ég á það til að vinna of mikið eða taka of mikið að mér. Ég er eiginlega stöðugt að vinna í því að taka á því og held að ég sé að ná taktinum, búin að átta mig á að ég þarf að láta skemmtileg og spennandi verkefni fram hjá mér fara. Ég reyni að komast í jóga eða fara í þakklætisgöngu til að ná hugarró.“  

Finnst þér konur þurfa að hafa meira fyrir því að vera ráðnar stjórnendur í fyrirtækjum en karlmenn?

„Já, mér finnst það og það sést líka vel þegar við horfum á staðreyndir í málunum, karlar eru forstjórar og framkvæmdastjórar í miklu meira mæli en konur. Það er ekki vegna þess að konur séu ekki með menntun, hæfileika eða reynslu.“

Áttu þér einhverja kvenfyrirmynd?

„Í gegnum lífið hef ég átt margar kvenfyrirmyndir, mismunandi eftir á hvaða stað ég er í lífinu. Sigurbjörg amma mín hefur þó alltaf verið sterk enda kenndi hún mér þrautseigju og það að snúa hlutum þannig að þeir verði jákvæðir sama hvernig staðan er.“

Ertu með hugmynd hvernig hægt er að útrýma launamun kynjanna fyrir fullt og allt?

„Þar sem störf eru metin með aðferð samkvæmt „starfsmati“ hefur náðst mikill árangur, Reykjavíkurborg er til að mynda búin að eyða launamun kynjanna meðal starfsmanna St.Rv. En það þarf líka að endurmeta virði starfa, kvennastéttir almennt eru með lægri laun þar sem áður voru þau störf unnin launalaust.“

Hvernig skipuleggur þú daginn?

„Ég reyni að skipuleggja daginn þannig að ég sé búin um klukkan 5, skipulagið er hins vegar mjög flókið og mismunandi dag frá degi eftir hvaða ráð og nefndir funda hverju sinni og hve mörg viðtöl ég er með við borgarbúa. Það er hins vegar allur gangur á hve vel það tekst og oft eru fundir seinnipartinn og á kvöldin sem ég þarf að sækja. En draumadagurinn minn er að koma heim um fimm, fara í þakklætisgöngu og elda mat og borða með fjölskyldunni og lesa svo fyrir stelpurnar áður en þær fara að sofa, það er þó ekki nærri alltaf sem það tekst.“

Hvernig er morgunrútínan þín?

„Ég vakna snemma með stelpunum mínum og borða með þeim morgunmat áður en þær fara í skólann. Þá fæ ég mér kaffibolla og les blöðin áður en ég held út í daginn en oftast byrja fundir klukkan 9.“

Nærðu að vinna bara átta stunda vinnudag eða teygist vinnudagurinn fram á kvöld?

„Ég hef aldrei eiginlega aldrei unnið átta stunda vinnudag, ég vinn yfirleitt ekki minna en tíu tíma á dag og oftast að minnsta kosti annan daginn um helgar. Mér finnst gaman að vinna svo það er engin kvöð en ég þarf að passa að hafa tíma í allt hið skemmtilega sem lífið hefur upp á að bjóða.“

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera utan vinnutíma?

„Það toppar allt að vera með fjölskyldunni minni en ég á líka óskaplega góðar og traustar vinkonur sem ég elska að eiga tíma með, borða saman eða fara í göngutúr. Svo er ég mikill lestrarhestur og hef unun af að fara í leikhús og sjá góðar bíómyndir og elda mat og gera tilraunir, það hefur verið mín ástríða. Bara að skera fyrsta laukinn og þá er allt annað gleymt.“

Hvernig verður veturinn hjá þér?

„Þessi vetur verður annasamur, nú stendur yfir prófkjör hjá Samfylkingunni í Reykjavík þar sem ég er að sækjast eftir 2. sæti. Innan skamms er svo landsfundur Samfylkingarinnar og ég sem varaformaður hef í mörgu að snúast fyrir hann. Í vor verða svo sveitarstjórnarkosningar sem munu lita næstu mánuði. En ég ætla líka að komast norður og knúsa fólkið mitt þar, sem ég hitti allt of sjaldan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál