Chanel Björk stökk á tækifærið

Chanel Björk Sturludóttir starfar sem framleiðandi hjá Sagafilm.
Chanel Björk Sturludóttir starfar sem framleiðandi hjá Sagafilm. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Chanel Björk Sturludóttir eru 24 ára og starfar sem framleiðandi hjá Sagafilm. Hún segir ekki hægt að bíða eftir því að tækifærin komi til manns heldur verði maður að skapa þau tækifæri sjálfur sem maður hefur áhuga á.

Hvernig er að vera framleiðandi hjá Sagafilm?

„Það er krefjandi starf og gríðarlega fjölbreytt. Einn daginn er ég á skrifstofunni að svara tölvupóstum og vinna í Excel-skjölum og annan daginn er ég uppi á jökli í drónatökum. Mér finnst fjölbreytileikinn sem þetta starf hefur upp á að bjóða mjög skemmtilegur og ég myndi ekki vilja breyta því. Það hentar mér ekki að vera í mikilli rútínu og mér þykir spennandi að geta breytt til. En það krefst mikillar skipulagshæfni að vera framleiðandi. Um leið og ég fæ handrit í hendurnar þarf ég að huga að því hvað þarf til að gera handritið að myndefni. Það getur verið allt frá því hvaða leikara þarf í verkefnið, tökustaðir, tæki og crew og svo þarf líka að huga að eftirvinnslunni og margt fleira. Í smærri verkefnum þá á framleiðandinn mjög stóran þátt í öllum þessum atriðum en í stærri verkefnum ræður maður hæfileikaríkt fólk til að sjá um hvert atriði.“

Hvernig endaðir þú þar sem þú ert í dag?

„Ég byrjaði í starfsnámi í markaðsdeildinni hjá Sagafilm veturinn 2016, stuttu eftir að ég útskrifaðist úr University of Nottingham í Englandi, með bachelor-gráðu í alþjóðlegri fjölmiðlafræði. Eftir námið vildi ég koma mér út í markaðssetningu og vinna við herferðir og svo framvegis. Eftir hálft ár í starfsnáminu hjá Sagafilm ákvað ég að fara í ferðalag um Asíu og þegar ég kom heim frétti ég að það vantaði mögulega aðstoðarframleiðanda í auglýsingadeildinni hjá Sagafilm. Ég stökk á tækifærið og gaf kost á mér í starfið. Ég hafði aldrei unnið við framleiðslu áður, en fann það strax að þetta væri starf sem hentaði mínum styrkleikum: skipulagningu, félagshæfni og fyrst og fremst verkefnastjórnun. Hvert og eitt verkefni sem ég hef tekið þátt í hjá Sagafilm hefur verið lærdómsríkt, það hafa mörg mistök farið í reynslubankann en ég nýti þau til þess að gera betur næst.“

Hvernig er að vera ung kona í bransa sem er fullur af karlmönnum?

„Ég myndi segja að það geti verið ógnvekjandi að vera ung kona í atvinnulífinu hvort sem bransinn sé karllægur eða ekki. Í vinnuumhverfi þar sem maður er að feta sín fyrstu spor í ákveðnum bransa, en er umkringdur fólki (konum og körlum) sem hafa áratuga reynslu skapast að mínu mati pressa til að sanna sig. Sagafilm er mjög framarlega á þann hátt að þar starfa mikið af flottum konum, og ég lít virkilega upp til þeirra. Í rauninni er það mikilvægast að bera virðingu fyrir öðrum og krefjast þess að borin sé jöfn virðing fyrir manni sjálfum á móti, þrátt fyrir aldur, starfsreynslu og kyn.“  

Chanel Björk er ánægð með fjölbreytileikann í starfi sínu.
Chanel Björk er ánægð með fjölbreytileikann í starfi sínu. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Eru konur að koma meira inn í kvikmyndabransann?

„Af minni reynslu eru gríðarlega margar flottar konur í kvikmyndabransanum í dag, í alls kyns hlutverkum; framleiðendur, leikstjórar, klipparar og í fleiri störfum bak við og fyrir framan myndavélina. Það hefur augljóslega orðið mikil vitundarvakning á seinustu árum um stöðu kvenna í kvikmyndabransanum líkt og á öðrum sviðum samfélagsins til dæmis með #metoo. En það er mikilvægt að konur séu sjáanlegar í kvikmyndabransanum því að kvikmyndir eru vettvangur til að segja sögur sem endurspegla samfélagið. Næsta skref í mínum huga er að fá fleiri konur og karla af erlendum uppruna í kvikmyndabransann hérlendis, ég hugsa að það myndi leiða til þess að enn þá fleiri fjölbreyttar sögur kæmu fram.“  

Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur tekist á við í starfinu?

„Mér finnst alltaf hrikalega gaman í tökum. Ég er oft að vinna með mjög hæfileikaríku fólki og það er svo áhugavert að sjá hvað það er mikil vinna fólgin í hverri mynd eða auglýsingu. Mér gefst líka oft tækifæri á að fara á ótrúlega fallega og áhugaverða staði vegna vinnu minnar. Til dæmis í fyrsta verkefninu sem ég tók þátt í fórum við í drónatökur uppi á Vatnajökli. En skemmtilegustu verkefnin sem ég hef tekið þátt í eru Nettó auglýsingarnar sem Haukur Björgvinsson leikstýrir. Þær fjalla um Nettó-fjölskylduna sem er nútíma-skilnaðarfjölskylda. Haukur hefur skrifað ótrúlega skemmtileg handrit fyrir þessar auglýsingar og það hefur verið sannur heiður að fá að taka þátt í að skapa svona skemmtilegar auglýsingar.“

Hvað skipt­ir máli fyr­ir kon­ur að hafa í huga ef þær ætla að ná langt á sínu sviði?

„Ég myndi segja að það skipti máli fyrir hvern sem er að hafa metnað fyrir því sem hann er að gera, sama hvað það er. Það er líka mikilvægt að muna að hlutirnir gerast ekki af sjálfu sér. Það er ekki hægt að bíða eftir að því að tækifærin komi heldur verður maður að skapa þau tækifæri sem maður hefur áhuga á. Þetta gildir ekki bara um konur heldur alla – þeir fiska sem róa.“ 

Áttu þér ein­hverja kven­fyr­ir­mynd?

„Já, móður mína. Hún hefur alltaf hvatt mig til að gera mitt besta og gat oft verið með mjög háar væntingar til mín. En hún hefur kennt mér að ég get hvað sem ég vil ef ég er tilbúin til að leggja mitt af mörkum til að ná þeim markmiðum. Hún er sjálf hörkudugleg kona sem gefst aldrei upp, ég dáist að þrautseigju hennar.“

Hvernig myndir þú lýsa hefðbundnum degi?

„Starfið mitt er svo fjölbreytt að það er varla neitt sem heitir hefðbundinn vinnudagur. Stundum mæti ég í vinnuna frá níu til fimm og er til dæmis að vinna í fjárhagsáætlunum fyrir væntanleg verkefni eða verkefni sem við erum að bjóða í. Stundum er ég í tökum í hátt upp í 16 tíma og sé þá um að allt fari eftir ákveðinni tímaáætlun og held utan um alla skipulagningu.“

Hvert stefnir þú?

„Ég stefni á að afla mér meiri reynslu sem framleiðandi og halda áfram að vinna að skemmtilegum verkefnum sem skipta máli. Fyrir mér eru það verkefnin sem hafa áhrif á fólk og fær fólk til að hugsa. Hvort sem það eru auglýsingar, tónlistarmyndbönd eða kvikmyndir. Mig langar að halda áfram að vinna að skapandi verkefnum og stefni eins hátt í þessum geira og ég kemst!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál