Una náði sér meirapróf fyrir sumarið

Una Björg mun starfa sem leiðsögumaður og rútubílstjóri í sumar.
Una Björg mun starfa sem leiðsögumaður og rútubílstjóri í sumar. Ljósmynd/Aðsend

Á meðan margar ungar konur voru á flugfreyjunámskeiðum í vor dreif leiðsögumaðurinn og dansarinn Una Björg Bjarnadóttir sig í ökuskóla og náði sér í meirapróf á hópferðabíla. „Kynjahlutfallið í skólanum var mjög ójafnt, ég var ein af fáum konum,“ segir Una. 

Þrátt fyrir að konur séu í minnihluta þeirra sem keyra rútur eru þær síður en svo verri bílstjórar. Una sem er menntaður dansari komst villulaust í gegnum verklega prófið. „Í verklega prófinu sagði prófdómarinn að ég væri með alveg óaðfinnanlega rýmisgreind,“ segir Una og taldi það vera dansinum að þakka.

„Það þarf alveg að átta sig á stærðum þegar maður er að keyra svona stóra bíla. Hvernig maður hreyfir sig þegar maður er á 12 metra löngum bíl. Maður keyrir ekkert þannig bíla eins og þegar maður er að keyra venjulegan fólksbíl,“ segir Una og segir að það þurfi ekki bara að hugsa út í lengdina heldur líka breiddina á bílunum sem er mikil.

Af hverju ákvaðst þú að fara í þetta nám?

„Bara til þess að ég gæti verið bæði bílstjóri og leiðsögumaður í svona litlum túrum eins og gullna hringnum eða suðurstrandatúrum,“ segir Una en í sumar mun hún starfa hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Saga Travel Geo Iceland. „Ég held ég fari ekki eitthvað að keyra strætó eða skólabíla,“ bætir Una við sem gæti þó gert það enda með próf til þess.

Dansbakgrunnurinn kom Unu vel í verklega prófinu.
Dansbakgrunnurinn kom Unu vel í verklega prófinu. Ljósmynd/Aðsend

Hentar þetta konum jafn-vel og körlum?

„Já, já og það eru konur þarna úti að keyra. Ökukennari minn sagði að konur væru upp til hópa betri ökumenn að hans mati. Eins og þær væru svolítið samviskusamari og ekki með þetta viðhorf að þær væru fæddir bílstjórar,“ segir Una. „Það þýðir ekkert að vera með hroka úti í umferðinni og það geta allir lent í slysi og það eru allir mannlegir. Maður þarf svolítið að nálgast umferð með varúð.“

Una segir það hafi komið mörgum á óvart þegar þeir fréttu að hún væri að taka meirapróf. „Flestir segja bara já, áfram þú. Ég er kannski týpan sem fólk býst við að geri eitthvað svona.  Þetta er ekki mikið út úr karakter. Ef ég fæ hugmynd þá bara læt ég vaða. Það hafa margir verið hissa og spurt þá af hverju og til hvers?“

Una segir að flugfreyjustarfið hafi ekki heillað hana jafn mikið og margar kynsystur hennar. „Ég hef verið að vinna í ferðamannabransanum og það hafa margir sagt við mig að það myndi eiga ótrúlega vel við mig að vera flugfreyja, af því að þær þurfa að vera brosmildar og opnar og svona. Ég veit það ekki, það hefur ekki náð til mín. Ég hef ekki getað séð það fyrir mér, þetta er náttúrulega mikið þjónustustarf og þú þarft að hafa góða þjónustulund en þú þarf líka ábyggilega að takast á við mörg erfið og leiðinleg mál. Ég er spennt fyrir að vinna með ferðamönnum og mér finnst skemmtilegt að segja frá landinu mínu og tengi betur við leiðsögumannastarfið. Þar fæ ég að kynna mitt land út frá mínu sjónarhorni og segja frá Íslandi, einkennum og náttúruperlum, og má vera i buxum,“ segir Una og hlær. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál