Mikilvægt að muna eftir húmornum

Edda er heimakær og segir fjölskylduna svo skemmtilega að hún …
Edda er heimakær og segir fjölskylduna svo skemmtilega að hún vilji helst bara leika við hana. Ljósmynd/Edda Hermannsdóttir

Edda Hermannsdóttir tók nýlega við sem forstöðumaður samskipta og greiningar hjá Íslandsbanka. Hún hefur verið samskiptastjóri hjá bankanum undanfarin þrjú ár en í byrjun árs var ákveðið að sameina greiningu og samskiptamál bankans. Deildin sem Edda stýrir heldur úti öflugu fræðslustarfi um fjármál og er fræðslu- og greiningarefni gefið reglulega út. Jafnframt heldur hún utan um samskipti við fjölmiðla og upplýsingamiðlun til starfsfólks og starfsmanna. 

Út á hvað geng­ur starfið?

„Mitt hlutverk er að halda utan um útgáfur og síðan sit ég í framkvæmdastjórn enda tengjast samskiptamálin öllum sviðum. Það er mikil áhersla lögð á gegnsæi og virka upplýsingagjöf enda er það lykilforsenda þess að byggja upp traust.

Við höfum undanfarna mánuði verið að prufa okkur áfram með nýjar leiðir til að miðla efni og hófum að framleiða umræðuþætti og þætti með örskýringum fyrir samfélagsmiðla. Þetta hefur fengið gríðarlega góð viðbrögð og gaman að geta komið efni sem tengist fjármálum á framfæri á þennan hátt. Nú nýlega gáfum við út skýrslu og þátt um ferðaþjónustuna á Íslandi þar sem áskoranirnar eru margar og í kjölfarið gáfum við út skýrslu um fjármál HM. Það má því segja að enginn dagur er eins.“

Hvað skipt­ir máli fyr­ir kon­ur að hafa í huga ef þær ætla að ná langt á vinnu­markaði?

„Mér finnst skipta máli að læra eins mikið og maður getur af fólkinu í kringum okkur. Við eigum það til að vera að flýta okkur of mikið og átta okkur ekki á því að við erum umvafin fólki og verkefnum sem við getum lært heilmikið af og það er dýrmætur skóli. Það er líka mikilvægt að setja sér markmið þótt það kunni að hljóma klisjulega. Ákveða hvað við ætlum okkur að gera til skamms tíma og til lengri tíma. Mikilvægast af öllu er síðan að geta aðlagað sig breyttum aðstæðum og aðlaga plönin eftir því. Það er í góðu lagi þó að fimm ára planið gangi ekki upp, þá er stefnan bara komin á annað markmið.

Mér finnst líka skipta miklu máli að konur taki sig ekki of alvarlega og leyfi sér að gera mistök. Við tökum hlutina oft of nærri okkur og þá er gott að reyna að hafa húmorinn ekki langt undan.“

Hvernig var þinn fer­ill?

„Þegar ég var í hagfræðinámi eignaðist ég börnin mín tvö svo það er óhætt að segja að hugurinn minn hafi verið við annað en námið á þeim tíma. Þegar sonur minn var nýfæddur tók ég síðan við sem spyrill í Gettu betur og var fyrsta sjónvarpsviðtalið tengt þættinum tveimur dögum eftir fæðingu. Þetta var því býsna djúp laug en ég man ég spurði mig reglulega „hvað er það versta sem getur gerst?“ og hef þá setningu enn þá bak við eyrað í ansi mörgum verkefnum.

Mér bauðst síðan starf á Viðskiptablaðinu þar sem ég síðar gerist aðstoðarritstjóri. Ég lagði mikið upp úr því að auka vægi kvenna í blaðinu og vekja athygli á konum í atvinnulífinu sem höfðu ekki haft sig mikið frammi í fjölmiðlum. Sumarið 2015 byrjaði ég í Íslandsbanka en það var aldrei stefnan að vinna í banka. Það var hins vegar eitthvað sem heillaði mig við vinnustaðinn og áhersluna sem lögð er á jafnréttismál og góða vinnustaðamenningu. Það er gott að velja sér vinnustað þar sem þú veist að þú getur lært mikið af fólkinu og gildunum.

Ég hef á undanförnum árum verið dugleg að taka að mér skemmtileg verkefni. Reglulega tek ég að mér fundarstjórn og sat í tvö ár í stjórn Félags viðskipta- og hagfræðinga. Á síðasta ári gáfum við Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir líka út bókina Forystuþjóð en við höfum báðar mikinn áhuga á jafnréttismálum og að ræða þau frá ólíkum sjónarhornum.“

Fannst þér þú upp­skera á ein­hverj­um tíma­punkti að þú vær­ir búin að ná mark­miðunum þínum?

„Ég hugsa ekki mikið um það hvort manni er að ganga vel – maður veltir því meira fyrir sér þegar maður er ekki að ná markmiðum sínum. En vissulega fylgir því vellíðunartilfinning þegar hlutirnir ganga upp og maður á að vera duglegur að minna sjálfan sig á það þegar vel gengur.“

Hvað gef­ur vinn­an þér?

„Það er gaman að kljást við ögrandi verkefni þar sem þekking manns fær að njóta sín. Þá verður vinnan skemmtileg. Síðan eru það algjör forréttindi að vinna með skemmtilegu fólki svo það sé gaman að mæta í vinnuna.“

Hef­ur þú átt það til að of­keyra þig, og ef svo er, hvernig hef­ur þú brugðist við því?

„Nei ég hef ekki gert það en ég á það vissulega til að ætla mér of mikið. Ég er að verða sífellt betri í því að einfalda lífið og sérstaklega þegar það er mikið álag. Ég fer mikið út að skokka og í heitan pott til að núllstilla mig.“

Finnst þér kon­ur þurfa að hafa meira fyr­ir því að vera ráðnar stjórn­end­ur í fyr­ir­tækj­um en karl­menn?

„Já, því miður er staðan enn þá þannig þótt það sé vissulega að breytast. Allt of fáar konur eru forstjórar og framkvæmdastjórar í íslensku atvinnulífi. Þegar meirihluti háskólanema eru konur og þær eru helmingurinn af vinnuaflinu, þá er mjög bagalegt að það séu heilu framkvæmdastjórnirnar þar sem eru fáar eða engar konur. Við erum þó að sjá þetta breytast og stjórnendur virðast smám saman átta sig á því að það er best að hafa blandaðan og fjölbreyttan hóp.“

Áttu þér ein­hverja kven­fyr­ir­mynd?

„Ég er svo heppin að vera umvafin konum sem ég lít mikið upp til og er mamma þar fremst í flokki. Ég lít líka mikið upp til kvenna sem hafa verið brautryðjendur í karllægu umhverfi eins og Rannveig Rist, Birna Einarsdóttir og Vigdís Finnbogadóttir. Þessar konur leggja líka ötullega sitt af mörkum við að styðja við ungar konur.“

Ertu með hug­mynd um hvernig er hægt að út­rýma launamun kynj­anna fyr­ir fullt og allt?

„Þetta er fyrst og fremst ákvörðun stjórnenda. Það er ábyrgðarhlutur stjórnenda að greiða báðum kynjum jöfn laun. Það þarf líka að efla ungar konur svo þær vænti ekki lægri launa en karlar.“

Hvernig skipu­legg­ur þú dag­inn?

„Kvöldið áður fer ég yfir dagskrá morgundagsins og skoða hvernig ég get nýtt tímann sem best. Á morgnana skrifa ég svo niður í dagbókina hluti sem ég ætla að afgreiða yfir daginn og það er alltaf voðalega gott þegar maður strikar yfir kláruð verkefni. Ég er enn þá með litla dagbók í töskunni sem mér er reglulega strítt á. Maður hefur lært það að tíminn er það dýrmætasta sem maður á og þá er gott að skipuleggja dagana þannig að maður geri sem mest af því sem gleður mann.“

Hvernig er morg­un­rútín­an þín?

„Ég hef síðustu níu ár kennt tíma í World Class klukkan sex á morgnana svo dagarnir hafa oftast byrjað á hreyfingu sem er frábær byrjun á deginum. Í framhaldi er brunað heim til að vekja gríslingana á heimilinu sem vilja taka sér góðan tíma í morgunverkin og þá gefst tími til að ræða málin og fara yfir fréttir dagsins. Þegar þau eru komin í skóla um átta hefst vinnudagurinn en einstaka sinnum næ ég stuttri morgungöngu eða morgunkaffibolla með góðum vinkonum áður en vinnan hefst.“

Nærðu að vinna bara átta stunda vinnu­dag eða teyg­ist vinnu­dag­ur­inn fram á kvöld?

„Það má segja að ég sé oftast á vaktinni og fylgist vel með fjölmiðlum og þjóðmálaumræðu. Við reynum þó alltaf að vera heima þegar krakkarnir koma heim eftir skóla og æfingar. Seinnipartarnir á okkar heimili eru því ansi heilagir en mér finnst gott stundum á kvöldin að sitja við tölvuna og klára verkefni.“

Hvað finnst þér skemmti­leg­ast að gera utan vinnu­tíma?

„Fjölskyldumeðlimirnir eru svo skrambi skemmtilegir að ég vil helst alltaf leika við þá. Við förum oft í sund og spilum mikið saman. Mér finnst líka mikil afslöppun fólgin í því að baka og krökkunum leiðist það ekki heldur. Það þýðir líka að heimilið er stundum eins og félagsheimili þegar vöfflulyktin umlykur allt. Síðan er alltaf gott og endurnærandi að hitta góða vini sem ég geri mikið af.“

Hvað ætl­ar þú að gera í sum­ar­frí­inu?

„Ég elska að ferðast og ætla að blanda saman ferðalögum erlendis og innanlands í sumar. Ég fer með strákinn minn til New York en ég gerði slíkt hið sama með systur hans þegar hún var á hans aldri svo hann hefur beðið spenntur. Síðan er það HM í Rússlandi og brúðkaup vinafólks á Ítalíu. Vonandi verður veðrið þokkalegt hér heima þar sem við ætlum að flakka með börnin um landið og drekka nóg af heitu súkkulaði í íslenskri náttúru.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál