Er námið sjokkþerapía eða beinn og breiður vegur?

Ljósmynd/Samsett

Öll eigum við góðar og slæmar minningar af skólagöngu okkar. Við vorum ýmist villingar, prúð og stillt eða einhvers staðar mitt á milli. Villt og stillt. Sum okkar hafa farið í marga skóla og eignast alls konar vini á leiðinni en aðrir eru í sama skóla og halda hópinn frá leikskóla upp í háskóla. Kennararnir geta bæði verið slæmir og góðir. Glaðlyndir, þreyttir, þolinmóðir, andfúlir, skrítnir, leiðinlegir og skemmtilegir. Eftirminnilegastir og bestir eru þeir kennarar sem með færni, hvatningu og kærleika hjálpa nemendum sínum að ná tökum á náminu og byggja þannig upp sjálfstraust en slíkt getur ráðið úrslitum um vegferðina í skólakerfinu og áfram út í allt lífið.

Menntaskólinn í Reykjavík.
Menntaskólinn í Reykjavík. mbl.is/Styrmir Kári

Námið var sjokkþerapía

Ísaksskóli, Melaskóli, Hagaskóli, MR og HÍ er hin ofurklassíska leið sem lögmaðurinn, uppistandarinn og hlaðvarpsstjórnandinn Árni Helgason fetaði á sínum námsárum.

Hann segist hafa verið góður og þægur nemandi, svona framan af, en hafi aðeins villst af leið þegar hann kom í MR og síðar í Háskólann.

Árni Helgason lögmaður.
Árni Helgason lögmaður.

„Ástundunin fór eitthvað að láta á sjá en það tengdist að einhverju leyti félagslífinu og störfum þar,“ segir hann léttur. „Svo taldist ég reyndar nemandi við háskólann í Jena í Þýskalandi í nokkra mánuði veturinn eftir stúdentsprófið en var meira í því að finna mig. Allir þessir skólar höfðu sinn sjarma en mér þykir nú samt alltaf sérstaklega vænt um MR,“ segir hann og rifjar um leið upp sinn eftirlætiskennara.

„Af mörgum kennurum þá er Ragnheiður Briem sem kenndi íslensku í MR eftirminnilegust. Frábær kennari, hvort sem var í flóknustu reglum stafsetningarinnar eða íslenskum bókmenntum. Hún sinnti þessu af mikilli virðingu, var augljóslega afburðamanneskja á sínu sviði og það einhvern veginn náði í gegn og smitaði nemendur. Maður vildi standa sig vel hjá henni,“ segir hann og bætir við að námið hafi reyndar verið einskonar sjokkþerapía í byrjun. „Í fyrsta stafsetningarprófinu sem við tókum í 3. bekk voru einkunnir ekki á bilinu 1-10 eins og vanalega heldur einhvers staðar langt fyrir neðan núllið en með hennar leiðsögn lagaðist þetta smám saman og fólk fór að ná tökum,“ segir hann og bætir við að þótt mikið sé rætt þá breytist kennarar og kennsluaðferðir minna en margur haldi.

„Kennsla snýst nú sem fyrr mikið um mannlega þáttinn, góða dómgreind og að kunna að lesa rétt í hópinn og krakkana.“

Spurður að því hvort hann hafi tilheyrt einhvers konar klíku á skólaárunum svarar Árni að sér hafi eiginlega aldrei tekist það, þrátt fyrir góðan vilja.

„Í Hagaskóla var gangsterarappið aðalmálið og menn voru talsvert í klíkum þá að bandarískri fyrirmynd. Ég náði samt eiginlega aldrei að verða almennileg íslensk úthverfaútgáfa af bandarískum rappara böstandi rímur um fáklæddar konur, peninga og lögregluofbeldi, þannig að ég komst aldrei í svoleiðis klíku. En svo rjátlast þetta auðvitað af mönnum. Þetta eru meira og minna skrifstofumenn í dag með húsnæðislán og jeppling. Nema einn og einn sem er enn að rappa.“

Snjólaug Lúðvíksdóttir hefur vakið athygli fyrir uppistand og þykri einkar …
Snjólaug Lúðvíksdóttir hefur vakið athygli fyrir uppistand og þykri einkar fyndin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stelpur lærðu um blæðingar og strákar um blauta drauma

Snjólaug Lúðvíksdóttir, uppistandari og handritshöfundur, var prakkari sem fékk góðar einkunnir. Hún tilheyrði hópnum sem braust í sundlaugina eftir lokun og hékk í sjoppunni en var feimin að tala við stráka. Starði bara niður á Buffalo-skóna sína og lét lítið fyrir sér fara að eigin sögn. Hún var best í tungumálum og íslensku, sæmileg í raungreinum og skelfileg í leikfimi. Í Víðistaðaskóla og Versló eignaðist hún stóran vinkvennahóp og í þeim síðarnefnda tók hún út hið svokallaða skinkutímabil sem vinkonurnar nota enn gegn henni.

„Þær geta mútað fyrir lífstíð með skinkumyndum af mér,“ segir hún kímin.

Í uppistandi sínu vílar Snjólaug ekki fyrir sér að fjalla um kynlíf og kynferðismál með hressandi hætti en það getur hún þó ekki þakkað kynfræðslunni sem hún fékk á skólaárunum.

„Stelpur lærðu um blæðingar og strákar um blauta drauma og þar með voru kynferðismálin af dagskrá. Ég veit meira að segja um nokkra karlmenn sem héldu langt inn í fullorðinsár sín að þvagrás kvenna væri í leggöngum! Vonandi er Sigga Dögg kynfræðingur að hrista eitthvað upp í þessu námsefni. Ekki veitir af,“ segir hún.

Af öllum þeim kennurum sem komu og fóru segir Snjólaug að Árni Hermannsson, latínu- og sögukennari í Versló, hafi slegið metið í skemmtilegheitum.

„Hann gekk um með prik sem hann notaði í tímum eins og hljómsveitarstjóri. Var eldklár og fyndinn og náði að halda athygli fýldra unglinganna á meistaralegan hátt. Húmor skiptir miklu máli og að tala við nemendur eins og jafningja en halda samt í agann. Árni gerði hvort tveggja. Hins vegar fóru kennararnir sem reyndu að passa inn í unglingahópinn með því að vera hipp og kúl voðalega í taugarnar á mér. Þetta er fín lína.“

Þórdís Gísladóttir.
Þórdís Gísladóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Las sögur af dauðum körlum

Rithöfundurinn Þórdís Gísladóttir var allan sinn grunnskólaaldur í Öldutúnsskóla í Hafnarfirði en eftir að hún fór að starfa sem rithöfundur hefur hún heimsótt flesta grunnskóla borgarinnar og víðar.

„Í þessum heimsóknum hef ég tekið eftir því að andrúmsloftið í skólum er ólíkt, sem er auðvitað eðlilegt. Mér finnst hins vegar börn í dag almennt miklu afslappaðri og skemmtilegri en mér finnst mín kynslóð hafa verið,“ segir Þórdís, sem lauk menntaskólanáminu úr Kvennó.

Hún segir að sér hafi gengið vel í öllu sem hún hafði áhuga á en því miður hafi áhuginn verið mismikill. Sér hafi þótt gaman að læra tungumál af því henni hefur alltaf þótt gaman að lesa og hana langaði til að geta lesið bækur á öðrum málum.

„Mér fannst líka gaman í allri íslensku og svo hafði ég mjög mikinn áhuga á sögu ef hún var ekki bara um dauða karla, en því miður þá var sagan sem ég lærði eiginlega bara um dauða karla. Mér fannst líka gaman í tónlist og var í kór næstum öll grunnskólaárin og líka í menntaskóla. Ég hélt alltaf að ég væri léleg í raungreinum því ég lærði stærðfræði aldrei almennilega. Þetta byrjaði eitthvað illa hjá mér svo það var alltaf verið að byggja ofan á eitthvað sem vantaði botninn undir. Seint í menntaskóla komst ég svo að því að mér fannst gaman í tölfræði og efnafræði, sem var eiginlega bara einhvers konar stærðfræði. Þá var byrjað á einhverri byrjun eða kannski fékk ég ágæta kennara í þessum fögum. Nema ég hafi bara verið komin með nægilegan þroska í þetta svona seint, það gæti líka alveg verið.“

Þórdís segist eiga margar minningar af kennurum sínum og að þeir hafi bæði verið vondir og góðir en í toppsætinu yfir góða kennara tróna foreldrar Villa naglbíts, eða Vísinda-Villa eins og hann kallar sig, þau María Steingrímsdóttir og Jón Jónasson.

„María var bæði góður og yndislegur umsjónarkennari og hann Jón, pabbi Villa, var líka mjög skemmtilegur kennari. Hann kenndi okkur til dæmis að framkalla myndir í myrkraherbergi og svo spilaði hann undir á gítar hjá okkur vinkonum þegar við tróðum upp með Bítlalög á skólaskemmtunum, en hann var gítarleikari í hljómsveitinni Randver.

Í menntaskóla kenndu mér ýmsir misskemmtilegir furðufuglar en sérlega skemmtilegur þótti mér Jón Thor Haraldsson, sögukennari í Flensborg. Hann söng fyrir okkur lög frá stríðsárunum og var mikill gleðigjafi í kennslustundum. Í Háskóla Íslands og Uppsalaháskóla í Svíþjóð var ég með marga góða og nokkra vonda kennara. Það er svolítið öðruvísi að vera í háskóla, alla vega í hugvísindafögum eins og ég var í, þar sem allt var meira og minna val. Þá getur fólk elt kennarana sem kenna áhugavert efni og eru skemmtilegir svo ég hætti bara ef kennararnir voru mér ekki að skapi eða sleppti því að mæta í tíma.“

Þórdís heldur því fram að flest hafi breyst til batnaðar síðan hún var í grunn- og menntaskóla. Hún efast þó um að stytting menntaskólans hafi verið til góðs.

„Mér skilst að það sé rosaleg keyrsla á menntaskólakrökkum sem er fullkominn óþarfi og til ógagns menntunarlega. Svo finnst mér miðaldra fólk oft tala um skólana, sérstaklega grunnskólana, eins og þar sé allt eins og það var fyrir einhverjum áratugum, en svo er alls ekki. Viðhorf til barna og ungmenna hafa breyst mjög frá því ég var sjálf barn og nú sýnist mér virkilega reynt að sinna hverju og einu barni eins og það er. Svo er til fullt af nýju og mjög skemmtilegu og áhugaverðu námsefni þar sem reynt er að höfða til ólíkra áhugasviða og mismunandi getu nemenda,“ segir Þórdís sem hefur sjálf kennt á nokkrum skólastigum.

Hún segir starfið mjög krefjandi og erfitt og ekki sé til sú starfsstétt sem hún dáist meira að. Allt frá leikskólakennurum til háskólakennara.

„Að vinna í loftlausri kennslustofu á lágum launum er fórnfúst starf. Kennarar velja sér sjaldnast nemendur og mér finnst svo aðdáunarvert hvernig kennurum, sem ég hef hitt og þekki, tekst að ala upp heilu kynslóðirnar, láta sér þykja vænt um nemendur sína og sinna svona mörgu og ólíku fólki á ólíkum þroskastigum af metnaði og hjartahlýju.“

Marín Manda Magnúsdóttir.
Marín Manda Magnúsdóttir.

Tónmenntakennarinn kenndi henni að hafa trú á sjálfri sér

Marín Manda Magnúsdóttir, áhrifavaldur og nútímafræðingur, var samviskusamt draumórabarn sem gat ekki beðið eftir því að klára skólann og verða fullorðin til að geta orðið leik- eða söngkona og ferðast um heiminn.

„Þegar ég varð unglingur fór að bera meira á mér enda hafði ég aðallega áhuga á að vera skvísa. Strákar, böll, tískusýningar og söngur urðu meira spennandi en námið og eftir menntaskólann langaði mig bara til að ferðast svo bóklegt nám togaði ekki í mig fyrr en ég varð fullorðin og lærði nútímafræði í Háskólanum á Akureyri.“

Marín Manda var í Kársnesskóla sem krakki en þangað gekk hún eða tók skólabíl úr Sæbólshverfi. Hún segir að sér hafi almennt liðið vel í skólanum nema í leikfimi. Þá tíma hræddist hún ógurlega.

„Ég var bara tíu ára þegar ég varð kynþroska og vildi helst klæða mig í og úr leikfimisfötunum inni á klósetti þar sem stelpurnar áttu það til að hvíslast á og glápa á mig.

Þá var ég líka orðin jafn há og ég er í dag og strákarnir spurðu mig ítrekað af hverju ég væri svona stór, hvort það væri eitthvað að mér. Mér fannst þetta svo leiðinlegt að ég óskaði þess að ég myndi bara hætta að stækka og sú varð nú raunin. Í dag er síst hægt að telja mig hávaxna konu. Ég er bara frekar lítil ef eitthvað er. Því miður var umræðan um jákvæða líkamsímynd ekki inni í myndinni eins og hún er í dag. Það hefur svo margt breyst til hins betra,“ segir Marín Manda sem fór úr Kársnesskóla í Þinghólsskóla og þaðan í Menntaskólann í Kópavogi. Hún hefur alltaf verið vinmörg en metið var líklegast slegið í Þinghólsskóla þegar hún var kosin vinsælasta stúlkan. Sá titill reyndist þó tvíeggjað sverð.

„Ég fékk svona fínan borða eins og stelpurnar í fegurðarsamkeppnunum en get því miður ekki sagt að titillinn hafi endilega gert mér gott þar sem þetta skapaði lélega stemningu frá ákveðnum hópi þarna,“ rifjar hún upp og hlær.

Sá kennari sem stendur hjarta Marínar Möndu næst er Þórunn Björnsdóttir sem var tónmenntakennari í Kársnesskóla.

„Hún var ótrúlega mikil hvatning fyrir mig og aðra krakka. Hún sá hæfileika í mér og hvatti mig til að syngja meira, hrósaði stöðugt en var einnig með mikinn aga. Þórunn er svona kona sem enginn gleymir. Hún átti mikinn þátt í því að ýta við mér og kenna mér að hafa trú á sjálfri mér,“ segir Marín Manda sem á einnig skemmtilega sögu af Guðrúnu Helgadóttur sem kenndi íslensku í Menntaskólanum í Kópavogi.

„Ég þóttist vita að henni líkaði ágætlega við mig þar sem ég stóð mig vel í náminu en í eitthvert skiptið var ég aðeins of borubrött. Sat uppi á borðinu mínu þegar tíminn byrjaði og neitaði að setjast í sætið mitt þegar Guðrún kom í stofuna og bauð góðan dag. Sagði bara já, flissaði og japlaði á sleikjó. Hún lét sem ekkert væri og byrjaði að kenna og ég settist í sætið mitt þegar liðið var á tímann. Þá biður hún mig að kíkja fram með sér til að aðstoða sig með eitthvert verkefni og ég hélt það nú, var upprifin yfir því að hún skyldi velja mig en þegar við vorum komnar fram fékk ég aldeilis að heyra það. Hún skammaði mig fyrir að sýna ókurteisi í tímanum hennar og sagðist hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með mig. Í minningunni stóð ég þarna eldrauð í framan og skammaðist mín hræðilega en á sama tíma var ég henni svo þakklát fyrir að hafa ekki tekið mig á teppið fyrir framan allan bekkinn og eftir þetta varð hún mikill eftirlætiskennari minn í MK. Ég ber mikla virðingu fyrir Guðrúnu.“

Hér er Reynir Lyngdal ásamt eiginkonu sinni, Elmu Lísu Gunnarsdóttur.
Hér er Reynir Lyngdal ásamt eiginkonu sinni, Elmu Lísu Gunnarsdóttur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þýddi textann úr Hotel California á íslensku og ætlaði að kafna

Ég var ekki mjög sterkur í dönsku sem er sérstaklega leiðinlegt af því pabbi minn er dönskukennari. Í seinni tíð hef ég oft óskað þess að ég hefði tekið betur utan um það, svona bæði fyrir hann og sjálfan mig,“ segir Reynir Lyngdal plötusnúður og leikstjóri síðasta áramótaskaups en þrátt fyrir slakan árangur í að bera fram röðgröð með flöðe er ekki hægt að segja að skólagangan hafi ekki gagnast leikstjóranum.

„Tímarnir í ljósmyndun hjá Halldóri Þórðarsyni og myndbandagerð hjá Marteini Sigurgeirssyni lögðu grunninn að framtíðarstarfi mínu, því sem ég fæst við í dag,“ segir Reynir sem var öll sín grunnskólaár í Hvassaleitisskóla.

„Þetta er í minningunni alveg yndislegur skóli. Lítill og öruggur og vel haldið utan um krakkana. Á síðustu árum, og eftir því sem ég hugsa meira út í það, þá ber ég alltaf meiri og meiri virðingu fyrir kennurum. Þetta starf er bæði erfitt, vanþakklátt og gefandi í senn og mig grunar að við, sem samfélag, pælum bara ekki nógu mikið í því hversu mikil áhrif og ábyrgð kennarar hafa og hvernig launin þeirra ættu auðvitað að vera í samræmi við það, sem þau eru ekki eins og allir vita.“

Merkilegt nokk segist Reynir muna eftir öllu því fólki sem kenndi honum á grunnskólaárunum en uppáhöldin hans í Hvassaleitisskóla voru þau Bára Brynjólfsdóttir, Guðrún Gísladóttir, Halldór Þórðarson og síðast en ekki síst Hafliði Kristinsson ensku- og umsjónarkennari.

„Ég gleymi því aldrei þegar Hafliði lét okkur þýða textann við lagið Hotel California með Eagles. Okkur fannst þetta svo hallærislegt að við ætluðum að kafna, enda hlustuðum við nánast eingöngu á teknó og einhverja reiftónlist en þegar ég heyri þetta lag í dag bregst það ekki að ég hækka allt í botn og hugsa til hans Hafliða.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »