„Ég hef sjaldan haft það eins gott og á veirutímum“

Harpa Rún Kristjánsdóttir.
Harpa Rún Kristjánsdóttir.

Harpa Rún Kristjánsdóttir, bókmenntafræðingur og búandkerling, hefur sjaldan haft það betra en núna. Hún nýtur þess að vinna og snýr sér að næsta verkefni til að brjóta upp daginn. 

Hvernig ertu að bregðast við vegna samkomubannsins?

„Ég verð kannski tjörguð fyrir að segja það en mér þykja samkomubönn ágæt. Mér finnst ég hafa meiri reglu á hlutunum og vera laus við allskonar áreiti og þvæling. En ég fer svo sem aldrei neitt.“

Ertu í fjarvinnu heima eða mætir þú í vinnuna?

„Ég vinn heima.“

Hvernig er það að virka?

„Prýðilega, ég hef undanfarin ár verið að færa vinnuna mína meira og meira heim svo þetta var í rauninni bara síðasta skrefið. Búskapur er hvort sem er alltaf heimavinna en þar fyrir utan vinn ég sem sjálfstæður verktaki við ritstjórn og útgáfu auk þess að skrifa sjálf. Það eina sem ég finn fyrir fjárhagslega er að það hefur verið mjög rólegt í viðburðastjórn undanfarið. Annars er eini munurinn sá að fundir hafa færst yfir á fjarfundarform, sem gerir um það bil allt þægilegra, styttir dagana og minnkar kolefnissporið.“

Hvað gerir þú til að brjóta upp daginn?

„Sný mér að næsta verkefni.“

Hvað ertu til dæmis að borða í hádegismat?

„Það er afar misjafnt, eiginlega bara það sem mamma setur á borðið. Við erum að vinna í að tæma kisturnar fyrir haustið. Hér er mikið unnið með vatnasilung og rolluket, brasað á ýmsan máta.“

Hvað gerir þú til að halda geðheilsunni í lagi?

„Bara það sama og venjulega, reyni að muna að anda og tæma hausinn annað slagið. Mér finnst þakklæti mikilvægt, kannski sérstaklega á svona tímum, að muna hvað við höfum það gott. Ég les endalaust og hef meira að segja aðeins reynt að horfa á sjónvarpið undanfarið, en bara stutt í einu. Lykilatriði er að heyra í fólkinu sínu, það er alveg jafn skemmtilegt í gegnum síma.“

Ertu að hreyfa þig eitthvað?

„Við erum nýbúin að klára smalatörn og erum ennþá í snatti svo það hefur ekki verið skortur á því. Eins er vonlaust að vera lengi inni í svona blíðu svo ég hef ekki áhyggjur af hreyfingarleysi á næstunni.“

Hver er galdurinn við að missa ekki vitið á veirutímum?

„Ég hef sjaldan haft það eins gott og á veirutímum svo ég er líklega ekki sú rétta til að svara þessu. Ég gæti kannski nefnt það að vera meira sjálfum sér nógur og njóta þess sem er ókeypis og frábært eins og til dæmis haustlitirnir og bækurnar sem þú átt áreiðanlega ólesnar. Jólabókaflóðið er að byrja, bráðum kemur hrútaskráin á netið og féð verður tekið á hús. Ætli galdurinn sé ekki að hafa nóg fyrir stafni og hafa gaman af því. Tilhlökkunin er hálft gamanið og það þarf ekki að vera mikið, eins og Pollýanna kenndi okkur.“

Hvernig hefur veiran haft áhrif á þig og fjölskyldu þína?

„ Við förum voða lítið af bæ og erum passasöm þegar við gerum það. Við höfum verið svo lánsöm að vera heilbrigð og vera saman svo við getum ekki kvartað. Þetta er auðvitað vont, en það venst. Hér var til dæmis haldin grímuklædd hrútasýning um daginn sem gekk prýðisvel.“

Á hvern skorar þú til að svara þessum spurningum?

„Jóhönnu Hlöðversdóttur, bónda og fiskeldisstarfsmann, móður, formann og dugnaðarfork.“

mbl.is