Allir fokking litir regnbogans

Sara Oddsdóttir markþjálfi og ráðgjafi.
Sara Oddsdóttir markþjálfi og ráðgjafi. mbl.is/Árni Sæberg

„Án þess að ræða ástandið í samfélaginu eitthvað sérstaklega, þá er alveg á hreinu og öllum ljóst að þetta eru skrítnir tímar. Dálítið eins og staðurinn á milli svefns og vöku. Þið vitið þegar maður er ekki alveg vaknaður eftir skrítinn draum. Eins er algerlega tilgangslaust að reyna að sjá fyrir hvernig þetta ævintýri endar og tímanum líklega betur varið í að stara á kristalskúlu til að fá svör. Ég meina það,“ segir Sara Oddsdóttir markþjálfi í sínum nýjasta pistli

Fyrir mig persónulega, þá hef ég lítið hitt litla barnið mitt sem er í skóla úti á landi, þið vitið, ekki vel séð að hann flakki á milli landshluta. Almáttugur hvað ég sakna hans mikið. Ég hef þurft að fresta mörgum spennandi verkefnum í vinnu og margt er með breyttu sniði. Eins og hjá svo mörgum, þá er samgangur við fjölskyldu og vini ekki með sama móti. Ég kemst hvorki í sund né jóga, sem eru grundvallarforsendur fyrir minni persónulegu vellíðan. Ofan á allt þetta þá var litla stóra stelpan mín að fljúga úr hreiðrinu í síðustu viku, búin að kaupa íbúð með kæró. Váá hvað ég sakna þess að pirra mig á hvað þau ganga illa um eldhúsið. 

Tilfinningar koma ekki í svart-hvítu, heldur spanna þær alla liti regnbogans

En á sama tíma og allt þetta er í gangi er ég líka ótrúlega glöð. Bara hreint út sagt aldrei verið betri. Elska vinnuna mína, er svo lánsöm að vinna og deila mér með ótrúlega skemmtilegum og gefandi einstaklingum. Líður stundum eins og ég sé að svindla í lífinu, má virkilega vera svona gaman? Mörg spennandi verkefni fram undan og ég er sjaldan betri en þegar ég stend frammi fyrir nýjum áskorunum, mér hefur alltaf líkað vel við ákveðinn ófyrirsjáanleika. 

Ég er líka að springa úr ást á börnunum mínum, bæði litla og stóru, sem eru að stíga sinn dans við lífið. Mér líður einhvern veginn á sama tíma og heimurinn er á hvolfi að allt sé bjart fram undan. Sé fullt jákvætt við þetta „ástand“ og er þess fullviss að í þessu felist dýrmætur lærdómur að mörgu leyti.  

Niðurstaðan er sú að mér líður alls konar.

Að innra með mér eru bæði erfiðar og auðveldar tilfinningar.

Erfiðu tilfinningarnar eru; söknuður, áttavillt, óöryggi, deyfð, tregi, sorg, hugarangur, heimþrá, efi, þrá, hjartasár og nostalgía. 

Auðveldu tilfinningarnar eru; gleði, lífskraftur, eftirvænting, von, vellíðan, ánægja, tilhlökkun, löngun, lífsvilji, friðsæld og ástríða. 

Málið er að við getum fundið fyrir mörgum andstæðum tilfinningum á sama tíma.
Sem dæmi; sakna barnanna minna um leið og ég er ótrúlega stolt af þeim, finnst ömurlegt að fresta verkefnum í vinnunni en önnur áhugaverð hafa komið í stað þeirra, upplifað einmanaleika á sama tíma og frelsi, svo hefur óvissa og deyfð þessa ástands náð til mín en á sama tíma kann ég vel við ófyrirsjáanleikann. Sjáðu til, ein tilfinning útilokar ekki aðra. Og þú þarft ekki að gera upp á milli þeirra. Tilfinningar koma ekki í svart-hvítu, heldur spanna þær alla liti regnbogans. Hvaða lærdóm er hægt að taka úr þessu?

Til að setja þetta í annað samhengi, þá velti ég upp hvort þú hafir staðið þig að því að leyfa þér ekki að kvarta. Vegna þess að þú hefur það svo gott, góða menntun, átt heilbrigt barn og í góðri vinnu, jafnvel ástin leikið við þig. Ef þú ert svo heppin mátt þú örugglega ekki kvarta, eða hvað? 

Ótrúlega oft heyri ég fólk afsaka sig um leið og það „kvartar“ yfir einhverju. Tjáir tilfinningar sínar en segir strax á eftir „æi ég get ekki kvartað“ eins og það hafi ekki rétt á að líða illa. Athugið, það er munur á annars vegar að kvarta og hins vegar að viðurkenna tilfinningar sínar. Til dæmis kvartar maður ef maður er verkjaður eða tuðar ef maður hefur væntingar um eitthvað en gerir ekkert í því. Það er allt annað en að heiðra og viðurkenna sína innri líðan. Þetta er algerlega sitt hvor hluturinn. 

Af hverju þarf að setja þetta í svona myrkt dæmi til að það nái í gegn til þín?

Svona pínu eins og kláraðu matinn þinn út af því að börnin í Afríku fá ekkert að borða. Eins og þú hafir ekki heimild til að skynja erfiðar tilfinningar vegna þess að aðrir hafa það verra en þú. Getur þá konan sem býr við hörmulegar aðstæður í þriðja ríki heimsins og er nauðgað og barin reglulega ekki kvartað? Vegna þess að nágrannakona hennar í næsta kofa býr við sambærilegar aðstæður, auk þess að vera búin að missa börnin sín í borgarastríði? Hver dregur línuna hvaða erfiðu tilfinningar eigi rétt á sér? Ég meina, það er augljóst að báðar konurnar kljást við erfiðar aðstæður og þar af leiðandi erfiðar tilfinningar. En af hverju þarf að setja þetta í svona myrkt dæmi til að það nái í gegn til þín?

Ertu kannski að hugsa núna að þú megir alls ekki finna eina erfiða tilfinningu miðað við konurnar?

Þarna liggur hugsunarvillan. Þú getur alltaf fundið einhvern sem hefur það verra en þú. Þetta snýst ekki um samanburð. Sjáðu til, þegar þú segir „ég get ekki kvartað“ þá ertu í raun og veru að segja að þú finnir fyrir erfiðri tilfinningu, en ætlir þér ekki að hlusta á hana. Og þar með hafna tilfinningum þínum, sjálfum þér og þinni innri tilvist. 

Önnur algeng hugsunarvilla er sú, að það felist styrkur í að hafna erfiðum tilfinningum. 

Ok, hvernig spilast sá leikur? Ég hafna erfiðri tilfinningu sem er í raun skilaboð til mín. Þessi skilaboð eða tilfinning leitar upp á yfirborðið vegna þess að ég hef þrá, löngun eða ósk um að eitthvað gerist eða gerist ekki. Í stað þess að hlusta á þessi skilaboð þá fer ég í feluleik. Þykist ekki finna hana, þvert á mína líðan, og þannig vinn ég leikinn. Hvar liggur styrkurinn í þessum leik? Að fela sig fyrir því sem er erfitt? Er það ekki frekar merki um skort á hugrekki til að standa með sér eða heiðarleika til að mæta sér eða öðrum? Ég bara spyr?

Og af hverju má ekki bjóða erfiðar tilfinningar velkomnar. Hvað er það versta sem gæti gerst? Um leið og þú hafnar tilfinningum þínum hafnarðu sjálfri/um þér. Heldur þú kannski að þær hverfi af sjálfu sér? Nei, bara alls ekki. Líklega hættir þú að skynja þær eða heyra í þeim tímabundið. Tapar þannig ákveðinni tengingu við þitt tilfinningalíf. Verður dofin, að einhverju leyti vofan af sjálfum þér. Skilur svo ekki af hverju þú tengir ekki við fólkið sem þú elskar. En ef þú ert ekki í sambandi við allt tilfinningarófið þitt, hvernig ætlarðu að tengja við annað fólk? 

Spilar þú „best off“ dagsins í von um að endirinn verði annar en í gær?

Eða ertu kannski týpan sem leggst á koddann á kvöldin og lætur hausinn taka yfir. Spilar „best off“ dagsins á repeat eða löngu liðnar sviðsmyndir aftur og aftur, í von um að endirinn verði annar en í gær þrátt fyrir að þér sé fullljóst að þennan leikþátt skrifar þú ekki aftur. Því undir niðri kroppa í þig gamlar tilfinningar sem þú hleyptir aldrei að þegar þær áttu fullan rétt á sér. Þær hverfa ekki af sjálfu sér. Og getur treyst á að þær finni sér leið í dagsljósið, koma líklega upp á yfirborðið í annarri mynd eða öðrum aðstæðum. Tilfinningar eru nefnilega alveg ótrúlega þrautseigar og allar líkur á að þú tapir feluleiknum.

Allar tilfinningar, erfiðar eða auðveldar, eru bæði heilbrigðar og eðlilegar. 
Hins vegar er óeðlilegt og óheilbrigt að loka á þær, kyngja þeim, hunsa, vanvirða, afneita eða hvert svo sem þitt val á höfnun kann að vera. 

Stóri misskilningurinn er nefnilega sá, að það að skynja erfiðar tilfinningar er ekki merki um veikleika heldur styrk, hugrekki og heiðarleika. Við mannfólkið erum alls konar og tilfinningar okkar líka. Við getum verið glöð, full tilhlökkunar og ánægð á sama tíma og við upplifum sorg, óöryggi og hjartasár. 

Vegna þess að allir fokking litir regnbogans eiga rétt á sér.

mbl.is