Hvort er betra að vera þverhaus eða svikari?

Sara Oddsdóttir ráðgjafi og markþjálfi rekur vefinn saraodds.is.
Sara Oddsdóttir ráðgjafi og markþjálfi rekur vefinn saraodds.is. mbl.is/Árni Sæberg

„Stundum er bara betra að svíkja loforð. Lífið er alls konar og allt það. Við vitum líka að ekkert er öruggt nema óvissan sjálf. Við gefum fullt af loforðum á ævi okkar og svíkjum mörg þeirra. Ekki vegna þess að við erum svikarar heldur vegna þess að tímarnir breytast og mennirnir með. Sem er í raun og veru miklu betra en að halda fast í sum loforð. Oftar en ekki höldum við dauðahaldi í einhverja ákvörðun sem tekin var, eins og hjónaband, samband, vinnu, verkefni, vini eða einhverja hugmynd um okkur sjálf eða aðra. Sem síðar reynist ekki gagnleg. Og miklu betra væri að henda þessari gömlu hugmynd um gluggann og semja upp á nýtt eða lagfæra að breyttum aðstæðum,“ segir Sara Oddsdóttir markþjálfi í sínum nýjasta pistli: 

Sjáðu til; helstu mistökin okkar eru einmitt að við aðlögumst ekki að deginum í dag. Hver dagur færir þér nýja áskorun, án þess að þú takir endilega eftir því. Þannig er ekki svo mikill munur á lífi okkar frá degi til dags, svona almennt ekki. En akkúrat þessa vegna, förum við á mis við stóru breytingarnar. Því þær eru ekki svo stórvægilegar ef þú berð saman daginn í dag við daginn í gær. En ef þú hugsar þetta aðeins lengra þá er mikill munur á deginum þínum í dag og fyrir 738 dögum. Fullt búið að gerast.

Ekki rétt? 

Okkur mannfólkinu finnst almennt mjög erfitt að breyta um takt. Þarna spilar blessaður óttinn mjög stórt hlutverk. Þar sem hann er hannaður til að halda okkur á lífi og hefur aldeilis þjónað formæðrum okkar vel, en þjónar okkur ekkert sérstaklega vel í dag. Fáir gera sér grein fyrir hversu mikil áhrif þessi ótti hefur á daglegt líf okkar allra, já allra. Ég ætla hins vegar ekki að ræða óttann núna.
En trúðu mér, hann heldur miklu meira aftur af þér en þig nokkurn tímann grunar. 

En af hverju finnst okkur svona erfitt að breyta?

Ef við tökum óttann úr myndinni þá spilar sjálfsmynd okkar mjög stórt hlutverk. Sjáðu til, við höfum einhverjar hugmyndir um hver við erum og hvernig lífið okkar á að vera. Sem dæmi, þá tökum við að okkur eitthvað verkefni og sjáum strax fyrir okkur hvernig við ætlum að tækla það. Sem er frábært, ég er algerlega á því að kýla á hlutina. En svo, eins og með svo margt, þá fara hlutirnir ekki alveg eins og við sáum fyrir okkur. Og hvað gerum við?

Nú auðvitað, höldum við ótrauð áfram, alveg eins og við erum vön að gera. Gerum nákvæmlega það sama og við gerðum í gær en svo finnst okkur skrítið að það breytist ekkert? Það ekki fyrr en til dæmis, hjónabandið er komið í skrúfuna, við komin með ógeð á vinnunni eða húsið er alelda, sem við komum okkur út. Við sjáum nefnilega ekki litla neistann sem kviknar fyrr en hitinn er orðinn óbærilegur. 

Við kunnum ekki að spyrja réttu spurninganna. 

Við viljum ekki rugga bátnum, spyrja erfiðra spurninga, taka skrefið eða hreinlega nennum ekki að hafa fyrir hlutunum. Já, það er bara nákvæmlega þannig. Við erum löt. Of löt til að leggja á okkur smá sjálfs gagnrýni og skoða hvort hugsanlega betur megi gera. Bæði varðandi okkur sjálf og gagnvart öðrum. Höldum þannig blint áfram þar til eitthvað gefur sig eða skiljum ekkert af hverju hlutirnir ganga ekki upp hjá okkur. Við kunnum ekki heldur að spyrja réttu spurningarnar. Spurningar eins og; Hvað er ég ekki að sjá sem aðrir gætu séð? Hvernig öðruvísi væri hægt að stilla þessu upp? Hvernig má gera þetta betur? Hver getur aðstoðað mig? Veitt mér betri upplýsingar? Hvað hafa aðrir í sömu stöðu ég gert?

Og þannig mætti áfram telja. 

Samdauna gærdeginum, nennum við ekki að hafa fyrir betri árangri og hamingju eða erum hreinlega of stolt til að hafa „rangt fyrir okkur“. Of stolt að viðurkenna að gott væri að endurskoða þá ákvörðun sem við tókum eða nálgun okkar á það verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Of stolt að viðurkenna að hugsanlega sé hægt að gera þetta á annan skilvirkari hátt eða að þetta hreinlega gangi ekki upp eins og við sáum fyrir okkur. Að betra væri að fara til baka nokkur skref og endurskoða hlutina í ljósi þeirrar vitneskju sem nú hefur litið dagsins ljós. Þetta kallast víst aðlögunarhæfni eða bestun á vinnustaðnum þínum.

Þetta er ekki merki um uppgjöf. Heldur sýnir það styrk þinn og hugrekki. Frekar metnað ef eitthvað, en því miður þá hagir fólk í sama farinu, ár eftir ár. Ég veit að þetta hljómar eins og klisja og þú heyrt þetta hundrað sinnum, en af hverju gerir þú ekkert í því? Hver kannast ekki við vinnustaðinn þar sem allir vita að fyrirkomulagið er svo langt frá því að vera ásættanlegt en enginn þorir að breyta?

Það eru allar líkur á að þitt verkefni, hvert svo sem það er, geti orðið mun farsælla bara ef þú hættir að taka þátt í að gera hlutina eins og þeir voru gerðir í gær. Að viðurkenna að við þurfum aðra nálgun, aðferð, stefnu eða aðstoð er milljón sinnum betra en að halda áfram þar til spilaborgin fellur. Verða síðan að einni taugahrúgu, skila lélegu eða skítsæmilegu verki eða leggja að af stað og halda að þetta bara reddist einhvernveginn, það er bara ekki gott plan. Heldur er slík nálgun er merki um bæði lélega og lata aðferðafræði.

Ef þú staldrar aðeins við, gefur sjálfum þér smá tíma og orku til að raunverulega endurskoða það sem þú stendur frammi fyrir. Gerir heiðarlega innri endurskoðun og skipuleggur þig út frá því, hvert svo sem verkefnið kann að vera, þá eru margfalt meiri líkur á að þú náir betri árangri og verðir bara heilt yfir hamingjusamari einstaklingur. Já, þú þarft að viðurkenna fyrir sjálfum þér að það sé alls konar fokk í gangi. Og já, ég veit það þarf hugrekki og heiðarleika til þess, en ég veit að þú getur það. Ég veit líka að ef þú gerir þetta þá verður þú á betri stað á morgun en í dag. Tala nú ekki um eftir 739 daga. Við þurfum að skoða hvern dag með nýjum gleraugum.
Því dagurinn í dag er ekki gærdagurinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál