Hamingja fyrrverandi er ekki í þínum bakpoka

Sara Oddsdóttir ráðgjafi og markþjálfi rekur vefinn saraodds.is.
Sara Oddsdóttir ráðgjafi og markþjálfi rekur vefinn saraodds.is. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er ekki heilabrot fyrir stærðfræðinga heldur einföld staðreynd sem á stundum við. Vísindi myndi ég segja en hugsanlega eru einhverjir ósammála mér. Heppilegt að mér sé alveg sama en allir geta verið sammála um að hamingjan vegi þungt í lífi okkar allra. Og síðast þegar ég vissi voru allir að keppast við að fylla líf sitt af hamingju eftir bestu getu og smekk. Reyna að safna eins miklu af henni og mögulegt er og helst eiga nægar birgðir. Ég veit allavega ekki um neinn sem á allt of mikið af hamingju,“ segir Sara Oddsdóttir lögfræðingur og markþjálfi í sínum nýjasta pistli á saraodds.is: 

ÓÁÞREIFANLEG EN SAMT SEM ÁÐUR SVO BERSÝNILEG 

Það er hins vegar smá galli á gjöf Njarðar því hamingjan getur vegið þyngra en gull. Og þar af leiðandi bras að burðast með þyngdina sem í henni felst. Á sama tíma og hún er óáþreifanleg er hún samt sem áður svo bersýnileg ef svo ber undir. Hún baðar þig í ljósi sínu þegar hún mætir á svæðið en á sama tíma hangir skuggi hennar yfir þér þegar hún er víðs fjarri. Skondin skrúfa þessi hamingja.

EN AFTUR AÐ STÆRÐFRÆÐI HAMINGJUNNAR ÞVÍ EINS ÉG SAGÐI ÁÐAN ÞÁ SÍGUR HÚN Í

Til að setja þetta í samhengi þá var ég að ganga á Hornströndum um verslunarmannahelgina og vá hvað bakpokinn minn var þungur, sér í lagi þegar aðstæður voru krefjandi. Ég er reyndar búin að komast að því að ég er allt of góð að pakka þökk sé sérstökum Tetris-hæfileikum, en það er önnur saga. Allavega, á leið minni yfir Hafnarskarð í 10 m á sek. norðanvindi, grenjandi rigningu og sjö gráðum var bakpoki minn orðinn ansi þungur. Og þar vó mest hamingjan. Því hún vegur þyngst í erfiðum aðstæðum. Sjáðu til að hamingjan er gædd þeim ótrúlega eiginleika að vega meira í erfiðum aðstæðum því það er auðvelt að bera hamingjuna þegar allt gengur vel.

ÓUMBEÐIÐ OG ÞRÁTT FYRIR ORÐ

Lengi stóð ég í þeirri meiningu að aðrir ættu að bera mína hamingju fyrir mig. Óumbeðið.
Þvílík vonbrigði þegar ég fattaði að hamingjan mín væri ekki með í för. Þegar mér varð ljóst að ég væri búin að ganga lengst í burtu frá minni hamingju en á sama tíma fullviss um að ferðafélagi minn væri með hana í bakpokanum sínum. Komst svo að því, þegar ég ætlaði að fá mér smá skammt af hamingju, að hún væri bara nákvæmlega þar sem ég skildi síðast við hana. Glatað móment. Svo ég þurfti að gera svo vel og snúa við, ganga alla leiðina til baka og sækja mína hamingju sjálf. 

ÉG ER MEIRA SVONA STRAX-OG-NÚNA-TÝPAN!

Það væri einstaklega gott ef einhver annar gæti, þó ekki væri nema einstaka sinnum, borið hamingjuna fyrir mann. En alveg eins og hver þarf að bera sinn bakpoka á Hornströndum, þá þarf víst hver og einn að bera sína hamingju sjálfur. Hver ber ábyrgð á sinni hamingju rétt eins og sínum bakpoka. Það er bara þannig. Ég veit, óþolandi svona klisjur, svona svipað eins og jafnt og þétt, eða hægt og rólega. Ég er meira svona strax-og-núna-týpan.

GOTT AÐ VERA MEÐ HÁSKÓLAPRÓF Í SAMNINGATÆKNI

Allavega, eins og ég sagði, þá var ég þess lengi fullviss að aðrir ættu að bera mína hamingju fyrir mig, reyndar óumbeðið, klassík. Og það er alveg sérstaklega erfitt þegar maður áttar sig fyrst á því að enginn nema maður sjálfur getur mögulega borið manns eigin hamingju. Og ég er að segja ykkur það, ég hef reynt öll trixin í bókinni. Allar mögulegar og ómögulegar aðferðir undir sólinni til að láta aðra bera hana fyrir mig. Meira að segja reynt ítrekað að lauma henni í bakpokann hjá ferðafélögum mínum. Það er ekki hægt. Virkar ekki. Þvílíkur skellur þegar ég áttaði mig á því að engu skipti hvað ég gerði; hamingjan beið þolinmóð þar sem ég skildi hana síðast eftir.

En ég gefst ekki upp svo auðveldlega. Eftir að mér var fullljóst að ég þyrfti að burðast með hana sjálf þá reyndi ég að semja um flutning á hamingju. Þar reyndi næst á lögfræðikunnáttu mína, gott að vera með háskólapróf í samningatækni eða það hélt ég.

SAMNINGUR UM VÖRSLU Á HAMINGJU

Ég hef gert ítrekaðar tilraunir til að samningsbinda hamingjuna með samningum um vörslu á henni. Gerðir hafa verið skýrir og skilmerkilegir samningar við einstaklinga um hvernig skuli gæta hamingju minnar og hvernig meðferð á henni skuli háttað. Þrátt fyrir að allir samningsaðilar hafi gengið sjálfviljugir að samningsborðinu, engin óljós samningsatriði og skýr loforð um meðferð og flutning á henni kom allt fyrir ekki.

Sem dæmi þá lofaði fyrrverandi maðurinn minn mér oftar en einu sinni að bera mína hamingju fyrir mig. Hann var bara alveg til í það. Og ég jafn fús til í að bera hans hamingju fyrir hann. Vá hvað það kom okkur báðum á óvart að mín hamingja væri ekki í hans bakpoka, né hans í mínum. Þrátt fyrir vilja okkar beggja til að bera hamingju hvort annars.

HUGARORKAN GETUR EKKI BREYTT LÖGMÁLI HAMINGJUNNAR

Engu breytir þótt gefin hafi verið loforð um burð á hamingju yfir fjöll og firnindi. Hvort sem þú semur um það í sérstökum samningi, tekur loforð, treystir á hugarorku þína, ástina eða einbeittan (brota)vilja um að annar einstaklingur skuli bera hana. Það er ekki hægt. Það eru nefnilega sérstök álög á hamingjunni. Hver og einn getur eingöngu borið sína eigin hamingju. Alveg eins og hver þarf að bera sinn bakpoka á Hornströndum, þá ber hver og einn ábyrgð á að fullvissa sig um að hans eða hennar hamingja sé í viðeigandi bakpoka, sínum eigin. Bömmer, ég veit.

HAMINGJAN VEGUR MEIRA EN GULL Í ERFIÐUM AÐSTÆÐUM

Við tilteknar aðstæður vega sjö grömm af gulli jafn mikið og eitt gramm af hamingju. Hamingjan vegur þannig meira en gull í erfiðum aðstæðum og um leið þyngri byrði að bera. Þegar leið þín liggur um stórgrýtta jörð sem er erfið yfirferðar máttu bóka að hamingjan mun reynast þér þyngri eftir því sem burðurinn er lengri. En á sama tíma er verðmæti hamingjunnar sjöfalt meira en gull. 

Að bera ábyrgð á sinni hamingju þýðir að þú þarft að velja vandlega þinn áfangastað og huga vel að hversu langt þú ert tilbúin/n að ferðast með hana. Þá skiptir máli að velja sér bæði góða ferðafélaga en sérstaklega fararstjóra. Því góður fararstjóri veit hvaða leið er greiðfærust svo að hamingjan verði ekki að byrði. Hún má ekki verða svo þung að þú þurfir hreinlega að skilja hana eftir á toppi Hafnarskarðs ef þú lendir í slæmu veðri eða öðrum ógöngum. Því ef þú ert í slagtogi með týnda fararstjóranum getur ferðalagið reynst flókið. Mikilvægast af öllu er þó að hafa hugfast að álög hamingjunnar eru fólgin í því að hún verður aðeins leyst úr læðingi ef þú berð hana sjálf/ur.

Þetta sannar hina vísindalegu staðreynd að hver getur aðeins borið ábyrgð á sinni eigin hamingju og sýnt hefur verið fram á með óyggjandi hætti að hamingjan vegur þyngra en gull.

mbl.is