Taugaveiklaður uppgjafahermaður með áfallastreituröskun

Sara Oddsdóttir, ráðgjafi og markþjálfi, rekur vefinn saraodds.is.
Sara Oddsdóttir, ráðgjafi og markþjálfi, rekur vefinn saraodds.is. mbl.is/Árni Sæberg

„Oft skilur á milli hugar og hjarta á lífsins ferðalagi. Þessir tveir leiðsögumenn okkar, hugur og hjarta, eru oft ósammála hvora leiðina skuli velja. Báðir reynsluboltar í bransanum og hafa starfað sem slíkir í þúsundir ára. Ef þeir eru ósammála um hvert skal haldið er betra að stilla til friðar strax. Því barátta þeirra getur endað með innra stríði sem þú getur vissulega flækt og komið þannig í veg fyrir friðsæla lausn. En hvor þeirra veit hvert skal haldið?“ segir Sara Oddsdóttir, markþjálfi og lögfræðingur, í sínum nýjasta pistli: 

Sjáðu til, fyrstu merki um yfirvofandi stríð eru lágværar raddir hjartans. Þær kroppa í þig og segja að eitthvað sé ekki eins og það á að vera, heyrast varla. Hjartað reynir þannig hljóðlega að leiða þig í aðra átt eða að nýjum áfangastað og koma í veg fyrir að ófriður brjótist út. Við verðum sjaldan vör við þessa fyrirboða eða þykjumst ekki heyra í þeim fyrr en of seint. Í byrjun má segja að þessi togstreita líkist almennum ágreiningi sem verður að óeirðum og stigmagnast í átök en á endanum ríkir stríðsástand. 

Leiðsögumennirnir okkar hafa ólíka nálgun í sinni aðferðafræði. Þegar hjartað byrjar að hvísla að okkur, sannfærum við okkur um að betra sé að gefa þessum röddum ekki vægi og hunsa bara. Hljóðláta röddin muni örugglega þagna og best sé að halda áfram með planið eins og lagt var upp með. Þú setur á silent eða snooz-ar í einhvern tíma, en trúðu mér það er ekki góð herkænska. 

Ef þessi sterku öfl berjast um völd þá eru blóðug átök í vændum. Innra stríð sem enginn vinnur þar sem hvorugt þessara afla á að vera einræðisherra. Þú reynir samt að hafa áhrif á niðurstöðuna, líklega með því loka á annað þeirra og gefa hinu forræðið. Ekki góð hugmynd.

Hitt aflið, hugurinn, er gömul stríðshetja og gríðarlega reynslumikill. Auk þess að búa yfir stórkostlegri sagnagáfu er hann með stálminni, man miklu miklu meira en þú. Langt aftur í aldir. Hann gerir allt í sínu valdi til að verja okkur fyrir yfirvofandi hættu. Hann sendir okkur skilaboð um að vera hrædd ef við erum í óþægilegum aðstæðum eða stefnum á eitthvað sem hann kannast ekki við. Hvað þá ef við vogum okkur að stíga út fyrir þægindarammann. Segja má að hugurinn sé í raun stríðsmaður hjartans, það síðasta sem hann vill er að það brotni. 

Því miður þjáist þessi hugrakka hetja okkar af hugsanavillu þessa dagana. Hann telur sig nú vera einræðisherra. Og virðist vera búinn að sannfæra okkur öll um ágæti sitt og við eigum nánast ekki séns í hann. Hvað er annað hægt þar sem hann er ótrúlega klár? 

Eins og ég sagði þá er hugurinn frábært skáld. Hann getur samið heilu sögurnar um hvernig þetta allt saman muni fara eða ekki fara. Til þess eins að forða þér frá því sem hann metur sem hættuástand. Allt byggt á fyrri reynslu, ekkert endilega þinni reynslu bara svona eftir því hvernig hann er stemmdur. Hann hefur líka þróað með sér vopn, efnavopn sem hann notar nú gegn þér.

Hann getur þannig leyst úr læðingi efni eins og dópamín, til að tryggja trúverðugleika sögu sinnar. Óháð því hvort niðurstaðan verði neikvæð eða jákvæð fyrir þig þá getur hann tryggt söguna með dópamínskoti. Sem við gerum, þar sem við erum hönnuð til að trúa honum.
Algerlega magnaður þessi stríðsmaður.

Honum finnst líka alger óþarfi að trufla þig með einhverjum smáatriðum ef eitthvað er óljóst. Til dæmis sendir hann þér streituhormón í smáskilaboðum ef honum er ógnað sem segir þér að hætta við. Auðvitað er hann sannfærður um að þetta allt sé okkur fyrir bestu, sérstaklega hjartanu.

Halló, hann er líka skipaður í þeim tilgangi að halda okkur á lífi. Að vernda hjartað frá allri ógn og tryggja að við mannfólkið komumst af. Engin smá ábyrgð. Og til að uppfylla skyldur sínar hefur hann unnið markvisst að þessu kerfi í árþúsundir með framúrskarandi árangri. 

Vandamálið er hins vegar að heilinn er ímyndunarveikur. Og ekki bara það, heldur byggir hann á fyrri reynslu eða upplýsingum sem honum hafa verið gefnar, þínum eða annarra. Ég meina það, hann er betra skáld en Laxness. Ef áhættuatriði er í vændum sem hann getur mögulega tengt við einhvers konar vanlíðan eða óöryggi, mun hann ekki senda þér skilaboð um jákvæðan endi.

Hugur þinn hefur þannig þróast í einhvers konar taugaveiklaðan uppgjafarhermann með áfallastreituröskun sem er logandi hræddur við allt og alla. Upphaflegt hlutverk hans að forða hjartanu frá lífshættu snýst nú um að forða þér frá öllu sem er óþægilegt eða gæti mögulega reynt á þig. Hann er svo illa farinn eftir öll þessi ár.

Öll þessi átök sem forfeður og formæður okkar þurftu að ganga í gegnum. Stríðsmaður hugans er nú kominn út í horn eins og sært dýr. Ef honum er ógnað mun hann beita efnavopnum á þig til að forða þér frá hættu, raunverulegri eða ekki. Hann er nefnilega ekki búinn að uppfæra kerfið eða laga að nútímasamfélagi. Vissulega var það aldrei hlutverk hans að vera bjartsýnn og vongóður. Þessi stríðsmaður er hannaður í vörn. 

Í samfélagi okkar í dag má segja að ríki herstjórn hugans, að ákveðið valdarán hafi átt sér stað. Huganum var aldrei ætlað stærra hlutverk en að þjóna hjartanu og vernda. Nú þegar hættuástand síðustu árþúsunda er að mestu leyti yfirstaðið hefur hann skipt um hlutverk. Stríðshetjan, nú fangavörður, sem hönnuð var til að forða okkur frá lífshættu heldur okkur nauðugum í hugarheimi sínum, þrátt fyrir að við höfum ekki gerst sek um refsiverða háttsemi.

Vissir þú að aðeins annar þeirra hefur áttavita sem virkar? Það er áttaviti hjartans sem leiðir ferðina. Huganum var aðeins ætlað að þjóna hjartanu á þessu ferðalagi. Eins og áður segir hefur hugur þinn eingöngu það hlutverk að vernda hjartað frá raunverulegri ógn. Ekki að koma í veg fyrir að við förum út fyrir þægindarammann, sækjum um nýja vinnu, gefum ástinni annað tækifæri, förum aftur í skóla eða gerum eitthvað sem við erum hrædd við eða höfum ekki gert áður. Bara alls ekki. 

Næst þegar þú heyrir hjarta þitt hvísla prófaðu að hlusta á það.
Hjartað er ekki síðri stríðsmaður en hugur þinn og kann ekki að tapa. Í byrjun hvíslar það lágt að þér en ef þú hlustar ekki þá mun það beita sér, hækka röddina og á endanum öskra á þig þar til þú getur ekki hunsað það lengur. Og í stað þess að láta lágværa rödd hjartans leiða þig áfram mun það lýsa yfir stríði. 

Ég veit líka að ef þú leggur strax við hlustir verður ferðalagið ekki eins átakanlegt, jafnvel ánægjulegt. Hvernig hljómar það? Trúir þú á ævintýri? Vægi huga og hjarta krefst ákveðins jafnvægis þeirra á mili og eina lausnin er að semja frið við báða aðila. Ef þú hlustar eftir þínu hjartahvísli og fylgir þínum hjartasporum í trausti getur þú öðlast frelsi frá haldreipi hugans.

Áttaviti hjartans mun leiða þig á áfangastað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál