„Það er lágmenning að snobba“

Goddur segir að skólahald sé núll og nix í gegnum …
Goddur segir að skólahald sé núll og nix í gegnum fjarfund. mbl.is/Árni Sæberg

Guðmundur Oddur Magnússon eða Goddur eins og hann er yfirleitt kallaður er líklega eini rannsóknarprófessor í háskólasamfélaginu sem er ekki með háskólapróf. Hann segir að allt grúv tapist í gegnum fjarkennslu og að fólk læri oft meira af skólafélögum sínum en kennurum. 

Hafa þarf í huga að háskólapróf í listum og skapandi greinum er tiltölulega ungt fyrirbæri og ég held að það sé nú flestum ljóst að í listum skiptir meira máli hvað þú gerir en hvort þú hafir prófgráðu. Þrátt fyrir að vera ekki ánægður með allt hef ég hins tekið fullan þátt í því að byggja upp og skapa listnám á háskólastigi undanfarin 25 ár og það þýðir markviss rannsóknarvinna sem einkennir bæði vísindamenn og listamenn sem skara fram úr. Sú rannsóknarvinna sem ég er að vinna að er íslensk myndmálssaga,“ segir Goddur.

Á árinu 2020 og fram á þetta ár hefur námið að miklu leyti farið fram í fjarkennslu á netinu. Hvernig upplifir þú það?

„Gott skólahald eins og ég hef upplifað það er hvorki fugl né fiskur þegar það fer fram í gegnum netið. Það má ekki gleyma því að svo stór partur af námi er að læra af skólafélögum. Þegar ég var í námi lærði ég meira af skólafélögum mínum en kennurum eða alla vega í þessum tæknilegu faggreinum. Við vorum ófeimin við að spyrja félaga okkar. Það eru kannski þrír kennarar af að minnsta kosti eitt hundrað kennurum sem standa upp úr en það voru kennarar sem kveiktu ljósið, veittu innblástur þegar þeir fóru á flug. Mesta nándin var samt ekki endilega í skólastofum heldur frekar á námsferðalögum, á kaffihúsum og svoleiðis,“ segir Goddur og hlær.

Heiðarleikinn kemur fólki lengra

Hann segir að bestu kennararnir hafi verið þeir sem höfðu eitthvað að gefa af sér og voru sannir.

„Það finna allir fyrir tilgerð og uppskafningshætti. Það er ekki hægt að hafa einkarétt á hugmyndum en það er hægt að hafa einkarétt á útfærslum. Þeir sem eru sannir sjálfum sér og ná því að hafa það sem persónueinkenni verða þeir sem við köllum listamenn. Það góða við sannleikann er að maður þarf ekki að leggja hann á minnið. Það sem gerist ef fólk er heiðarlegt og trúverðugt er að það kveikir áhuga hjá öðrum. Listamenn, rithöfundar og ljóðskáld verða að hafa innstæðu. Ég á ekki við stórasannleika með prédikun, heldur þegar fólk talar út frá sjálfu sér, hjarta sínu, innsæi sínu og gefur af sér,“ segir hann.

Nútímasamfélag breytist hratt þessa dagana vegna stafrænnar þróunar. Goddur bendir á að það sé margt sem sé varla lengur til sem stofnanir í föstu formi í okkar samfélagi eins og til dæmis bankar. Nú sé hægt að ná sér í alla heimsins þekkingu í gegnum netið en það breyti því ekki að manneskjan er félagsvera sem þurfi andrúmsloft samtals og nærveru í raunheimi.

„Þetta andrúmsloft sem er svo hvetjandi og skapandi virkar ekki eins á tölvuskjám. Þegar skólarnir eru komnir á netið vakna spurningar eðlilega um hvort við höfum eitthvað með þá að gera í raunheimi,“ segir hann og nefnir að þegar fólk hittist í gegnum Teams eða eitthvað í þeim dúr fari fólk að velta fyrir sér öðrum hlutum eins og hvernig umhverfi fólks sé á þessum fundum. Hvernig er heima hjá fólki? Goddur segist sakna þess að finna grúvið í samskiptum sem eiga sér stað maður á mann eða í hóp. Hann bendir líka á að skólar hafi orðið til á tímum Friðriks mikla Prússakeisara. Hann muni vel eftir leifunum í barnaskóla, allir í röð og jafnið bilin! Í iðnbyltingunni fór fólk að læra eftir stundatöflu vélmenningar. Goddur segir að leikfimi í sinni barnæsku hafi ekki verið neitt annað en heræfingar og minnist á stökkið yfir hestinn því til staðfestingar.

Hann segir að margt hafi breyst í kringum 1970 og þá til hins betra en þó ekki alveg. Með námskrám sem úreldast fyrr en margan grunar. Kennslu- og uppeldisfræði sé ekki holl fyrir fólk sem notfærir sér ekki náðargáfuna að kveikja ljósið. Það eru ekki allir kennarar í eðli sínu og verða fyrir bragðið dómharðir harðstjórar.

„Hér áður fyrr voru þeir atorkusamir í æsku sem urðu svo brautryðjendur. Ég tala nú ekki um ef einbeitingin var í lagi. Með uppeldisfræði og atferlissálarfræði eru atorkuboltar greindir sem vandamál í bekkjarkerfum, þeir séu ofvirkir sem hafi ekki hæfileika til að einbeita sér eins og ungt fólk sem sé talið eðlilegt. Bestu listamennirnir og mesta framfarafólkið hafa öll þessi einkenni. Í grunninn verður þú að vera með ADHD-orkuna en það er ekki nóg. Það verður að vera farvegur fyrir orkuna sem fæstir skólar bjóða upp á. Sá farvegur, einbeitingargáfan, er skilgreind sem asperger. Og svo til að ná heimsathygli þarf svona „dash“ af geðhvarfasýki. Hafa þarf í huga að flestir með heilbrigða skynsemi eru farnir að sjá í gegnum þessa greiningaáráttu. Það eru gefin lyf til að gera viðkomandi „eðlilega“ þó að viðurkennt sé að lyfin lækni ekki neitt, þau slá bara á einkennin og gera skilningssljóa aðstandendur, kennslu- og uppeldisfræðinga ásamt foreldrum rólegri,“ segir hann.

Þegar Goddur er spurður að því hvort það þurfi ekki að gera eitthvað í þessari þróun segir hann að þetta muni deyja af sjálfu sér.

„Þetta deyr af sjálfu sér. Það þarf ekki að gera neitt. Þetta hefur þetta eðli að þetta verður alltaf verra og verra og svo hrynur þetta. Það er komin svo sterk undiralda af skilningsríkara fólki í skólunum sem betur fer,“ segir hann.

Við lifum nú samt í samfélagi sem snobbar fyrir háskólagráðum, er það ekki?

„Það er lágmenning að snobba. Þetta er hvort sem er undirmálsfólk sem snobbar.“

Goddur bendir á að lífið leiði fólk áfram og flestir endi á öðrum stað í lífinu en þeir ætluðu sem ungt fólk.

„Gallann við venjulega háskóla má rekja til upphafs þeirra á 16. öld. Sir Francis Bacon var guðfaðir háskóla. Hann lagði til að viskunni yrði náð úr höndum kvenna. Visku sem byggði á innsæi og tilfinningum. Það þyrfti að taka upp áreiðanlega þekkingu sem byggðist á mælingum og speglun.Vandamálið við þetta er að þú getur bara mælt það sem er og var en ekki ófæddan mögulegan raunveruleika. Við þurfum að endurvekja kvenlegt innsæi. Stýrið inn í framtíðina byggist á innsæi og tilfinningagreind,“ segir hann og bætir við:

„En ég vil ekki gera lítið úr speglum og mælingum. Þau fyrirbæri eru nauðsynlegir aftursætisbílstjórar. En flestir vita að það er fleira til en hægt er að spegla eða mæla. Spegillinn hefur til dæmis ekkert ímyndunarafl.“

Í hruninu benti Goddur á að auglýsingar hefðu breyst. Þjóðernishyggja varð skyndilega í forgrunni og íslenski fáninn kom jafnan fram í auglýsingum. Þegar hann er spurður að því hvort hann sjái svipaða breytingu vegna kórónuveirunnar segir hann að grunnurinn í auglýsingum breytist ekki.

„Í raun og veru er flestum ljóst sem við þetta starfa að myndmál er eina málið sem nær undirmeðvitundinni á svipstundu. Ef þú ert að selja hugmyndir eða vöru, bækur eða plötur, þá snýst þetta um að ná til undirmeðvitundarinnar. Snýst um að fá fólk til að langa í þetta eða hitt. Fólk er alltaf að selja sér þær hugmyndir að það verði að eignast hluti til að verðlauna sig. Fólk þarf sitt fix. Klárir auglýsingamenn vita þetta. Hinir sem kunna þetta ekki koma með tölfræði. Málið er bara að þú selur ekki vöru með tölfræðilegum upplýsingum. Það kaupir enginn bíl vegna þess að hann sé með svona mörg hestöfl og svona kraftmikill. Þú kaupir bílinn af því hann lúkkar. Þetta hefur ekkert breyst,“ segir Goddur.

Talið berst að framtíðarnámi og hvort störf framtíðarinnar verði allt önnur en störf í dag. Goddur segir að það sé mikilvæg spurning hvort nemendum sé eingöngu kennt það sem sé núna og það sem var en ekki það sem geti orðið.

„Ég man vel eftir því þegar mín starfsgrein, grafísk hönnun, miðlun myndmáls varð stafræn. Það gerðist þegar ég var við nám í Kanada seint á níunda áratugnum. Þessi nýja tækni kom inn í skólann 1988. Kennarar töldu eðlilegt að við kynntust þessu en enginn gerði sér grein fyrir því þá hvað þetta gerðist hratt. Það stóð aldrei til í mínu lífi að verða kennari, en ég hef á tilfinningunni að áhrifamestu kennarar mínir hafi haft grunsemdir um að það yrði raunin. Um leið og ég kom heim voru rauðir dreglar inn í skólastofnanir vegna þess að Kanada var svona hálfu ári á undan okkur hér á Íslandi á þessum tíma í stafrænu byltingunni. Allt sem ég nota í kennslu lærði ég þar. Bara sem dæmi sagði ég einu sinni óvart við einn kennara: Mikið væri nú gaman og gott ef hægt væri að kenna skilning. „Hvað, ertu ekki búinn að fatta hvernig maður kennir skilning?“ Nú, er það virkilega hægt? „Auðvitað er það hægt. Maður kennir skilning með því að nota líkingamál, dæmisögu, eða segja sama hlutinn með mismunandi orðum. Þá segja flestir já, varstu að meina það, skilurðu!“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál