Nökkvi Fjalar flytur til Lundúna

Nökkvi Fjalar Orrason frumkvöðull ætlar að flytja erlendis á næstu …
Nökkvi Fjalar Orrason frumkvöðull ætlar að flytja erlendis á næstu mánuðum. Ljósmynd/Aðsend

Nökkvi Fjalar Orrason frumkvöðull stefnir á að flytja til Lundúna í sumar. Heimsborgin hefur lengi verið í miklu uppáhaldi hjá Nökkva en ástæðan er þó ekki áhuginn á Arsenal heldur spennandi tækifæri á samfélagsmiðlum fyrir Swipe Media sem Nökkvi rekur. 

„Persónulega hef ég góða tengingu við London. Þegar ég fór í fyrsta skipti til útlanda fór ég til London. Alinn upp sem Arsenal-maður,“ segir Nökkvi sem segir föður sinn grjótharðan Arsenal-aðdáanda. „Það sem kveikir áhuga okkar núna á að fara út er að Emblu Wigum, sem er ein af teymismeðlimunum okkar, fannst það henta best því sem við erum að fara gera. Hún er orðin mjög stór á TikTok og ætlar sér stóra hluti á miðlunum. Það var að hennar frumkvæði sem London var valin.“

Embla er stórstjarna

Embla er með 1,4 milljónir fylgjenda á TikTok og fer með Nökkva út. Hann gerir ráð fyrir að áhrifavaldarnir Arnar eða Lil Draco og Gauti sem kallar sig Lil Curly fari út einhvern tímann á þessu ári. Fyrir lok árs verða fimm frá fyrirtækinu komnir út ef allt gengur upp. Akkúrat núna er Swipe Media í viðræðum við áhrifavalda erlendis sem þau vonast til þess að vinna með. 

„Við erum að fara út með mikla þekkingu á þessum heimi hérna heima. Við teljum okkur vera með einstaka þjónustu,“ segir Nökkvi. Það sem hans fyrirtæki hefur fram yfir önnur fyrirtæki er að Swipe Media hjálpar áhrifavöldum ekki bara með samstarfsaðila heldur líka framleiðslu á efni. Það sem er alveg sérstakt er að Swipe býður upp á hugarfarsþjálfun sem hjálpar áhrifavöldunum að líða vel í lífi og starfi. Nökkvi tekur fram að fyrirtækið verði áfram með öfluga starfsemi á Íslandi og helmingur teymisins verði áfram hér.

Vegna útgöngu Breta úr Evrópusambandinu er töluvert flóknara að flytja til Bretlands en áður. Nökkvi er enn að bíða eftir formlegu svari. „Við ætlum að gera okkar besta til að vera komin út í ágúst eða september.“

Langar á leik með Arsenal

Það verður nóg af skemmtilegum vinnuverkefnum hjá Nökkva en eitt það fyrsta sem hann langar til að gera þegar hann kemur út er að fara á fótboltaleik. „Það fyrsta sem ég geri er að fara á Arsenel-leik, þegar það má. Ég þekki Rúnar Alex vel sem er leikmaður Arsenal. Ég hlakka mikið til að sjá hann spila í haust ef það má fara á vellina. Það er líklegast að við náum að tengja þetta við það sem við erum að gera og skapa efni í leiðinni,“ segir Nökkvi sem vill helst búa í Islington sem er Arsenal-hverfið. Að öllu gríni slepptu skiptir mestu máli fyrir fyrirtækið að vera vel staðsett þar sem áhrifavaldar geta komið saman.

Gerirðu ráð fyrir að vera kominn með sprautu í ágúst?

„Ég geri þokkalega ráð fyrir því. Ég er bjartsýnn á að það gangi upp. Ef ekki þá bíður maður bara smá. Við erum að spila leik sem er ekki til skamms tíma. Við erum ekki hrædd við að fara út nokkrum vikum seinna en áætlað var,“ segir Nökkvi jákvæður að venju. 

@lildracohaha

Get down on it ic: @caps__life

♬ son original - UN CAPS
mbl.is