„Getur þú látið mömmu og pabba hætta að rífast“

Gyða starfar að hluta hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu sem sérfræðingur …
Gyða starfar að hluta hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu sem sérfræðingur í málefnum barna og sáttamaður og að hluta til sem aðjúnkt við félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gyða Hjartardóttir er einn helsti sérfræðingurinn á bak við verkefnið Samvinna eftir skilnað – barnanna vegna (e SES). SES er annars vegar stafrænn fræðsluvettvangur fyrir foreldra í skilnaðarferli og hins vegar sérhæfð skilnaðarráðgjöf fyrir fagfólk félagsþjónustu sveitarfélaga. Hún segir langflest börn sem hún hefur talað við þrá vinskap á milli foreldra sinna þrátt fyrir skilnað. 

Gyða Hjartardóttir útskrifaðist sem félagsráðgjafi frá Háskóla Íslands árið 1993 og tók meistarapróf við Háskólann í Álaborg nokkrum árum síðar. Hún er í hamingjusamri sambúð til margra ára í dag og á þrjú börn, tvö stjúpbörn, fjögur tengdabörn og tvö barnabörn.

„Frá sex ára aldri ólst ég upp sem stjúpbarn en það skýrir sennilega þann brennandi áhuga sem ég hef á málefnum barna sem ekki alast upp hjá báðum foreldrum sínum. Ég hef fjölbreytta reynslu af bæði kennslu og starfi með börnum, bæði úr barnavernd, hjá félagsþjónustu sveitarfélaga og hjá sýslumanninum. Auk þess að hafa starfað á Íslandi starfaði ég sem félagsráðgjafi í þrjú ár í Danmörku.“

SES-verkefnið á blússandi siglingu

Gyða starfar í dag að hluta hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu sem sérfræðingur í málefnum barna og sáttamaður og að hluta til sem aðjúnkt við félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands.

„Samhliða því hef ég ásamt samstarfskonu minni dr. Sigrúnu Júlíusdóttur, prófessor við félagsráðgjafardeild HÍ, unnið að innleiðingu SES. Í því felst þróun, þýðing og staðfæring á rafræna vettvanginum, auk þess að halda námskeið fyrir fagfólk um SES.“

Hvernig gengur SES-verkefnið núna?

„Það er á blússandi siglingu þessa dagana. Verkefnið er unnið að danskri fyrirmynd og byggist efnið á nýjustu þekkingu, rannsóknum fræðimanna og reynslu fagfólks. Upphaflega gerði Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaáðherra samning við okkur Sigrúnu um innleiðingu verkefnisins til reynslu í nokkrum sveitarfélögum, en við fengum upphaflega Hafnarfjörð og Múlaþing til liðs við okkur. Verkefnið var framlengt vegna kórónuveirunnar og í ársbyrjun 2021 bættust Mosfellsbær, Vestmannaeyjar, Akranes, Fjarðabyggð, Hornafjörður og Hvalfjarðarsveit við en þetta eru þau sveitarfélög sem sýndu verkefninu hvað mestan áhuga í byrjun.

Nú hefur verið ákveðið að framlengja tilraunaverkefnið www.samvinnaeftirskilnad.is til júní 2022 og gera stafræna vettvanginn aðgengilegan öllum foreldrum á Íslandi.

Það er skemmst frá því að segja að reynsluverkefnið í sveitarfélögunum átta skilaði það góðum árangri á Íslandi að ráðherra ákvað að gera stafrænan vettvang SES aðgengilegan öllum foreldrum sem ekki búa saman en eru ala upp börn á tveimur heimilum.

Í dag vinnum við hörðum höndum að því að innleiða SES á landsvísu, bæði með því að fínpússa stafræna vettvanginn og að undirbúa fagfólk í sveitarfélögunum. Við munum bjóða fagfólki upp á sérstök námskeið fyrir fagfólk, byggt á SES og að þessari dönsku fyrirmynd.“

1.100 til 1.200 börn fyrir áhrifum af skilnaði árlega

Hvað skilja margir einstaklingar með börn árlega hér á landi?

„Skilnaðartíðnin á Íslandi er mjög sambærileg og annars staðar á Norðurlöndunum og hefur verið stöðug í mörg ár, en að meðaltali enda um 43% hjónabanda með skilnaði.

Ef við skoðum skilnaðartölur hjá Hagstofu Íslands á árunum 2009 til 2019 var að meðaltali stofnað til 3.308 nýrra hjónabanda árlega, á sama tíma voru að meðaltali 1.298 skilnaðir árlega. Við þennan hóp bætast foreldrar sem slíta sambúð og svo er auðvitað alltaf einhver hópur foreldra sem eignast börn saman án þess að vera í sambandi eða búa saman.

Það er mikilvægt að árétta að Samvinna eftir skilnað – barnanna vegna er fyrir alla sem eiga börn saman og eru að ala upp börn á tveimur heimilum. Hjúskaparstaða foreldra skiptir þar engu máli, því þetta snýst um þau börn sem um ræðir.“

Um 1.100 til 1.200 börn verða árlega á landsvísu fyrir áhrifum af skilnaði foreldra, eða í kringum 700 barnafjölskyldur á ári.

„Við þetta má svo bæta að af þeim 170 foreldrum sem notuðu stafræna vettvanginn SES – barnanna vegna á reynslutímabilinu í þessum átta sveitarfélögum á Íslandi voru þau að meðaltali með 2,23 börn að baki. Okkur reiknast því til að um 379 íslensk börn hafi notið góðs af því að foreldrar þeirra nýttu sér námsefni SES.

Það er mikilvægt að árétta, sem við vitum bæði frá rannsóknum og reynslu, að börn geta vel komist í gegn um skilnað foreldra, ef vel er staðið að honum, en börn þola alls ekki ágreining á milli foreldra. Rannsóknir og reynsla hafa jafnframt staðfest að ágreiningur er það sem fer verst með börnin og þeirra tilfinningaþroska.

Ég hef sjálf í gegn um árin talað við mörg börn og þau segja nánast undantekningalaust: „Getur þú látið mömmu og pabba hætta að rífast.“

Börn vilja langoftast vera í samskiptum við báða foreldra á …
Börn vilja langoftast vera í samskiptum við báða foreldra á sínum eigin forsendum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Börn vilja langoftast vera í samskiptum við báða foreldra

Reynsla flestra kollega Gyðu er á sama hátt.

„Börn vilja langoftast vera í samskiptum við báða foreldra á sínum eigin forsendum. Það þarf jafnframt að leggja ríka áherslu á að samband foreldra og barna snúist ekki um jafnrétti foreldra heldur um rétt barns til að umgangast báða foreldra á eigin forsendum.

Ég vil þó taka fram að þetta á auðvitað ekki við ef um ofbeldi og vanrækslu er að ræða, þá gilda allt önnur sjónarmið.“

Hversu mikilvæg er samvinna eftir skilnað?

„SES er gagnreynt verkfæri (e. evidence based) sem við vitum að virkar. Um er að ræða fræðslu og námsefni sem hefur verið sýnt fram á með rannsóknum að skilar árangri. Nýlegar danskar samanburðarrannsóknir, þar sem fólk sem hefur tekið námskeiðið Samvinna eftir skilnað er borið saman við einstaklinga sem ekki hafa tekið námskeiðið, sýna marktækan mun á líðan þeirra sem taka þátt í námskeiðinu og þeirra sem ekki gera það. Þeim sem nýta námsefnið vegnar þannig á margan hátt betur en hinum sem ekki hafa nýtt sér það. Auknar líkur eru á almennt betri líðan fólks sem tekur námskeiðið, það dregur úr veikindafjarveru frá vinnu og hefur jákvæð áhrif á sálræna líðan þess. Betri líðan foreldra mun svo skila sér til barnanna.

Auk foreldranámskeiðis er fagfólki boðið upp á námskeið í því hvernig hægt er að nota námsefnið Samvinna eftir skilnað – barnanna vegna í ráðgjöf og stuðningi fyrir foreldra sem eru að skilja (e. SES-PRO). Þannig fær fagfólkið sem stýrir þessum málaflokki á vegum sveitarfélaganna samræmda þjálfun á þeim grunni.

Þessar jákvæðu niðurstöður bæði danskra rannsókna og könnunar á tæplega 100 íslenskum notendum benda til þess að það sé til mikils að vinna í samfélagslegum skilningi og í fyrirbyggjandi tilgangi, að ná til sem stærsts hóps þeirra sem eru að skilja, barnanna vegna.

Markmiðið með reynslusveitarfélögunum var að nota reynsluna til að draga lærdóm af og nýta sem fyrirmynd í öðrum sveitarfélögum. Í ljósi einróma jákvæðrar reynslu, viðhorfa almennings, undirtekta fagfólks gagnvart víðtækari innleiðingu og áhuga æ fleiri sveitafélaga á þátttöku getum við sem stöndum að íslensku innleiðingunni ekki lagt nógu mikla áherslu á mikilvægi verkefnisins.“

SES fyrir vanrækslu og ofbeldi

Nú skilur fólk út af alls konar málum. Sumir upplifa svik, fíkn og meðvirkni. Er raunhæft að ætla að allir geti orðið vinir fyrir börnin sín?

„Þetta námsefni tekur ekki sérstaklega á því hvernig best er að eiga samstarf ef um ofbeldi og vanrækslu er að ræða, þrátt fyrir að foreldrar í þessum aðstæðum geti án efa nýtt sér heilmikið af efninu. Eins og til dæmis um áhrif skilnaðar á börn, sorg barna og margt fleira en um 18 stafræn námskeið á íslensku og ensku verða aðgengileg á næstu mánuðum. Í námsefninu leggjum við áherslu á börnin og að foreldrar fari úr samskiptum parsambandsins og fari í annars konar samstarfsform sem eingöngu snýr að börnunum. Fólk fær aðstoð við að horfa á þarfir barnanna og aðskilja þær frá sínum eigin tilfinningum. Það segir enginn að þetta sé auðvelt en börnin okkar eiga það skilið að við leggjum okkur fram um að aðstoða þau við að alast upp við þær aðstæður sem við bjóðum þeim upp á.

Þess má geta að verið er að þróa sérstakt SES-námskeið fyrir foreldra, þar sem ofbeldi, vanræksla eða veruleg veikindi annars foreldrisins spila þátt, það verður næsta verkefni okkar, þegar innleiðing almenna vettvangsins er komin vel á veg.“

Ánægð með menntun sína

Tilhlökkunin er mikil gagnvart næsta vetri.

„Það stendur til að bjóða fagfólki upp á námskeið í SES og verða þau auglýst á næstu dögum. Jafnframt veitir það mér mikla gleði og ánægju að vinna að verkefni þar sem við verðum áþreifanlega vör við ánægju fólks sem nýtir sér SES-vettvanginn.“

Ertu ánægð með þá menntun sem þú fékkst á sínum tíma og var félagsráðgjöf það eina sem kom til greina?

„Ég er mjög ánægð með félagsráðgjafarmenntun mína og var hún það eina sem ég hafði áhuga á þegar ég valdi mér starfsvettvang. Ég var reyndar aðeins spennt fyrir lögfræði og er enn, en félagsráðgjöfin sameinar lög og mannleg samskipti. Það eru margir sem þekkja ekki til starfa félagsráðgjafa en við erum heilbrigðisstétt og eftir fimm ára háskólanám getum við sótt um starfsleyfi frá Landlæknisembættinu. Það er jafnframt hlutverk félagsráðgjafa að byggja upp og miðla nýrri þekkingu og stuðla að félagslegum breytingum og nýsköpun, sem passar vel við SES. Kjarninn í starfi félagsráðgjafa er að vinna með einstaklingum, hópum, fjölskyldum og samfélögum sem eru að takast á við vanda eða vilja breyta stöðu sinni.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »