Þurfa að stökkva í djúpu laugina

Inga Jóna Óskarsdóttir.
Inga Jóna Óskarsdóttir.

Inga Jóna Óskarsdóttir er bókari með stóru B-i. Hún sér um námsbrautina Bókaranám - frá grunni til aðalbókara hjá Endurmenntun Háskóla Íslands. Hún er mikill kennari í eðli sínu og gerði eitt sinn könnun sem leiddi í ljós að flestir viðurkenndir bókarar í landinu eru fæddir í júlí og september og sameiginlegt áhugamál þeirra utan vinnu voru skór. 

Inga Jóna Óskarsdóttir er stofnandi Bókhalds og kennslu. Hún hefur mikinn áhuga á fagi sínu en ekki síður af daglega lífinu og að rækta sjálfa sig.

„Til að efla mig er ég að hefja 28 daga verkefnavinnu eftir hugmyndafræði Rhondu Byrne (e. The Magic). Með því vonast ég til að fá meiri þjálfun í að rækta og miðla þekkingu og láta gott af mér leiða.“

Hvernig lýsir þú námsbrautinni í Endurmenntun?

„Það er frábært nám fyrir þá sem stefna á að verða góðir bókarar og hafa ekki möguleika á starfsþjálfun í bókhaldsdeild eða á stofu.“

Bókarar vinna víða

Hvaða möguleikar eru á atvinnumarkaði með þessa menntun?

„Þeir fá vinnu við bókhald í bókhaldsdeildum, á bókhaldsstofum, á endurskoðendastofum eða í móttöku fyrirtækja sem eru með samþykktarkerfi. Hægt er að vinna í upplýsingatækni og þjónustu við bókhaldsfólk. Menntun af þessu tagi er styrkur í ansi mörg störf sem koma nálægt rekstri fyrirtækja sem eru ansi víðtæk.“

Hvað gera bókarar nákvæmlega?

„Þeir hjálpa til við skráningu og greiningu á kostnaði fyrirtækja. Þeir aðstoða við innleiðingu tölvukerfa, uppsetningu reikninga og tekjustreymis. Þeir vinna við uppsetningu vöruspjalda til útreiknings framlegðar og afkomu sölu. Skoða og greina breytingar á milli tímabila og ára í tekjum, gjöldum, eignum og skuldum. Bókarar sjá venjulega um samskipti við stofnanir eins og skattinn og verða sérhæfðir í að svara fyrirspurnum og fylla út eyðublöð til hins opinbera. Bókarar sem eru afstemmingarbókarar geta gengið frá bókhaldi til uppgjörsaðila til undirbúnings ársreikninga og skattframtala. Aðalbókarinn getur skilað framtölum og ársreikningum lögaðila svo sem örfélaga og einstaklinga í rekstri sem og aðstoðað við gerð einstaklingsframtala.“

Hvernig fólk að þínu mati fer í bókaranám?

„Það er fólk á öllum aldri. Fólk í rekstri. Fólk sem vill breyta um starfsvettvang. Fólk sem er að ákveða hvaða skref það vill taka til framtíðar á atvinnumarkaði. Fólk sem vill verða verðmætari starfsmenn og fólk sem einfaldlega er spennt fyrir „debet“ og „kredit“.

Í einni skoðanakönnun sem ég gerði hjá félagi viðurkenndra bókara fyrir nokkrum árum kom í ljós að flestir voru fæddir í júlí og september og sameiginlegt áhugamál þeirra utan vinnu voru skór.“

Þessi árin eru miklar breytingar í tækni við bókhaldsvinnu og því þurfa bókarar að vera hæfir til að kynna sér nýja tækni mjög reglulega og tilbúnir að breyta vinnuferlum.

„Þeir þurfa að vera tilbúnir að læra eitthvað nýtt má segja á nokkurra mánaða fresti, því þurfa þessir einstaklingar að vera tilbúnir að stökkva út í djúpu laugina mjög reglulega.

En fyrir um 15 árum þá voru góðir bókarar þeir sem gerðu hlutina alltaf eins og þá var kostur þeirra að vera mjög íhaldssamir.“

Er mikilvægt að endurmennta sig í þínu fagi reglulega?

„Til að fylgjast með nýjum lögum, reglugerðum, nýjum úrskurðum, sem breyta okkar vinnuumhverfi mjög reglulega er nauðsynlegt fyrir okkur að fara tvisvar til þrisvar á ári á ráðstefnur eða námskeið og endurmennta okkur. Þar sem tæknibreytingar hafa verið mjög miklar í atvinnugreininni þurfum við líka að vera dugleg að fylgjast með nýrri tækni og læra nýja hluti.“

Bókhald og kennsla áhugaverð

Hvað er það nýjasta úti í heimi í þínu fagi?

„Það er nánast algjör sjálfvirkni í bókun. Róbótinn tekur við beinum innslætti, en stýringar og að setja upp samþykktarkerfi og innlestur rafrænna skeyta er mikilvægur, og því hefur eftirlitsþáttur okkar aukist mikið.“

Áttu þér fyrirmynd í fræðimanni sem er viðurkenndur bókari?

„Þegar ég byrjaði að vinna í bókhaldi var mentorinn minn starfsmaður banka, Hrefna Vilbergsdóttir. Hún kenndi mér minn grunn. En þegar ég byrjaði sem aðalbókari og svo rekstraraðili bókhaldsstofa kynntist ég skörungi sem heitir Sigríður Jóna Friðriksdóttir og var hún sú fyrirmynd þess sem mig langaði að verða. Hún er hörkukona en samt ljúf. Hún er frábær í miðlun þekkingar og tilbúin að læra nýtt og starfaði að uppbyggingu bókara og bókarastéttarinnar í gegnum félag bókhaldsstofa til margra ára.“

Hvenær vissir þú að þetta væri það sem þig langaði að gera í lífinu?

„Ég tók aukaval í 9. bekk sem þá var bókfærsla og frá fyrsta tíma ákvað ég að við þetta vildi ég vinna. Sautján ára réð ég mig í vinnu í banka og stuttu seinna var ég farin að kenna og miðla þekkingu minni innan bankans. Síðan þá hef ég blandað þessu saman; bókhaldi og kennslu.“

Mikilvægt að njóta lífsins

Hefurðu gert eitthvað skemmtilegt í sumar?

„Ég hef eytt nokkrum vikum í góða veðrinu á Seyðisfirði með fjölskyldu og vinum. Í Fljótshlíðinni hefur verið gott að vera með börnum og barnabörnum þar sem fjölskyldan hefur verið í sumarbústaðarnýbyggingu. Ég hef einnig notið þess að vera í garðinum okkar í paradísinni á Álftanesi með fiðurfé bóndans, þar sem stutt er í fjöruna í sjósund og að hoppa í kajak.“

Hvert er lífsmottó þitt?

„Miðlun þekkingar er mikils virði. Reynum að sá sem flestum fræjum góðvildar í kringum okkur og elskum hvert annað, því lífið er stutt. Njótum!“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »