Snéri vörn í sókn þegar hárgreiðslustofur lokuðu

Ruth Ingólfsdóttir tók upp penslana þegar hárgreiðslustofur lokuðu í kórónuveirufaraldrinum …
Ruth Ingólfsdóttir tók upp penslana þegar hárgreiðslustofur lokuðu í kórónuveirufaraldrinum í fyrra.

Ruth Ingólfsdóttir, hársnyrtimeistari og verkgreinakennari, hannar og málar vörur undir merkinu Watercolor by Ruth. Ruth fékk óvænt meiri tíma þegar hárgreiðslustofur lokuðu í kórónuveirufaraldrinum og var ekki lengi að sjá ljósið í myrkrinu. 

„Ég elska að hafa þessa fjölbreytni í lífinu. Ég hef alla tíð unnið mikið með höndunum og haft gaman af því að skapa og búa til eitthvað nýtt. Það er algjör forréttindi að fá að vinna við þessi störf. Ég hef alltaf sagt að lífið er of stutt til að vinna leiðinlega vinnu,“ segir Ruth um fjölbreyttan starfsvettvang sinn. 

„Í upphafi kórónuveirufaraldursins settu stjórnvöld samkomubann á með þeim afleiðingum að hárgreiðslustofur þurftu að loka og þá þurfti ég að leggja frá mér skærin. Þetta var eitthvað sem ég hefði aldrei getað séð fyrir mér að myndi gerast og er ég búin að starfa í þessum geira í meiri en áratug. Ansi dapurlegt ástand, ég var samt ekki lengi að sjá jákvæða ljósið í þessu öllu saman þar sem allt í einu gafst nægur tími til að byrja að mála aftur eftir nokkra ára pásu.“

Margt gerist á fyrsta ári barnsins.
Margt gerist á fyrsta ári barnsins. Ljósmynd/Aðsend

Ruth segir að hana hafi alltaf langað til þess að sinna áhugamáli sínu betur en það hafi reynst erfitt meðfram vinnu og móðurhlutverkinu. „Í samkomubanninu tókst það og náði ég að endurskipuleggja líf mitt upp á nýtt og gefa þessu áhugamáli rými. Það má segja að þetta hafi verið upphafið og byrjunin á ævintýrinu hjá Watercolor by Ruth,“ segir Ruth. 

„Litla ævintýrið hefur nú stækkað og er komið á þann stað sem mig óraði ekki fyrir í upphafi. Á þessum tíma hef ég hannað ýmsar vörur og farin að selja þær víða um land. Það sem er nýjasta nýtt hjá mér eru mánaðarspjöldin sem heita Fyrsta árið. Ég hafði fengið nokkrar fyrirspurnir um að hanna slík mánaðarspjöld fyrir yngstu krílin og ákvað ég að láta á slag standa og sé nú ekki eftir því. Mánaðarspjöldin eru tólf talsins, 1 mánaðar til 1 árs. Auk þess fylgir fæðingarspjald með þar sem viðkomandi getur skráð nafn barns, fæðingardag, lengd og þyngd.“

Ruth er byrjuð að selja verk sín.
Ruth er byrjuð að selja verk sín. Ljósmynd/Aðsend

Ruth þekkir fyrsta árið vel en hún og eiginmaður hennar eiga tvö börn saman. „Fyrsta árið er eitt af mögnuðustu árum í lífi barnanna okkar, það gerist svo ótal margt á fyrsta árinu. Þessar minningar eru einstaklega dýrmætar og ég tala nú ekki um hvað þau eru fljót að stækka og blómstra á þessum stutta tíma. Á fyrsta ári dætra minna tók ég myndir af þeim á hverju mánaðarafmæli og þá hefði verið gaman að vera með mánaðarspjöldin. En í staðinn mun ég njóta þess í dag að gefa öllu litla fólkinu í kringum mig mánaðarspjöldin í sængurgjafir eða láta reyna á þriðja barnið,“ segir Ruth í gríni.

Hér má sjá kort eftir Ruth.
Hér má sjá kort eftir Ruth. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er alsæl með þessa nýju viðbót við vörurnar mínar og ánægð að hafa haft trú á sjálfri mér í upphafi í öllu þessu ferli. Ekki bara að ganga með hugmyndirnar í kollinum, heldur að fara alla leið og framkvæma þær. Besta í þessu öllu saman er að vera fyrirmyndin fyrir dæturnar mínar sem sjá að það er hægt að gera allt og vera margt. Allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi.“

Ruth lærði mikið aukatímanum sem hún öðlaðist í kórónuveirufaraldrinum. Hún segir mikilvægt fyrir alla að eiga áhugamál og búa til rými fyrir þau. „Það getur reynst afar erfitt sérstaklega þegar maður er orðinn foreldri og tíminn alltaf að hlaupa frá manni. Ég átti erfitt með það fyrstu árin eftir að ég eignaðist dætur mínar en í dag er þetta orðið aðeins auðveldara. Þær eru orðnar stærri og ég er nýlega sjálf búin að læra að búa til tíma fyrir áhugamálin og mig sjálfa. Mér finnst til dæmis ekkert betra en að setjast niður með pensilinn eftir langa vinnudaga. Það er einhver hugarró og slökun sem hellist yfir mig og get ég alveg gleymt mér tímunum saman.“

Fyrsta árið eru mánaðarkort sem Ruth myndskreytti.
Fyrsta árið eru mánaðarkort sem Ruth myndskreytti. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is