Arnar Gauti og Jóhanna komin á hráfæði

Jóhanna Pálsdóttir og Arnar Gauti Sverrisson eru komin á hráfæði.
Jóhanna Pálsdóttir og Arnar Gauti Sverrisson eru komin á hráfæði. mbl.is/Eggert

Kærustuparið Arnar Gauti Sverrisson og Jóhanna Pálsdóttir eru dottin í hráfæðið. Að sögn Jóhönnu eru þau búin að vera á fæðinu í viku og eru þegar farin að finna mun. Fyrstu dagarnir hafi verið erfiðir en núna, viku síðar, er þeim farið að líða gríðarlega vel og eru uppfull af orku.

„Við erum bæði með sjúkdóma, ég með Lupus eða Rauða Úlfa og Arnar með sykursýki tvö. Okkur langaði að prófa hráfæðið og sjá hvort það hjálpaði ekki til við meðhöndlun sjúkdómanna að hreinsa til í matarræðinu. Sjúkdómseinkennin hjá mér birtast aðallega í húðinni og ég er þegar farin að finna mun,“ segir Jóhanna.

Hún segir jafnframt að þau séu rétt að byrja og séu gríðarlega sátt við þennan lífstíl og vellíðanina sem henni fylgir.

Aðspurður segir Arnar að í hans tilfelli sé auðvelt að sjá muninn enda sé hann mælanlegur. Vika sé þó of lítill tími til að segja til um raunverulegan árangur en hann hafi mikinn hug á að sigrast á sjúkdómnum eftir að hann las grein á mbl.is þar sem fjallað var um rannsókn þar sem náðist að lækna sykursýki tvö með matarræði einu saman. 

Arnar segir jafnframt að þau Jóhanna séu miklir sælkerar og njóti þess að fá sér rauðvín og hvítvín með góðum mat. Allt slíkt sé nú út af borðinu.
Arnar og Jóhanna eru á sérstökum hráfæðispökkum frá Gló og eru gríðarlega ánægð með þá. Þau ætli að halda því áfram fyrst um sinn en síðan muni þau væntanlega stíga sín fyrstu skref í hráfæðiseldamennsku sjálf.

Forsaga málsins er sú að Jóhanna og Arnar Gauti fóru í greiningu hjá Guðrúnu Helgu Rúnarsdóttur hjá Blóðgreiningu. Hún mælti með því að þau færu á hráfæði og eru þau undir hennar handleiðslu.

Arnar Gauti segist vonast til þess að losna við lyfin sem hann tekur vegna sykursýkinnar en eins og staðan er núna verður þetta allt að koma í ljós.

Jóhanna Pálsdóttir og Arnar Gauti Sverrisson.
Jóhanna Pálsdóttir og Arnar Gauti Sverrisson. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is