„Ég hafði prófað allan andskotann“

Ragnheiður Kristjónsdóttir.
Ragnheiður Kristjónsdóttir. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Ragnheiður Kristjónsdóttir þekkir það vel af eigin raun að vera of þung. Í mörg ár burðaðist hún með allt of mörg aukakíló og var búin að reyna allt til þess að léttast. Það var ekki fyrr en hún áttaði sig á því að hún væri með matarfíkn að jafnvægi komst á lífið. Í dag er hún 40 kílóum léttari. 

Hvað varð til þess að þú snérir vörn í sókn hvað varðar aukakíló sem hlaðist höfðu upp?

„Málið var að ég hafði margoft snúið vörn í sókn en án árangurs til langs tíma. Það sem var ólíkt í þetta skiptið var að ég fann loksins réttu lausnina. Ég hafði farið mjög oft í megrun, mýmarga kúra og átök sem öll eiga það sameiginlegt að þeim lýkur á endanum og þetta var orðið að endalausum vítahring. Það sem ég þurfti var hjálp þeirra sem skildu það sem gekk að mér – þ.e. matarfíkn – og að láta stjórnina frá mér, hætta að reyna að stjórnast í matnum, enda var það orðið augljóst að ég gat þetta ekki ein, og gera það sem mér var sagt,“ segir Ragnheiður.

Hér er Ragnheiður ásamt syni sínum þegar hún var þyngri ...
Hér er Ragnheiður ásamt syni sínum þegar hún var þyngri á sér.

September 2010 er minnisstæður fyrir margar sakir en þá byrjaði Ragnheiður í fráhaldi frá matartegundum sem hún er ekki fær um að borða í hófi. Hún hefur verið á þessu mataræði síðan þá með örfáum undantekningum. Þegar ég spyr hana hvernig fyrstu vikurnar og mánuðirnir hafi verið játar hún að þetta hafi verið snúið.

„Þetta var mjög erfitt til að byrja með og fyrstu sólarhringana fannst mér ég vera komin í fangelsi þar sem allt var grátt og ég sá ekkert bjart eða skemmtilegt framundan. Það sem var svo merkilegt var að fangelsisvistin varði stutt og brátt fór ég að upplifa áður ófundið frelsi. Það að fylgja þessum ramma sem ég borða eftir er nefnilega svo rosalega frelsandi. Ég þarf ekki stöðugt að pæla í hvort ég eigi að borða hitt eða þetta og hversu mikið,“ segir hún.

Ragnheiður og sonur hennar á sólarströnd fyrir meira en áratug.
Ragnheiður og sonur hennar á sólarströnd fyrir meira en áratug.

Ragnheiður var fljót að sjá árangur.

„Fyrsta mánuðinn missti ég sex kíló og þegar ég steig á vigtina þann daginn var ég einnig komin á mjög gott ról andlega,“ segir hún en í dag er hún 40 kílóum léttari en hún var í byrjun september 2010.

Það er eitt að léttast og annað að halda sér í ákveðinni þyngd. Þegar ég spyr Ragnheiði hvað hún borði á hverjum degi segist hún borða eftir ákveðnu prógrammi.

„Þar komum við aftur að ranghugmyndinni um megrun og kúra. Bæði fer líkaminn í sveltiástand og svo virkar bara megrun ekki til lengri tíma enda er hún, eðli málsins samkvæmt, tímabundin lausn. Fjölmargar rannsóknir sýna einnig að gamla, útþvælda tuggan, borða minna – hreyfa sig meira – virkar ekki í um 99% tilvika hjá þeim sem eru í yfirþyngd; hvað þá mikilli yfirþyngd. Þetta er nefnilega svolítið snúið því miðað við niðurstöður þeirra rannsókna sem ég hef kynnt mér sem gerðar hafa verið á fólki í ofþyngd sem reynir að létta sig þá er það því miður svo að líkurnar á því að komast í kjörþyngd eru því ekki hliðhollar. Líkaminn fer að brenna hægar og berst á hæl og hnakka við að endurheimta fyrri þyngd og setur íbúann í erfiða stöðu. Sumir rannsakendur halda því fram að það sé nánast ómögulegt fyrir fólk í ofþyngd að léttast til lengri tíma og telja að aðeins um 5% þeirra sem reyni að létta sig takist að halda kílóunum í burtu. Ég er allavega hingað til í þessum þrönga hópi og það er eflaust vegna þess að ég fylgi ansi öfgafullu prógrammi. Ég hef tekið út ákveðnar matartegundir, borða þrisvar á dag og aðeins fyrirfram ákveðinn mat sem ég vigta og mæli. Að auki hitti ég aðra sem eru að gera það sama og ég og við veitum hvert öðru styrk. Ég hreyfi mig vissulega líka talsvert en ég tel það ekki vera ástæðu þess að ég hef lést um þessi kíló. Hreyfingin er bónus, gerir mig sterkari og úthaldsbetri og hefur kannski átt þátt í því að einhver kíló hafa fokið hraðar en hún virkar mest á mig sem þunglyndislyf og gleðigjafi. Ég borða yfirleitt frekar hreinan mat; ávexti, mikið grænmeti, kjöt, fisk, mjólkurvörur og hveitikím. Mér þykir maturinn minn góður og ég hlakka oft til matartímanna. Það sem er einnig svo frábært við fráhaldið mitt er að ég þjáist ekkert af hungri nema bara eins og aðrir þegar það er liðið langt frá síðustu máltíð,“ segir Ragnheiður.

Hún fann sig í fráhaldinu og segir að allt annað sé fullreynt.

Ragnheiður var búin að gera margar heiðarlegar tilraunir til að létta sig.

„Ég hafði prófað allan andskotann. Ég fór í fyrstu megrunina mína ellefu ára gömul. Þá var ég farin að fá mjaðmir og brjóst sem ég ruglaði saman við fitu og ákvað því að borða aðeins epli og kotasælu í einhvern tíma og stunda djassballett af kappi. Ég hef þrælað ofan í mig óætum Herbalife-sjeikum í bílförmum, verið á sítrónuteskúr, svelt mig, borðað minna og hreyft mig meira og farið á skrilljón átaksnámskeið. Ég hef farið í Trimform og í margar vikur fylgdi ég gríðarlega geðþekkum kúr sem gekk út á það að borða aðeins töflur og drekka vatn annan hvern dag. Það er skemmst frá því að segja að þegar ég féll flöt á bossann eftir töflukúrinn stórsá á Hagabúðinni eftir innrás mína í samloku- og sælgætisdeildina,“ segir hún og hlær.

Það gerðist margt hjá Ragnheiði eftir að hún léttist.

„Hjá mér fylgdi því aukið sjálfstraust, ánægjulegra líf, meiri hreyfigeta og miklu meira úrval í fatakaupum. Mér er mikilvægt að muna örvæntingarástandið sem ég var í þegar ég gafst upp, viðurkenndi að ég væri haldin matarfíkn og fór í fráhald. Með því er ég ekki að segja að allt hafi verið ömurlegt á meðan ég var feit eða að ég hafi verið lélegur pappír, alls ekki, en ég vildi bara hvorki burðast um með öll þessi aukakíló, né vera svona heltekin af ákveðnum matartegundum,“ segir hún.

Ragnheiður elskar að lyfta lóðum og labba á Esjuna.
Ragnheiður elskar að lyfta lóðum og labba á Esjuna.

Til að byrja með var Ragnheiður upptekin af því að standa sig í fráhaldinu en í seinni tíð hefur hún bætt inn hreyfingu og æfir nú af fullum krafti.

„Þegar ég hafði verið í rúmt ár í fráhaldi kynnti samstarfskona mín mig fyrir Body Combat og ég varð ástfangin. Ég stundaði það í þrjú ár eða þar til ég varð að sætta mig við að það hentaði mér ekki alveg nógu vel þar sem ég var sífellt að slíta einhverja vöðvaþræði í kálfanum á mér. Þá fór ég að bauka eitthvað í ræktinni og var aðallega í tækjasalnum. Systir mín, Agnes Kristjónsdóttir, er einkaþjálfari í World Class á Nesinu og í vetur fór ég í sex mánaða kraft- og styrktarþjálfun til hennar. Það fannst mér ótrúlega skemmtilegt og góð útrás og systir mín vill meina að ég sé nautsterk og finnst að ég ætti að æfa lyftingar að staðaldri.“

Það skiptir Ragnheiði miklu máli að hreyfingin sé fjölbreytt og skemmtileg.

„Ég hreyfi mig svona 3-4 sinnum í viku og fer þá í salinn og er aðallega í tröppuvélinni og á hlaupabrettinu og/eða geng á Esjuna. Ég þyrfti að vera að lyfta á móti og ég stefni á að byrja aftur í haust,“ segir hún og bætir við:

„Ég hef þróað með mér smá Esjuáráttu og fer nokkrum sinnum í viku upp að Steini nema á veturna, ég er nefnilega algjör sparibomsa og hef engan áhuga á að berjast um í snjó, stormi og hálku. Það er eitthvað svo stórkostlegt við þessa hreyfingu. Ég verð endurnærð af áreynslunni, náttúrunni og hreina loftinu og líður vel með mig. Ég elska Esjuáráttuna mína og vel hana alla daga fram yfir gömlu snickers- og Nóakroppsáráttuna. Það er alveg hægt að draga mig á önnur fjöll en Esjan er í uppáhaldi. Í mér blundar keppnismanneskja og ég er alltaf að reyna að toppa tímann minn. Í Esjubröltinu fæ ég útrás fyrir keppnisperrann í mér og það veitir mér ómælda ánægju þegar mér gengur vel.“

Langar þig aldrei í sykur og sætindi?

„Yfirleitt ekki. Það kemur fyrir en það er sjaldan og þegar ég skoða það þá reynist það yfirleitt gerast þegar ég er eitthvað óhagstæð eða hef lítið sinnt andlega prógramminu mínu eða þegar mataráreitið er með mesta móti eins og þegar Nói frændi heldur innreið sína og heldur matvöruverslunum landsins í gíslingu um páska og jól.“

Ragnheiður er ekkert feimin að viðurkenna að líf hennar hafi breyst mjög mikið, ekki bara eftir að hún byrjaði í fráhaldi heldur hætti hún að drekka vín fyrir 12 árum.

„Breytingin hófst eiginlega með því að ég hætti að drekka fyrir tólf árum. Það fór talsverður tími í að djamma, horfa á sjónvarpið og borða slikkirí og reykja af kappi. Í dag lifi ég heilbrigðara lífi. Ég bý yfir mun meiri ró í líkamanum og er ekki alltaf að leita að næsta fixi. Ég hef meira sjálfstraust og líður betur í eigin skinni. Ég kynntist kærastanum mínum fyrir fjórum og hálfu ári svo ég er í fyrsta sinn í sambúð sem er voðalega gaman.“

Hvað gerir þig hamingjusama í dag?

„Að sumu leyti gera aðrir hlutir mig hamingjusama í dag en áður. Ég veit ekki hvort það er breytingin sem ég hef gengið í gegnum – andleg og líkamleg – eða það að eldast. Ég held að það sé blanda beggja. Með hverju árinu sem líður fæ ég meiri áhuga á alls konar drasli, langar að læra eitthvað nýtt og prófa eitthvað nýtt. Verð áhugasamari og í senn verður mér það ljóst hvað ég kann og veit lítið í stóra samhenginu. Það er fjölmargt sem gerir mig hamingjusama. Sonur minn, kærastinn, góður veðurdagur á Esjunni, vel heppnað verkefni í vinnunni, krúttleg dýr í náttúrunni, ljúffeng máltíð, góður félagsskapur, að spila með fyndnu fólki, lykt af grasi og grilli á sólardegi, notaleg stund með sjálfri mér og hugsunum mínum í sófanum í Laugum eftir sveitta æfingu, sjávarniður við strönd, Chie Mihara-skór og margt, margt fleira.“

Upplifir þú að þú hafir fengið nýtt líf við að léttast?

„Stutta svarið er já! Lengra svarið er það að ég hef gengið í gegnum miklar breytingar samfara því að léttast. Ég hef unnið mikið í sjálfri mér á mörgum sviðum og það að taka út matartegundir sem ég get ekki neytt í hófi, eða mér að skaðlausu, hefur gefið mér mikið frelsi og tekið frá mér þráhyggju. Þá skapast mikið rúm og tími fyrir margt skemmtilegt. Hvað varðar sjálfa líkamsþyngdina þá er ég mun ánægðari með mig núna. Mér finnst skemmtilegra að kaupa föt og enn skemmtilegra að klæðast þeim. Ég hef meiri orku og það er óhætt að segja að það munar miklu að skottast um 40 kílóum léttari. Ég er ekki lengur sú sem situr hjá þegar það á að fara í adrenalíngarðinn, river rafting eða fjallgöngur. Ef ég hef áhuga á því, þá geri ég það. Litlu hlutirnir gleðja mig.“

Eru lambhúshettur töff?

Í gær, 15:00 Góðar fréttir fyrir Íslendinga berast af tískupöllunum í New York. Lambhúshetta er ekki lengur bara fyrir leikskólabörn með hor niður á höku. Meira »

Passar skammtastærðirnar og forðast sól

Í gær, 12:00 Fyrirsætan Maye Musk er ekki bara móðir Elon Musk heldur líka næringarfræðingur sem skrifaði undir fyrirsætusamning 68 ára við eina stærstu fyrirsætuskrifstofu í heimi. Meira »

Prjónaði peysur á forsetahjónin

Í gær, 09:00 Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sést oftar en ekki í fallegri lopapeysu. Kennarinn Ágústa Jónsdóttir prjónaði peysuna og segir uppskriftina einfaldari en hún lítur út fyrir að vera. Meira »

Lífstíðaruppsögn vegna kynferðisofbeldis?

í gær Þeir sem verða fyrir ofbeldi á vinnustað, og má þar þá líka nefna einelti sem eitt form af ofbeldi á vinnustað, veigra sér við að tilkynna slíkt með formlegum hætti, m.a. af hræðslu við hvað bíður þeirra í kjölfarið. Það er í sjálfu sér alveg skiljanlegt þó svo að það sé ekki í lagi. Meira »

Bill Gates hefur sína veikleika í starfi

í fyrradag Bill Gates var lengi vel ríkasti maður í heimi. Hann er þó ekki fullkomnari en hver annar og er ekki jafnvígur á öllum sviðum. Meira »

Pör sem rífast eru hamingjusamari

í fyrradag Rifrildi eru ekki endilega merki um að sambandið sé ekki nógu sterkt. Pör sem rífast á áhrifaríkan hátt eru sögð vera tíu sinnum líklegri til þess að vera í hamingjusömu sambandi en þau pör sem takast ekki á við vandamálin. Meira »

Vildi ekki gráta út af farðanum

í fyrradag Snjóbrettastelpan Chloe Kim reyndi að halda aftur af tárunum þegar hún vann til verðlauna í Pyeongchang vegna farða. Kim er ekki sú eina sem hefur átt í vandræðum með farðann á Vetrarólympíuleikunum. Meira »

Lovísa fann ástina á Tinder

í fyrradag Lovísa Kelly var búin að kaupa flugmiða aðra leið heim til Íslands frá Kanada þegar hún hitti Joseph Kelly á Tinder. Lovísa er ekki enn farin til Íslands enda er hún núna gift kona í Kanada. Meira »

Skemmtilegast að „Liffa og njóta“

í fyrradag „Peningarnir fóru að streyma inn þegar ég byrjaði í uppvaski á matsölustöðum um fermingu,“ segir Andrea og hlær. „Á unglingsárunum fór ég síðan að vinna í Sautján um helgar og á bar á nóttunni. Á sama tíma fékk ég undanþágu til að taka auka einingar í skólanum. Ég hef líka starfað víða erlendis sem hefur aukið menningalæsi og víðsýni.“ Meira »

Íslensk kona berst við skilnaðarsamviskubit

í fyrradag „Ég þjáist af svo miklu skilnaðarsamviskubiti. Er það eðlilegt? Og hvað er til ráða? Skildi fyrir 8 árum við eiginmann minn til 16 ára. Við tók tímabil þar sem börnin okkar voru viku og viku til skiptis hjá okkur með tilheyrandi flutningum milli húsnæða, misjöfnu tilfinningalífi mínu, ójafnvægi og óvissu.“ Meira »

Leiðist þér líf þitt? Hvað er til ráða?

17.2. Camille býr í París með manni sínum og syni, fertugsafmælið nálgast og henni leiðist. Allt hjakkar í sama fari ár eftir ár. Daginn sem springur á bílnum hennar á fáförnum vegi í grenjandi rigningu er hún að því komin að bugast. En þá birtist Claude, heillandi og uppátækjasamur, kynnir sig sem rútínufræðing og býðst til að hjálpa henni að umbylta lífi sínu. Meira »

Mátaði bara einn brúðarkjól

16.2. Stílisti Amy Schumer fékk fjóra daga til þess að undirbúa skyndibrúðkaup leikkonunnar og Chris Fisher. Ekki er tími til að ofhugsa kjólavalið þegar fyrirvarinn er stuttur. Meira »

Þetta vilja konur í rúminu

16.2. Margt fólk á sér kynlífsdraumóra sem það deilir ekki með neinum, ekki einu sinni maka sínum. Dónalegt tal og að láta binda fyrir augun er meðal þess sem margar konur vilja í rúminu. Meira »

Lífsstíllinn læknaði hana af legslímuflakki

16.2. Miranda Bond breytti algerlega um lífsstíl og notaði einungis mat og húðvörur af lífrænum uppruna – og viti menn. Þremur mánuðum síðar varð hún þunguð af dóttur sinni. Og ekki bara það, hún læknaðist af legslímuflakkinu. Meira »

Ertu sambandsfíkill?

16.2. Ein tegund fíknar sem veldur því að við festumst í slíkum samböndum kallast ástarfíkn og hún er alls ekki eins óalgeng og við stundum viljum halda enda rauðar bókmenntir og bíómyndir duglegar að ýta undir þær tilfinningar sem þar fara af stað, og við erum aldar upp við það (a.m.k stelpur) að svona eigi ástin að vera í allri sinni mynd. Meira »

Fyrstu stefnumót stjarnanna

15.2. 50 ljósmyndarar biðu Amal Clooney á fyrsta stefnumóti hennar og George Clooney. Kate Hudson fór hins vegar í fjallgöngu með kærasta sínum á þeirra fyrsta stefnumóti. Meira »

Linda Mjöll og Þórunn Antonía mættu

16.2. Kvikmyndin Fullir vasar var frumsýnd í gærkvöldi í Smárabíói en það sem vekur athygli er að fjórar Snapchat-stjörnur leika aðalhlutverkin í myndinni. Meira »

Allt á útopnu í 30 ára afmæli Fjölnis

16.2. Það var glatt á hjalla í Egilshöll þegar íþróttafélagið Fjölnir fagnaði 30 ára afmæli. Á afmælinu var ný skrifstofu- og félagsaðstaða vígð og var það Dagur B. Eggertsson sem gerði það. Hann tók svo þátt í gleðinni og skemmti sér með félagsmönnum. Meira »

Klippingin var skyndiákvörðun

16.2. Díana prinsessa lét hárið fjúka árið 1990 eftir myndatöku fyrir Vogue. Fáar konur í bresku konungsfjölskyldunni hafa skartað jafn stuttu hári. Meira »

Kærastinn býr enn þá hjá sinni fyrrverandi

15.2. „Ég stundaði kynlíf með ástmanni mínum í mörg ár áður en kærastan hans vissi. Nú erum við búin að vera kærustpar í næstum því heilt ár en hann býr enn þá heima hjá sinni fyrrverandi.“ Meira »