25 kíló farin og miklu hressari

Hafdís Þóra Hafþórsdóttir byrjaði að skoða mataræðið upp á nýtt …
Hafdís Þóra Hafþórsdóttir byrjaði að skoða mataræðið upp á nýtt með MyFitnessPal í fyrra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hafdís Þóra Hafþórsdóttir, 32 ára sölustjóri hjá Nordic Visitor og tveggja barna móðir, fékk uppljómun í Furðufatahlaupi Georgs í fyrra með yngra barni sínu og ákvað í kjölfarið að taka lífstílinn í gegn. Með hjálp smáforritsins MyFitnessPal meðal annars hefur Hafdís Þóra náð frábærum árangri án allra öfga. 

„Í ágúst í fyrra fór ég með son minn í Furðufatahlaup Georgs og það sem við skemmtum okkur vel, honum fannst þetta geggjað. Þá fór ég að hugsa, hann vill líklega taka þátt í þessu á næsta ári og árið eftir það, ég ætla sko ekki að vera mamman sem getur ekki hlaupið þrjá til fimm kílómetra með barninu sínu og þarna hófst lífstílsbreytingin mín bara á staðnum,“ segir Hafdís Þóra um það þegar hún ákvað að taka lífstílinn í gegn. 

MyFitnessPal veitir aðhald

„Ég fann það bara að þarna var rétti tíminn og byrjaði að kynna mér alls kyns aðferðir til þess að létta mig og ég endaði alltaf á sama stað, kaloríur inn á móti kaloríum út. Þetta eru ekki mikil geimvísindi og það eru engin töfratrikk til. Ef þú ert að innbyrða færri kaloríur en þú brennir þá léttist þú. En það að léttast var ekki bara markmiðið heldur að geta hlaupið og borða næringarríkari mat sem færði mér meiri orku yfir daginn. Ég hugsaði alltaf að ég vildi engar öfgar en auðvitað þarf maður svolítið að fá þetta á heilann og hafa þetta í forgangi. Það er auðvitað ekkert dýrmætara en að vera góð fyrirmynd fyrir börnin sín og að kenna þeim að borða hollan og góðan mat og hreyfa sig með þeim. Mér þykir það mjög dýrmætt að börnin okkar tileinki sér sjálf góð gildi og heilbrigt samband við mat í framtíðinni.“

Hvernig hefur MyFitnessPal hjálpað þér?

„Ég kynntist MyFitnessPal á sama tíma og ég ákvað að taka lífstílinn í gegn. Appið veitir mér mjög mikið aðhald og hefur hjálpað mér mikið. Í byrjun var ég mjög ströng og vigtaði allt sem ég borðaði, mér fannst það hjálpa mér mjög mikið að gera mér grein fyrir því hverju ég þyrfti að breyta. Ég myndi mæla með því að gera þetta í nokkrar vikur og sjá hvað það er sem þú ert að borða og hvernig kaloríurnar skiptast sem og hvernig hlutfall próteina, fitu og kolvetna er.

Ég set mér enn þá kaloríumarkmið yfir daginn og skipti þeim í tvær máltíðir og tvö millimál. Ég er með ákveðið margar kaloríur sem ég set mér markmið um að borða á ákveðnum tíma dags. Ég er að fasta líka og borða því ekki fyrstu máltíð fyrr en í hádegi svo millimál klukkan  þrjú og svo kvöldmat um sex-, sjöleytið. Ég borða svo lítið millimál um klukkan átta á kvöldin. Ég er frekar ströng með þetta á virkum dögum en er aðeins frjálsari með þetta um helgar. 

Mér finnst appið hjálpa mér svakalega mikið og veita mér aðhald. Það er rosalega gott að fylgjast með í appinu og sjá hvað maður á inni. Þetta er samt í grunninn bara hinn gullni meðalvegur eins og svo margir tala um, ef þú ferð í veislu í hádeginu þá fær maður sér léttan kvöldmat á móti. Þetta snýst allt bara um jafnvægi og að lifa þannig lífi að þú springir ekki og farir aftur í sama farið og áður.“

Fór líka að hreyfa sig

Margir afsaka sig með tímaleysi þegar kemur að því að borða alltaf hollt. Hafdís segir hins vegar 95 prósent af tímanum það vera ekkert mál að borða hollt og skrá inn í appið. „Auðvitað leyfir maður sér að fara í veislur eða út að borða án þess að skrá niður hvern einasta bita en þegar maður fer í veislu verður maður líka að sjá til þess að maður eigi fyrir því, til dæmis með góðri brennsluæfingu. Fyrir mér er þetta orðið að rútínu og þess vegna finnst mér þetta ekki vera kvöð eða ég þurfi að finna tíma fyrir þetta. Í appinu er líka hægt að búa til máltíðir og maður er svo oft að borða sömu hlutina að það er allt komið inn í appið hvort sem er.“

Hafdísi Þóru finnst hvetjandi að sjá fyrir- og eftirmyndir af …
Hafdísi Þóru finnst hvetjandi að sjá fyrir- og eftirmyndir af sér. Ljósmynd/Aðsend

Þegar Hafdís Þóra byrjaði að nota appið ágúst í fyrra var hún 95,6 kíló en nú 70,6 kíló og því 25 kíló fokin eða rúm 26 prósent af heildarþyngd. Hún segir appið hafa líka skilað því að meira jafnvægi sé á því sem hún borðar. „Ég er að borða 40% kolvetni, 30% af fitu og 30% af próteinum. Manni líður auðvitað best þegar maður borðar hollan mat úr öllum fæðuflokkum og er í miklu meira jafnvægi og orkan er miklu betri yfir daginn.“

Auk þess sem að hafa breytt matarvenjum sínum fór Hafdís Þóra að hreyfa sig meira en hún hafði áður gert. „Ég gerði mér hlaupa-playlista á Spotify og setti mér markmið að geta hlaupið tíu kílómetra sem ég náði nokkrum mánuðum seinna. Þegar ég hleyp núna er ég að hlaupa oftast fimm til sjö kílómetra. Ég hef líka verið í heitu jóga í Sólum úti á Granda og núna nýlega byrjaði ég í Zumba í Hjartahúsinu. Mér finnst báðir þessir staðir vera yndislegir, alveg án allrar tilgerðar og þar mætist fólk bara með virðingu og brosi,“ segir Hafdís Þóra og mælir með þessum stöðum ef fólki finnst til dæmis erfitt að mæta í ræktarsal og segir að hún hreyfi sig alltaf á tvo mismunandi vegu í hverri viku til þess að hafa hreyfinguna fjölbreytta. 

Meira sjálfstraust

Ávinningurinn af breyttum lífstíl verður þó sjaldan bara mældur á vigtinni eða á fatastæðrum, Hafdís Þóra segist finna töluverðan mun á andlegri líðan frá því að hún breytti til. „Sjálfstraustið er auðvitað miklu meira og maður er miklu hressari. Ég var í stærð 18 í fötum og fannst aldrei neitt passa nógu vel, fyrir utan það að geta varla keypt mér föt í mörgum af aðal tískuvöruverslununum. Núna er ég í stærð 10-12 og get keypt föt hvar sem er og mér finnst það súper skemmtilegt. Maður er líka bara glaðari og lítur jákvæðari augum á lífið. Allt verður einhvern veginn auðveldara. Maður þarf auðvitað bæði að hugsa um líkamlega heilsu og rækta andlegu hliðina en auðvitað tengist þetta saman.“

Hafdísi Þóru finnst skemmtilegt að geta keypt sér föt hvar …
Hafdísi Þóru finnst skemmtilegt að geta keypt sér föt hvar sem er. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragga nagli mikil fyrirmynd

Ætlar þú að halda áfram á sömu braut og hvað hvetur þig áfram?

„Klárlega, mér hefur aldrei liðið betur í eigin skinni. Það sem hvetur mig áfram eru aðallega „klappstýrurnar“ á hliðarlínunni eins og Ragga nagli segir. Einar kærastinn minn hefur stutt mig mikið í þessu og ég held að það skipti öllu máli. Það er erfitt að gera lífstílsbreytingu ef fjölskyldan þín er ekki til í þetta með þér. Núna er ég að snúa mér meira að því að verða sterkari og njóta þess að stunda heilsurækt. Lífið er núna og á meðan maður er heilbrigður á maður að nýta það til hins ýtrasta. Það er bara alls ekkert gefið að eiga góða heilsu.

Svo er ég líka að fylgja góðum fyrirmyndum og það eru nokkrir sem veita mér innblástur, ég held ég verði að nefna Röggu nagla fyrst, hún er náttúrulega algjör snillingur og kemur með húmorinn með í þetta. Hún gefur skít í öfgarnar og tekur sálrænu hliðina líka. Ég hef farið á eitt námskeið hjá henni og hún er bara með þetta. Einhvern tímann las ég líka hjá henni eitthvað á þá leið að eyða 10% af kaloríunum þínum yfir daginn í eitthvað næringarsnautt sem gleður mann, hún hittir bara alltaf naglann á höfuðið, það er bara þannig. Aðrir sem veita mér innblástur eru Sara hjá Hiitfit.is, Anna Guðný hjá Heilsu og vellíðan, stelpurnar í Motivation-stelpur á Facebook og Anna Berglind vinkona mín. Það hefur líka veitt mér mikinn stuðning að aðrar vinkonur mínar eru í sömu vegferð og við hjálpum hver annarri og veitum hver annarri stuðning, pepp og gefum hugmyndir að skemmtilegum hollum uppskriftum eða deilum góðum og slæmum dögum,“ segir Hafdís Þóra. 

„Ef fólk spyr mig ráða er ég alltaf til í að segja því frá minni sögu og hvað ég er að gera, en ég hef komist að því að það er engin ein rétt leið fyrir alla en eitt eiga þó allir sameiginlegt sem ná árangri sem er að hugurinn er til staðar. Hugarfarið verður að fylgja með, maður verður að vilja þetta virkilega og fatta að það eina sem stendur í vegi fyrir manni er maður sjálfur. Eitt sem ég hef líka lært á leiðinni er að ef maður á slæman dag er ekki svo mikilvægt að refsa sér fyrir það heldur halda bara áfram næsta dag, nýr dagur er nýtt tækifæri í að gera betur. Maður verður líka að elska sjálfan sig eins og maður er og hafa trú á sjálfum sér, það er ótrúlegt hvað það kemur manni langt. Eins og Nike segir, Just do it! Ég lofa að það er þess virði,“ segir Hafdís Þóra glöð í bragði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál