Fastar ekki til að léttast

Íris Hrund Stefánsdóttir líður vel þegar hún fastar.
Íris Hrund Stefánsdóttir líður vel þegar hún fastar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íris Hrund Stefánsdóttir hársnyrtir á Manhattan er ein af þeim sem hafa tileinkað sér það að fasta. Hún fastar ekki til þess að léttast heldur segir að sér líði einfaldlega betur þegar hún fastar og lítur á föstuna sem skipulag á mataræði sínu.

„Ég ákvað að prófa að fasta fyrir nokkrum mánuðum. Ég hef alltaf verið sú týpa sem borðar ekki morgunmat en borða mikið seinnipartinn. Mér fannst þetta henta mér virkilega vel því ég hef alltaf verið að fasta ómeðvitað.

Ég byrjaði hægt og lengdi tímann alltaf með hverjum deginum. Byrjaði markvisst að spá í klukkan hvað fyrsta máltíð mín var, hætti að setja mjólk í morgunkaffið, hætti að fá mér kvöldsnarl þegar ég þurfti þess ekki og þess háttar,“ segir Íris Hrund.

Íris Hrund hættir að borða klukkan átta á kvöldin og fastar fram að hádegi. Hún æfir crossfit flestalla morgna og fer því fastandi á æfingu. Þá daga sem hún æfir ekki fastar hún aðeins lengur og borðar aðeins í fimm, sex tíma á dag. Íris Hrund segir þá klukkutíma sem hún borðar alveg nægan tíma til þess að fá allar kaloríur sem hún þarf yfir daginn.

„Ég er ekki að nota föstuna til að léttast. Mér líður einfaldlega betur þegar ég fasta daglega og leyfi líkamanum að melta það sem ég borðaði yfir daginn,“ segir Íris Hrund sem leyfir sér skyndibita og nammi þegar hún vill þó svo að hún tími ekki oft að „sóa“ máltíð í hamborgaratilboð. Það er töluvert síðan Íris Hrund tileinkaði sér vegan-lífsstíl og með því minnkaði óhollustan enda ekki mikið sukk í boði. Undanfarið hafa valmöguleikar fólks á vegan-mataræði stóraukist og segist Íris Hrund því stundum fá sér vegan-skyndibita.

Íris Hrund aðhyllist vegan lífstíl.
Íris Hrund aðhyllist vegan lífstíl. Eggert Jóhannesson

Íris Hrund ólst upp sem kjötæta en segir margt hafa batnað eftir að hún breytti lífsstílnum fyrir þremur árum. „Ég ákvað að hætta að neyta dýraafurða og hef aldrei verið heilbrigðari. Ég er með mjólkuróþol, var hrikalega lág í járni, d-vítamíni og b12, sem hefur allt lagast. Einnig er ég með PCOS og breytt mataræði hafði hrikalega góð áhrif. Eftir að ég byrjaði að fasta hafa einkennin skánað enn meir.“

Íris Hrund segist einnig hafa prófað safakúr en reynslan af því ekki verið jafn góð og af vegan-mataræðinu og föstunni. Hún segist hafa verið sísvöng á því. Frekar fastar hún með því að drekka vatn í stað safa.

Mörgum finnst erfitt að breyta matarvenjum sínum en Íris Hrund segir ekki hafa verið erfitt að byrja að fasta þegar hún er spurð hver galdurinn sé.

„Galdurinn við það að gefast ekki upp á að fasta er einfaldlega sá að þetta er ekki mataræði. Þetta er lífsstíll. Þú tekur meðvitaða ákvörðun um að borða á ákveðnum tíma og ef þú ert sáttur við það bætirðu einni klukkustund við. Þetta snýst ekki um að fasta í nákvæmlega 16 klukkustundir, þetta snýst um að gera sitt besta og vera meðvitaður um hvað þú lætur ofan í þig. Ef þú átt nokkra tíma eftir af föstutímanum en ert að fara i matarboð þá er allt í lagi að stytta föstutímann aðeins. Ef þetta er strangt og erfitt er þetta ekki rétta leiðin fyrir mann og maður þarf að venja líkamann.“

Fastan er ekki mataræði, hún er lífstíll.
Fastan er ekki mataræði, hún er lífstíll. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál