Matur og nammi voru bestu vinir Kristínar

Kristín hefur breuyst mikið á undanförnum árum. Hún hefur grennst …
Kristín hefur breuyst mikið á undanförnum árum. Hún hefur grennst og náð betri tökum á andlegri líðan. Ljósmynd/Aðsend

Kristín Lund-Hammeren hefur frá því hún var ung glímt við ofþyngd. Kristín gekk í gegnum erfiða reynslu í æsku sem gerði það að verkum að hún fór að leita sér huggunar í mat. Kristín hefur reynt ýmislegt og fór meðal annars í magahjáveitu fyrir nokkrum árum en eins og svo margir aðrir þyngdist hún aftur. Í dag er hún á beinu brautinni og veit að skurðaðgerð lagar ekki erfiða reynslu. 

Kristín býr í Noregi ásamt eiginmanni og fjórum dætrum sínum. Hún ólst upp á Íslandi en fluttist til Noregs rétt fyrir aldamót. Á Íslandi átti Kristín þrjár góðar vinkonur en var þrátt fyrir það lögð í einelti. Í kjölfar skilnaðar foreldra hennar þegar hún var stelpa flutti faðir hennar til Noregs. Kristín segir það hafa verið enn eitt áfallið enda var hún mikil pabbastelpa og segir sorgina hafa verið mikla að hafa ekki stuðning föður síns dagsdaglega. Eldri systur hennar fluttu einnig snemma að heiman. Til þess að bæta gráu ofan á svart varð Kristín fyrir misnotkun.

Vildi verða feit til þess að fá frið

Til þess að takast á við síversnandi einelti og afleiðingar misnotkunar fór Kristín að borða meira.

„Ég komst á þá skoðun þegar ég var 11 ára að ef ég væri feit yrði ég látin í friði. Ég myndi forðast athygli. Svo ég át viljandi,“ segir Kristín sem segir að þetta hugarfar hafi háð sér alla tíð. Ef hún fær athygli fyrir að grennast verður hún óttaslegin og byrjar aftur að borða mikið og óhollt.

„Að auki var matur og nammi „góðir vinir“. Að lifa sig algjörlega inn í góða mynd með góðgæti er heimsins besta tilfinning, sama með góða bók, fyrir utan örfáa vini voru þetta mínir bestu vinir.“

Kristín kynntist núverandi eiginmanni sínum eftir að hún flutti til Noregs. Þau flutti inn saman í sumarið 2003 og allt gekk mjög hratt fyrir sig. Hún var allt í einu orðin stjúpmóðir tveggja drengja og varð fljótlega ólétt. Hjónin urðu þó fyrir því áfalli að missa sitt fyrsta barn. Í janúar 2006 varð tvöföld gleði þegar tvíburadætur þeirra komu í heiminn. Hjónin eignuðust tvær dætur til viðbótar árin 2008 og 2010. Meðgöngurnar voru erfiðar Kristínu. Hún var veik á meðgöngunum og dætur hennar voru teknar með keisaraskurðum.

Þunglynd eftir síðasta keisaraskurðinn

Síðasti keisaraskurðurinn árið 2010 var sá versti og hafði þau áhrif að Kristín fékk slæmt fæðingarþunglyndi. Eins og áður leitaði Kristín huggunar í mat.

„Allt fór úrskeiðis,“ segir Kristín þegar hún lýsir síðasta keisaraskurðinum sem hún fór í. 

„Deyfingin virkaði ekki. Ég öskraði í gegnum alla raunina og reyndi að komast af skurðarborðinu. Ég missti mikið blóð og var hálf rænulaus. Til að líkja þessum þremur keisaraskurðum saman þá var ég í fyrstu tveimur á gjörgæslu í klukkutíma og svo inni á herbergi. Ég var búin í sturtu og gekk um innan við þremur tímum síðar. Síðasta skiptið var ég á gjörgæslu í níu tíma.“

Þegar Kristín kom heim eftir fæðinguna leið henni illa. Henni fannst hún einskis virði. „Ég hugsaði sem svo að meira að segja dýr eru deyfð. Dýr eru ekki skorin á meðan þau veina. Lækninum hlyti að finnast ég vera einskis virði að stoppa ekki.“

Kristín segist aldrei hafa fengið greiningu á þunglyndinu en segir að hún hafi bara setið heima hjá sér meðan tárin runnu niður vangana, gat ekki hætt að gráta. Á meðan reyndi tveggja ára dóttir hennar að hugga hana en hún var þarna með fjórar stelpur fjögurra ára og yngri auk stjúpbarna.

„Maðurinn minn hjálpaði eins mikið og hann gat en ekkert fékk mig til að hætta að gráta. Ég leitaði hjálpar hjá heimilislækninum okkar og fékk hjá honum töflur við þunglyndi. Þær deyfðu, ég grét ekki lengur og þar með hræddi ég ekki dætur mínar, en mér leið alveg jafn ömurlega að innan. Matur og nammi varð huggun, eini ljósi punkturinn.“

Eftir erfiða keisaraskurðinn forðaðist Kristín annað fólk. Hún fór með dætur sínar í leiksólann og í búðina en hélt sig annars heima.

„Ég hætti svo að segja að hreyfa mig og kílóin söfnuðust upp. Allt árið 2012 var svo að segja hrein martröð. Hvern einasta morgun vaknaði ég stíf af hræðslu. Fyrstu hugsanir mínar voru: „Nú dey ég", „ég næ ekki andanum“. Mér var illt fyrir brjóstinu og var hrædd, virkilega hrædd. Ég hafði þá undanfarna tvo vetur gengið um í lopapeysu, því enginn jakki passaði yfir handleggina mína,“ segir Kristín.

Hér má sjá Kristínu sumarið 2013 áður en hún fór …
Hér má sjá Kristínu sumarið 2013 áður en hún fór í magahjáveituaðgerð og nýlega mynd af henni. Ljósmynd/Aðsend

Fór í magahjáveituaðgerð

Ástandið var orðið það slæmt að Kristín áttaði sig á að hún varð að gera eitthvað í sínum málum. „Ég henti lyfjunum. Þau hjálpuðu ekki. Ég ákvað að það væri betra að grenja einstaka sinnum og sýna eðlilegar tilfinningar en að ganga um eins og uppvakningur,“ segir Kristín sem byrjaði að æfa zúmba heima hjá sér. Hún fór einnig á námskeið til Óslóar þar sem hún lærði ýmislegt um næringu og hvernig hún gæti tekist á við vandamál sitt. Að lokum ákvað Kristín að fara í magahjáveituaðgerð.

„Ég lagðist undir hnífinn 5. nóvember 2013. Í raun gekk allt vel. Ég fór hægt og rólega niður í þyngd, en ekki jafn hratt og ég heyrði af öðrum. Ég var komin á skrið, gekk átta til 11 kílómetra á dag. Ég verð að viðurkenna að ég varð svekkt út í fólk sem þekkti mig vel og heilsaði mér allt í einu ekki lengur, alveg þar til einn kunningi okkar nefndi að það gæti verið vegna þess að fólkið þekkti mig bókstaflega ekki! Því ég hafði breyst svo mikið.“

Þrátt fyrir að Kristín hafi breyst það mikið að fólk þekkti hana ekki var björninn ekki unninn. Hún leggur áherslu á að aðgerð eins og hún fór í sé einungis hjálp, ekki lausn. Hún segir auðveldlega hægt að byrja að borða meira. Einnig segir hún að margir sem fara í aðgerð leggjast í aðra fíkn eins og áfengisfíkn. Sjálf fannst henni hún alltaf getað borðað mikið og var matarfíknin því enn til staðar.

Matarfíkillinn slapp aftur úr búrinu

„Það er maginn sem hefur verið skorinn og gert við en ekki hausinn,“ er setning sem Kristín segist hafa heyrt marga segja. Það var einmitt það sem gerðist hjá henni. Hún var ekki búin að vinna í andlega þættinum sem kom bersýnilega í ljós þegar hún lenti í því áfalli árið 2014 að móðir hennar lést.

„Matarfíkilinn minn slapp úr búrinu,“ segir Kristín um hvernig hún tókst á við sorgina. Þrátt fyrir að hún hafi reynt að halda sig frá matnum þá bætti hún á sig 30 kílóum á um tveimur árum. Kristín reyndi að fara til sálfræðings til þess að vinna úr áfallasögu sinni en þegar sálfræðingurinn vildi að hún skrifaði niður matardagbók segir Kristín að hún hafi forðast sálfræðinginn. Hún þyngdist því enn meira. 

„Um haustið 2017 fékk ég skilaboð, sem breyttu öllu. Helén systir mín sem var 12 árum eldri en ég var með krabbamein og mér var sagt að það væri engin von,“ segir Kristín sem var vön að takast á við áföll með því að borða. Hún ætlaði ekki að gera það í þetta skiptið og leitaði að lausn.

Lágkolvetnafæði var svarið

Kristín byrjaði á lágkolvetnafæði. Hún fékk aðstoð í Facebook-hópum og þrátt fyrir að hafa svindlað aðeins of oft að eigin sögn þá er Kristín orðin 37 kílóum léttari en hún var í október 2017.

„Ég ætla að halda áfram á sömu braut, mér líður betur. Ég á léttara með að standa með sjálfri mér,“ segir Kristín sem er byrjuð að finnast hún eiga meira skilið í lífinu og segir að allir eigi skilið að líða vel í eigin líkama. „Ég vil svo gjarnan að stelpurnar geti verið stoltar af mömmu sinni.“

Kristín þegar hún var að byrja á lágkolvetnafæðinu og nýleg …
Kristín þegar hún var að byrja á lágkolvetnafæðinu og nýleg mynd af Kristínu. Ljósmynd/Aðsend

Kristín telur ekki bara árangur sinn í kílóum. Hún segir að stór hluti af hennar árangri er breytt hugarfar. Hún er ekki að líkja sér við aðra og reynir að vera ánægð með það sem hún getur og tekur einn dag í einu.

„Það er mitt að hugsa um mitt líf, ég get ekki kennt öðrum um. Ég get valið að gefa skít, sleppa mér og borða allt, en ég veit þá hvar ég enda,“ segir Kristín að lokum og segist ekki ætla að ráðleggja neinum að leggjast undir hnífinn. Hún segist hafa heyrt af allt of mörgum sem lenda illa í því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál