Mælir með magnesíumbaði til að láta sér líða betur

Inga Valdís Heimisdóttir er þerapisti hjá Shalom.
Inga Valdís Heimisdóttir er þerapisti hjá Shalom.

Inga Valdís Heimisdóttir er þerapisti á Shalom. Hún lærði hjá Upledger og Barral institute og og hefur starfað á sínum vettvangi bæði hér heima og á Englandi undanfarin ár. Hún sérhæfir sig í höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð, innrilíffæravinnu, orkubrautajöfnun og dáleiðslu. Hún er með áhugaverða síðu á instagram um líkamsvitund þar sem fræðin eru betur útskýrð.

„Meðferðir ganga út á samtal og vinnu á bekk. Á bekknum notast ég við þrjár mismunandi leiðir; losun á líkamsvefsverkjum, dáleiðslu til að sækja í minningar í undirmeðvitundina, svo hægt sé að vinna með þær, og sálræna veflosun, sem er meðferð sem unnið er með í gegnum ákveðna samskiptatækni.“

Inga Valdís á tvö börn; unlingsstúlku og fullorðinn son. 

„Ég elska að eyða tíma með fólkinu mínu. Ég vann í ömmulottóinu fyrir þremur árum og er með ömmuprinsinn minn reglulega.

Ég á einnig góða vini sem ég reyni að vera svolítið með, sérstaklega á þessum tímum sem við lifum núna. Ég veit ekki hvar ég væri ef ég ætti ekki alla þessa snillinga sem fylgja mér í lífinu. Svo tekur vinnan mikið af tíma mínum, heimaæfingar og hugleiðsla. Hugleiðslan er eitt stærsta galdraverkfæri sem ég á og mæli ég með henni við alla.“

Tíminn hefur verið þungur og langdreginn

Inga Valdís segir tímann í dag þungan og langdreginn. 

„Í fyrstu fannst mér þetta hálfnotalegt, þegar við þurftum að loka öllu, og nýtti ég tímann eins og klassískur Íslendingur og heilmálaði íbúðina, fór í nokkra veiðitúra og hvíldi mig. 
Svo fór þetta að lengjast og þyngjast. Mér fannst erfitt að horfa upp á aukna einangrun, það var áskorun að þurfa að setja boð og bönn á barnið mitt en samt halda mér í rútínu og brosa. Samt sem áður hef ég haldið í þá von og trú að þetta verði allt í lagi.

Í gegnum starf mitt finn ég að fólk er að fá ennþá meiri líkamleg einkenni eins og verki og bólgur, streitu og fleira. Það er einnig eins og ástandið opni á gamla hluti hjá fólki. Ótti tengdur peningum, vinnu og fjölskyldu getur verið áfall. Það virðist vera minni trú og margir mjög einmana og fólki leiðist. Ég finn svo mikið til með þeim og vildi að ég mætti knúsa þau en það má að sjálfsögðu ekki.“

Inga Valdís er þakklát fyrir lífið en á auðvelt með …
Inga Valdís er þakklát fyrir lífið en á auðvelt með að sjá að ástandið hefur reynt á marga.

Það sem Valdís ætlar að taka með sér í reynslubankann á nýju ári er þakklæti. 

„Ég hef fundið fyrir miklu þakklæti á árinu. Ég á fallegt heimili og finn mikið fyrir hvernig almættið og heimurinn sér fyrir mér og heldur á mér. Eins finnst mér ég mjög rík með fólkið í kringum mig sem hvetur mig áfram þegar ég er að fá nóg. Ég er þakklát fyrir húmorinn, nægjusemi og samstöðu. Þakklát að finna að ég á getu í að fara í gegnum alls konar og samt finna fyrir því að allt verði í lagi.“

Breytir því sem var erfitt í jákvæða reynslu

Á áramótunum finnst Ingu Valdísi gaman að fara yfir allt sem hún hefur gert á árinu. 

„Ég fer yfir hvað hefur gerst hjá börnunum og barnabarninu. Ég horfi á hverju ég vil breyta og hvað ég get lært af árinu. Ég er þannig gerð að mér finnst gott að sjá allt það fallega í lífinu og þá líka hvernig ég get breytt því sem var erfitt yfir í jákvæða reynslu og þroskast með því. Ég hef á tilfinningunni að árið sem er að koma verði ævintýralegt ár. Að allt fari að léttast núna í janúar og febrúar og jákvæðari orka sé að koma inn með mikilli umbreytingu en léttleika. 

Það er margt sem losnaði árið 2020 og þarf ekki að fara með inn í nýja tímabilið á árinu 2021. Ég er samt sem áður á því að 2021 verði mikið úrvinnsluár, þar sem það geta verið afleiðingar af öllum þessum kvíða og einangrun á liðnu ári. Mér finnst samt orkan einkennast af gleði og leik. Einlægari gleði beint frá hjartanu.

Ég verð þó að viðurkenna að ég hef áhyggjur af yngstu kynslóðinni og hugsa að hún gæti þurft að fást við afleiðingar þessa árs. En ástin mun flæða í öllum regnbogans litum!“

Inga Valdís segir mikið af tækifærum munu koma til okkar á nýju ári en telur að við þurfum að finna hugrekki til að grípa þau og hafa trú á að við getum allt sem við ætlum okkur. 

„Ég tel að við eigum að elska og njóta en einnig að trúa líka að það sé hægt að vinna með allt. Við ættum að setja orkuna út sem við viljum fá til baka og óska okkur og hafa trú á að það rætist.“

Áramótin minnst spennandi dagur ársins

Hvað ætlarðu að gera á áramótunum?

„Um áramótin elska ég góðan mat og huggulegheit með fjölskyldunni en viðurkenni að þetta er að mínu mati minnst spennandi dagur ársins. Hver elskar samt ekki gott heimapartí!“

Áttu ráð til að líða betur?

„Númer eitt, tvö og þrjú mæli ég með því að setja sjálfan sig í fyrsta sæti. Að hlúa að sér. Fara í heitt magnesíumbað og hugleiða. Eins tel ég mikilvægt að halda í tengsl með síma eða hittingum innan samfélagslegra reglna hverju sinni. Svo held ég því fram að stærsti galdurinn í lífinu sé tjáning og þá tilfinningatjáning. 

Gott samtal við góðan vin getur verið mikil heilun og gefið gleði. Ég mæli líka sérstaklega með hugleiðsluforritinu Calm. Að hlusta á það í tíu mínútur á dag kemur skapinu í lag. Lífið er núna og við ættum öll að gefa ást og taka á móti ást.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál