„Engu að tapa nema aukakílóunum“

Linda Pétursdóttir er lífsþjálfi og aðstoðar konur við að komast …
Linda Pétursdóttir er lífsþjálfi og aðstoðar konur við að komast í þá þyngd sem þær dreyma um. mbl.isl/Ásta Kristjánsdóttir

Linda Pétursdóttir lífsþjálfi fór í The Life Coach School í Bandaríkjunum þar sem hún öðlaðist þekkingu og menntun í því að hjálpa konum að ná þeirri þyngd sem þær dreyma um. Hún er nú með heilsuáskorun fyrir allar konur, sem hún kallar Lífið með Lindu Pé þar sem hún leiðir konur í átt að markmiðum sínum. Hún segir starfið fela í sér að hjálpa konum að vinna með áhrif hugsana á lífið þeirra. 

Linda er einnig með BA gráðu í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði svo allt sé haft með sem hún hefur verið að sinna á undanförnum árum. 

Hún segir að allar konur ættu að skoða að koma á námskeið hjá sér, þær sem þær hafa engu að tapa nema þá kannski auka kílóunum sínum.

„Við hugsum eitthvað, sem framkallar ákveðna líðan hjá okkur og út frá þeirri líðan gerum við eitthvað, eða gerum ekki, og þaðan kemur niðurstaðan í lífi okkar. Stærsta verkfærið sem við höfum til að gera breytingar á eigin lífi, er heilinn okkar.“

Hvers vegna ákvaðstu að fara í þá sérgrein að sérhæfa þig í þyngdartapi?

„Það var nú ekki upphaflegt plan hjá mér en þegar ég byrjaði í skólanum og við vorum kynnt fyrir þessari nýju og byltingarkenndu aðferðarfræði þyngdartaps, vissi ég í hjarta mínu að ég þyrfti að kenna íslenskum konum þessa lausn. Ég er búin að vera í heilsubransanum í yfir 30 ár og ég veit hvað barningurinn við aukakílóin er mikið mál fyrir svo ótal marga en þessi nýja lausn er það merkilegasta sem ég þekki úr heilsubransanum.“

Hvernig er venjulegur dagur í þínu lífi?

„Hann er nú ósköp venjulegur. Ég er þessi týpíska A-týpa og með lífið í fastri rútínu. Ég vakna yfirleitt um hálf sex alla morgna, byrja daginn á vatnsglasi, gef hundunum mínum og hleypi þeim út. Af því loknu fer ég í þurrgufu þar sem ég er með slæma liðagigt og þurr hitinn í gufunni hjálpar mér mikið. Ég nýti tímann þar inni til að hugleiða og þurrbursta líkamann minn. Hundurinn minn hún Stjarna sem er að verða 12 ára fer með mér í þurrgufu alla daga. Liggur á gólfinu og lætur fara vel um sig. Ég held reyndar að hún sé eini hundurinn í heiminum sem vill fara í þurrgufu!

Ég fasta með hléum og fæ mér mína fyrstu máltíð um hádegi, sem er oftast súperdrykkur. Ég vinn heiman frá mér og eftir að ég hef keyrt Ísabellu minni í skólann og gengið með hundana byrja ég að vinna  um hálf níu leitið yfirleitt.

Við mægður borðum kvöldverð saman yfirleitt frekar snemma og svo er ég komin upp í rúm ekki mikið seinna en upp úr tíu á kvöldin.“

Er hægt að ná stjórn á tilfinningunum tengt mat og matarvenjum?

„Já algjörlega! Það er það sem ég kenni. Að þekkja muninn á tilfinningalegu- og líkamlegu hungri og læra hugsanastjórnun og hvernig þú bregst við löngunum. Ég kenni konunum mínum muninn á frum- og framheila, en það er frumheilinn sem kallar á langanir og vill fá umbun strax. Það er mikilvægt að láta heldur framheilann ráða og skipuleggja fyrir okkur, og taka ákvarðanir út frá framtíðarsjálfinu okkar.“

Hefur þú sjálf þurft að losa þig við auka kíló?

„Já oft! Það byrjaði allt þegar ég tók þátt í Ungfrú Ísland, þá þurfti ég að losa mig við 8 kíló á örfáum vikum, og það þurfti ég að gera með brjáluðum æfingu og með því að borða kálsúpu í öll mál. Nú segi ég „aldrei aftur kálsúpa” enda kenni ég algjörlega öfuga aðferðarfærði við það!“

Á heimasíðu Lindu má sjá konur tjá sig um árangur námskeiðanna hennar. Ein segir 18 kíló fokin í burtu og það hafi aldrei verið jafn auðvelt fyrir hana að grennast eins og með Lindu Pétursdóttur. 

Linda Pétursdóttir hefur margoft þurft að létta sig um ævina.
Linda Pétursdóttir hefur margoft þurft að létta sig um ævina. mbl.is/Ásta Kristjánsdóttir
mbl.is