Slæmar hugsanir geta leitt til verkja eða magnað upp verki sem eru fyrir

„Samstarfskona mín hafði orð á því um daginn að þegar hún fær slæmar hugsanir þá finnur hún að vefjagigtin versnar, slæmar hugsanir verða líkt og íkveikja að meiri verkjum. Umrædd kona er búin að vera mjög dugleg að vinna í líkamlegri heilsu upp á vefjagigtina að gera og er nú næsta skref hennar að vinna með hugsanirnar,“ segir Þórey Kristín Þórisdóttir sálfræðingu og heilsumarkþjálfi í sínum nýjasta pistli: 

Slæmar hugsanir og afleiðingar þeirra fá eftirvill ekki næga athygli í umræðunni en í þessari grein ætla ég eingöngu að skrifa um endurteknar slæmar hugsanir og þær líkamlegu afleiðingar sem þær geta valdið.

Neikvæðar hugsanir líkt og reiði, depurð, ótti eða gremja skapa tilfinningar sem gefa svo heilanum skilaboð að losa um aukin stress hormón líkt og kortisól og adrenalín. Streituhormónin eru þó ekki skaðleg í stuttan tíma og geta virkað sem hvati og hjálpað til við að framkvæma ákveðna hluti en til lengri tíma litið geta þau verið skaðleg. Þegar stress þröskuldurinn er orðinn lægri byrjar líkaminn að halda að hætta sé á ferðinni og við minnsta áreiti spennum við ósjálfrátt á líkamanum sem verður einnig til þess að öndunin verður allt of grunn. Allir þessir þættir geta svo magnað upp verki sem eru til staðar en einnig kveikt á verkjum þrátt fyrir að viðkomandi hafi ekki áður verið með verkjasjúkdóma. Þessi spenna getur einnig komið þegar við bælum niður tilfinningar okkar í staðinn fyrir að tjá okkur. Tilfinningar þurfa alltaf einhvern farveg og oft þegar við þorum ekki að segja hvað okkur býr í brjósti þá getur gremja eða reiði komið í staðinn.

En aftur að neikvæðum hugsunum og hvað er hægt að gera í þeim? Ég mæli alltaf með því við mína skjólstæðinga að byrja á hugsanadagbók. Oft er um að ræða endurteknar neikvæðar hugsanir sem þjóna í raun engum tilgangi lengur. Ein orðaði þetta svo einstakalega vel, sagði að alltaf á kvöldin þegar hún er að fara að sofa þá byrjar sirkusinn af neikvæðum endurteknum hugsunum, þá yfirleitt úr fortíðinni og aldrei nein ný atriði. Alltaf sama gamla sýningin sem hélt oft fyrir henni vöku.

Það er svo mikilvægt að reyna að brjóta þennan vítahring slæmra hugsanna, því það er ekki eins og þessar sömu gömlu hugsanir séu að fara breyta einhverju í lífi einstaklinga. Með hugsanadagbók fá hugsanirnar allavega einhvern farveg og oft á tíðum upplifa einstaklingar að hugsanirnar geti hvílt sig þarna í bókinni. Að auki með því að skrifa niður neikvæðar hugsanir þá missa þær oftast mátt sinn með tímanum. Það sem er upp í höfðinu á okkur virkar oftast tífalt stærra en það gerir á blaði.

Það sem ég hef einnig séð er að sjálfsumhyggjan vex með skrifunum. Ef við erum með mikið af neikvæðum hugsunum í eigin garð þá gefur það oft til kynna að við erum með litla sjálfsumhyggju. Rannsóknir hafa sýnt að lítil sjálfsumhyggja getur ýtt undir kvíða, stress og depurð.

Byrjaðu að skrifa niður hugsanir sem draga úr lífsgleði þinni og orku, því þá fyrst verður þú var við hvaða hugsanir eru að búa til verki eða jafnvel magna upp verki. Þegar þú ert farin/n að sjá mynstur, þá getur þú betur gripið inn í og jafnvel farið að skipta út þessum slæmu hugsunum fyrir eitthvað jákvætt. Það er alltaf hægt að finna jákvæða hugsun í stað fyrir neikvæðu hugsunina. Af hverju ekki frekar að velja jákvæðar hugsanir? Þær gefa orku og hafa jákvæð áhrif á andlega heilsu í stað þess að taka orku og draga úr okkur lífsþrótt. Þetta eru þínar hugsanir, þú bjóst þær til og þú getur einnig breytt þeim, skipt þeim út og hagrætt að vild.

HÉR getur þú sent fyrirspurn. 

mbl.is