„Algjört brjálæði að borða á sig gat“

Linda Pétursdóttir er menntaður lífsþjálfi með þyngdartap sem sérgrein.
Linda Pétursdóttir er menntaður lífsþjálfi með þyngdartap sem sérgrein. mbl.is/Ásta Kristjánsdóttir

Hlaðvarp Lindu Pét­urs­dótt­ur er að slá í gegn um þess­ar mund­ir og fór tólfti þátt­ur­inn henn­ar í loftið í vik­unni. Þátt­ur­inn fjall­ar um sjálfsniðurrif og er Linda á því að ekki sé til sú manneskja sem hefur ekki skemmt fyrir sjálfri sér á einhverjum tímapunkti. Hún segir aftur á móti góða ástæðu fyrir því og fer ofan í saumana á þessu í þættinum sínum. 

„Það hljómar eins og algjört brjálæði að fylgja matarplaninu eins og meistari en klúðra því svo með því að borða á sig gat í heilan dag eða jafnvel þrjá daga. Stundum áttum við okkur ekki á því að við erum að gera þetta en oft erum við meðvituð um það en líður eins og við getum ekki hætt. Það er góð ástæða fyrir því að þetta gerist og ég vil að þú vitir það svo að þú finnir ekki fyrir skömm fyrir þessa hegðun. Oftast er það vegna þess að þig skortir næga sjálfsást og sjálfsvirðingu.

Sjálfsniðurrif á sér einnig stað þegar þú kannt ekki að upplifa tilfinningar eða neitar að gangast við þeim. Í stað þess að takast á við tilfinningarnar borðarðu þig í gegnum þær. Og þú gætir einnig notað sjálfsniðurrif sem leið til að takast á við krefjandi aðstæður, eins og þegar allt er á afturfótunum í þínu daglega lífi eða þegar þú stenst ekki þínar eigin óraunhæfu væntingar. Ein stærsta tegund sjálfseyðileggingar sem ég sé er óttinn við skort.“

Linda leggur áherslu á að leiðirnar til að léttast séu ákveðið framkvæmdarprógramm á meðan fólk vindur ofan af áralöngu megrunarhugarfari og nái frelsi gagnvart því að óttast skort. 

„Ég verð líka vör við ákaflega mikinn ótta við að mistakast. Ástæðan fyrir því er sú að þú lítur á mistök sem „það versta í heimi“ því þú lítur á þau sem sönnun þess að þú sért í raun ekki nógu góð. Þú rífur þig niður fyrir hver einustu mistök og að lokum hættirðu að reyna af ótta við að mistakast og líta illa út í eigin augum.“

 Hún segir eftirfarandi atriði merki um að viðkomandi sé að skemma fyrir sér:

  • Þú ert með neikvætt viðhorf og einblínir á það neikvæða í flestum aðstæðum og hunsar það jákvæða. Þú hugsar til dæmis: „Ég missti tvö kg en ég á enn þá eftir að missa 20 kg.“ Eða: „Það er frábært að ég skyldi léttast en ég á svo mikið eftir.“ Svo er klassískt að segja:„Ég fór ekki eftir planinu í dag og á pottþétt eftir að klúðra þessu aftur á morgun.“
  •  Þú óttast að þér mistakist. Þú lítur á áætlanir þínar og hugsar: „Ég á ekki eftir að gera þetta.“ Þú ferð út að borða og hugsar: „Ég á eftir að borða of mikið. Ég bara veit það.“
  • Fitufordómar gagnvart sjálfri þér og niðurrif. Að leyfa þér að segja eða hugsa ljóta hluti um þig umhugsunarlaust. Sem dæmi: „Ég er feit, ljót, ekki nógu góð eða engum líkar vel við mig vegna þess að ég er of þung.“
  • Fullkomnunarárátta þegar kemur að matarvenjum. Sem dæmi: „Ég verð að borða fullkomlega rétt annars þyngist ég,“ eða: „Jæja, ég gerði mistök svo ég get alveg eins borðað allt sem ég vil í allan dag.“
  • Að einblína stöðugt á fortíðina. Sem dæmi: „Ég hef aldrei getað grennst og haldið mér þannig svo að mér tekst það ekkert frekar í þetta skiptið.“
  • Að vera dramadrottning þegar kemur að þyngdinni. Segja hluti eins og: „Ég þarf að léttast svo mikið að það er ekki séns að ég geti það.“ 

„Sjálfsskaðandi át bugar mann vegna þess að það leysir aldrei raunverulegu vandamálin. Þau eru enn til staðar og ofan á þau leggst svo sektarkennd. Burtséð frá ástæðum þess að þú eyðileggur fyrir sjálfri þér verðurðu að hætta ef þú vilt ekki lifa lífinu í eftirsjá og sjá allar þínar vonir og væntingar bresta.

Góðu fréttirnar eru þær að ég hef nú þegar kennt þér að leysa vandamálin. Lausnin er einfaldlega sú að finna hugsanirnar sem þú hugsar um sjálfa þig, matinn þinn og fólkið í lífi þínu, ákveða hvaða hugsunum þú vilt halda og hvaða hugsunum þú vilt breyta. Haltu áfram að æfa þig í að finna tilfinningarnar þínar og skoraðu á sjálfa þig að auðvelda þér lífið með minna af eyðileggjandi og niðurrífandi tali og meiri víðsýni,“ segir Linda.

 Þátt­inn má nálg­ast í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is