„Þetta er okkar líf og sál“

Birgitta Líf Björnsdóttir starfar hjá World Class.
Birgitta Líf Björnsdóttir starfar hjá World Class. Ljósmynd/Aðsend

Birgitta Líf Björnsdóttir segist ekki hafa vaknað einn daginn og ákveðið að taka þátt í daglegum rekstri World Class, líkamsræktarstöðva foreldra sinna. Það þróaðist þó þannig og er í nægu að snúast hjá Birgittu en World Class opnaði nýja stöð og verslun í Kringlunni í vikunni. Líkamsrækt og næstu skref fyrirtækisins eru stóru umræðuefnin þegar fjölskyldan sest við eldhúsborðið. 

„Við vorum að opna 18. World Class-stöðina inni í Kringlunni. Við hliðina á henni vorum við með smá rými og ákváðum að opna fyrstu Laugar Spa Organic Skincare-verslunina. Þetta er í fyrsta skipti sem við erum með vörurnar í sérverslun,“ segir Birgitta um húðvörurnar. Hún segir þau vera í skýjunum með nýju búðina sem HAF Studio hannaði.

Birgitta segist finna mikinn meðbyr með vörunum. Fólk er byrjað að þekkja þær, kemur aftur, prófar aðrar vörutegundir og heyrir jafnvel af vörunum frá vinum. Hún bendir á 20% afslátt í búðinni fyrstu vikuna sem opið er og segir fólk alltaf hafa áhuga á íslensku hugviti.

Tóku ákvörðun um að opna rétt fyrir heimsfaraldur

Ákveðið var að opna stöðina í Kringlunni þegar kórónuveiran var aðeins fjarlæg martröð. „Við byrjuðum á þessari stöð í byrjun febrúar í fyrra áður en heimsfaraldurinn skall á. Allt fór í biðstöðu og þess vegna er hún ekki opnuð fyrr en núna. Það var stefnan að opna hana í haust, september eða október, en svo frestaðist allt eins og hjá flestum. Þetta var verkefni sem var búið að hanna og byrjað á. Við reyndum bara að vera jákvæð, maður vissi ekki hvað þetta yrði lengi. Við ætluðum að opna strax eftir páska en þá var lokað aftur,“ segir Birgitta um nýju stöðina, sem var opnuð á þriðjudaginn. 

Ertu búin að taka æfingu?

„Já, ég fór í morgun á fyrstu æfinguna. Stöðin lítur hrikalega vel út. Hún er mjög stór, tækjasalur, þrír æfingasalir; heitur salur, hjólasalur og hóptímasalur. Svo erum við líka með spa-svæði sem er opið fyrir alla korthafa. Svo er verið að leggja lokahönd á heitan og kaldan pott sem verður úti ásamt þurrgufu.“

HAF-hjónin Karitas og Hafsteinn hönnuðu nýju verslunina í Kringlunni.
HAF-hjónin Karitas og Hafsteinn hönnuðu nýju verslunina í Kringlunni. Ljósmynd/Aðsend

Órjúfanlegur hluti af fjölskyldulífinu

Birgitta er titluð sem markaðs- og samfélagsmiðlastjóri World Class en í raun og veru er hlutverk hennar innan fyrirtækisins töluvert fjölbreyttara og segist hún vera komin inn í daglegan rekstur með foreldrum sínum.

„Ég deili skrifstofu með mömmu og pabbi er við hliðina á okkur. Ég er allt í öllu. Svo erum við alltaf að hugsa hvað hægt er að þróa og hvað hægt er að gera, hvernig við bregðumst við markaðnum, hvernig við getum gert betur.“

Birgitta segir að það hafi æxlast þannig að hún hafi tekið meiri þátt í rekstri og uppbyggingu fyrirtækisins og engin pressa frá foreldrum að koma inn í fjölskyldufyrirtækið. Hún hefur unnið ýmis störf hjá World Class en vann líka í fimm ár sem flugfreyja hjá Icelandair og hefur því haft aðra yfirmenn en foreldra sína.

„Ég fór í lögfræðina. Það var nokkuð sem ég fann að mig langaði að læra og hafði mikinn áhuga á þegar ég var í Versló. Ég fann strax hvað það nýttist mér í starfsemi World Class, þetta tekur á öllum sviðum og er áhugavert og skemmtilegt nám,“ segir Birgitta, sem er búin með grunnnám í lögfræði og hálfnuð með meistararitgerð í alþjóðaviðskiptum. „En ég fann líka strax að mig langaði ekki að vera lögfræðingur og þess vegna ákvað ég að taka masterinn í viðskiptafræði til þess að blanda þessu saman. Mér finnst það hafa nýst mér mjög vel. Síðan hefur þetta bara þróast svona. Þetta er okkar líf og sál,“ segir Birgitta. 

„Þetta er það sem við höfum áhuga á og er stærsti parturinn af okkar daglega lífi. Litli bróðir minn er stöðvarstjóri í nýju stöðinni í Vatnsmýri til dæmis. Við sitjum við eldhúsborðið og ræðum hvað er fram undan og hvað má gera betur, ásamt öðru.“

Líkamsrækt er stór hluti af lífi Birgittu Lífar.
Líkamsrækt er stór hluti af lífi Birgittu Lífar. Ljósmynd/Jón Ragnar Jónsson

Aldrei markmið að vera samfélagsmiðlastjarna

Auk þess að starfa fyrir World Class er Birgitta Líf vinsæl á Instagram. Hún segist aldrei hafa ætlað sér að verða samfélagsmiðlastjarna en hlutirnir þróuðust þannig. Hún leggur meðal annars áherslu á heilsu og heilbrigðan lífsstíl á síðunni sinni. 

„Samfélagsmiðlar hafa stækkað svo mikið undanfarið. Maður vissi ekkert að þetta yrði svona stórt. Ég byrjaði ekki að sýna frá lífinu á Instagram til þess að verða einhver samfélagsmiðlastjarna eða neitt svoleiðis. Það var aldrei neitt markmið, þetta er líka eins og með vinnuna; þetta bara einhvern veginn gerðist og fólk hefur greinilega áhuga á hvað ég er að gera mikið af fjölbreyttum og skemmtilegum hlutum.“

Birgitta Líf fyrir utan World Class í Kringlunni og verslunina …
Birgitta Líf fyrir utan World Class í Kringlunni og verslunina Laugar Spa Organic Skincare. Ljósmynd/Aðsend

Birgitta segir að allt hafi sína kosti og galla. Hún segist aðallega fá jákvæð skilaboð og segir það gefa sér mikið þegar fólk þakkar henni fyrir hvatninguna og fyrir að vera fyrirmynd. Inn á milli koma leiðinlegar athugasemdir en hún reynir að taka slíkt ekki inn á sig.

Skjánotkun er mikið í umræðunni og Birgitta viðurkennir að hún mætti vera duglegri að slaka á. Það er til dæmis eitt af því sem hún tekur með sér úr kórónuveirufaraldrinum. 

„Ef þú spyrð fólk í kringum mig þá er ég alltaf í símanum en það er náttúrlega vinnan mín bæði hjá World Class og á mínum eigin miðli. En jú, ég má alveg vera duglegri að svara ekki alltaf. Ég hef lært að slaka á, vera mikið ein og njóta þess. Eins gaman og mér finnst að vera með fólki og hafa nóg að gera þá elska ég líka að slaka á og horfa á sjónvarpið. Það þarf algjörlega að vera jafnvægi í þessu öllu.“

Birgitta slær ekki slöku við þó svo hún hafi opnað nýja líkamsræktarstöð og nýja verslun í vikunni. Hún segist vera með spennandi verkefni fram undan auk vinnunnar hjá fjölskyldunni. Þessi verkefni muni koma í ljós á næstu mánuðum. Annars skiptir það hana mestu máli að vera hamingjusöm og líða vel.

mbl.is