Mælir með fullnægingum fyrir svefninn

Gwyneth Paltrow er alltaf komin upp í rúm klukkan hálf …
Gwyneth Paltrow er alltaf komin upp í rúm klukkan hálf níu.

Gwyneth Paltrow segir lykilinn að góðum svefni vera fullnægingar, faðmlög á Evuklæðum og að láta áfengið lönd og leið.

Í viðtali á lífsstílssíðunni Goop segir Paltrow frá því hvernig hún undirbýr sig fyrir góðan nætursvefn. Undirbúningurinn hefst snemma um kvöldið með því að huga að meltingunni. „Það breytti öllu að fara að sofa á fastandi maga auk þess sem ég er farin að sleppa öllu áfengi,“ segir Paltrow sem stefnir á að vera komin upp í rúm klukkan hálf níu.

„Strax eftir kvöldmat þá fer ég í bað og bæti Epsonsalti við baðvatnið. Eftir það tekur við húðumhirða.“

Eiginmaðurinn hennar, Brad Falchuck gegnir einnig veigamiklu hlutverki í svefnrútínu Paltrow. Þau sofa alltaf nakin og sjá til þess að þau fái bæði mikla snertingu. „Brad og ég elskum að vera í faðmlögum.“ Þá er Falchuck duglegur að gefa henni nudd þegar hún er stressuð.

Aðspurð hvort fullnægingar hjálpa til við svefn svarar Paltrow játandi. „Já því trúi ég staðfastlega. Þá slakar maður á og tengist líkamanum. Það er ekki hægt að hugsa um neitt annað þegar maður er að fá það. Þá er maður algjört spendýr.

Paltrow leggur mikla áherslu á að hugurinn sé á réttum stað hvað svefninn varðar. „Ég er mjög meðvituð um að skapa góða svefnrútínu og að leyfa mér að hafa ánægju af því að liggja uppi í rúmi. Að líta ekki á það sem eitthvað sem þurfi að hafa samviskubit yfir. Þetta er svo mikilvægt fyrir heilsuna. Það er svo mikill misskilningur að halda að maður þurfi að vera önnum kafinn allan tímann. Ég hafði alltaf svo mikið samviskubit yfir því að sofa út. Og svo fór ég að skora þá hugsun á hólm. Afhverju er það slæmt? Það er frábært að sofa og svo gott fyrir mann,“ segir Paltrow.

mbl.is