Hefur ekki drukkið í tvö og hálft ár

Drew Barrymore er hætt að drekka.
Drew Barrymore er hætt að drekka. AFP

Hollywood-stjarnan Drew Barrymore er í hópi þeirra stjarna sem eru hættar að drekka. Barrymore greindi frá því í fyrsta skipti í sjónvarpsþætti á dögunum að hún hefði ekki fengið sér drykk í tvö og hálft ár. 

„Ég áttaði mig á því að þetta gerði ekkert fyrir mig og mitt líf,“ sagði Barrymore um ástæðu þess að hún hætti að drekka. Barrymore vildi finna sína leið að edrúlífinu og fá að finna út úr sínum málum án þess að almenningur fylgdist með. 

Barrymore greindi ekki frá því að hún væri edrú fyrr en nýlega en núna er hún orðin svo örugg með sig að hún ákvað að gera það. „Nú er þetta búið að vera það langur tími að þetta er orðið að lífsstíl sem ég veit að virkar vel,“ sagði Barrymore um edrúmennskuna og sagðist loksins fá frið frá litlu djöflunum innra með sér. 

Barrymore skaust upp á stjörnuhimininn þegar hún var barn og lék í E.T. Hún varð háð fíkniefnum þegar hún var krakki. Hún fór í meðferð 13 ára en eftir að hún reyndi að svipta sig lífi 14 ára fór hún aftur í meðferð. Barrymore náði betri stjórn á lífinu eftir að hún varð fullorðin en nú er hún loksins hætt að drekka áfengi. 

Drew Barrymore.
Drew Barrymore. AFP
mbl.is