Þurfa að vera ógeðslega flottar en fara svo í kulnun

Sólveig Svavarsdóttir, kennari og fjögurra barna móðir, aðhyllist hæglætislífstíl auk þess sem hún kennir hún syni sínum sem er í öðrum bekk heima. Sólveig er nýjasti gestur Gunnars og Davíðs Wiium í hlaðvarpsþættinum Þvottahúsinu.  

Sólveig sem er kennaramenntuð er ein fjögurra á Íslandi sem er með barnið sitt í heimaskóla. Sonur hennar sem er í öðrum bekk stundar nám eftir námsskrá heima fyrir með móður sinni í stað þess að ganga í skóla eins aðrir jafnaldrar hans. Sólveig segir þessi ákvörðun vera í beinni tengingu við hæglætislífstílinn hún hefur tileinkað sér. Hún segir hefðbundinn átta tíma skóladagur geta verið stútfullur af miklum hraða og streitu sem hentar ekki öllum börnum. 

Stórir bekkir samhliða svokölluðu einstaklingsmiðuð námi ganga ekki upp að sögn Sólveigar. „Ég kenndi ellefu nemendum minn draumavetur og það var dásamlegt. Ég náði utan um hópinn og var meira að segja með góðan stuðningsfulltrúa með mér, þvílíkur árangur, þvílík ánægja hjá foreldrum og gæði í kennslu,“ segir Sólveig.

Heimakennsla hentar ekki öllum börnum en það hentar syni Sólveigar. Hún sinnir kennslunni í samvinnu við hverfisskólann og skilar inn kennsluáætlun þar sem markmið vetrarins eru skilgreind. Kennsludagurinn byrjar oft rólega enda er hún með þrjú önnur börn sem hún þarf að koma afstað út í daginn. Þar næst taka við ýmis störf tengt því að fóðra hænurnar og kanínur sem og út að ganga með hundana tvo. Um tíu hefst svo bóklegt nám sem getur staðið fram að hádegismat. Restin af deginum fer í hefðbundin störf af ýmsu tagi inni á heimilinu eða í garðinum. Tiltekt, matseld, föndur og handverk.

Sonur Sólveigar er í heimakennslu.
Sonur Sólveigar er í heimakennslu.

Maður Sólveigar er sjómaður og er þrjár vikur í landi á þriggja vikna fresti. Á meðan hann er í landi tekur hann að sér almennt handverk með drengnum svo sem smíði í bílskúrnum svo eitthvað sé nefnt.

„Þessi litli skóli, sem ég er ekki en búin að nefna, aðal markmið hans er bara barn sem líður vel, einstaklingur sem verður bara nokkuð sáttur við lífið, það er númer eitt tvö og þrjú,“ segir Sólveig. „Ef þér líður vel þá getur þú lært, ef þér líður illa og ert með kvíða og streitu átt þú bara erfitt með að læra og við erum allt of oft að troða ofan í bullandi kvíðin börn og skiljum svo ekki af hverju þau eiga erfitt með að læra.“

Sólveig er varaformaður Hæglætishreyfingarinnar og heldur út ásamt nokkrum öðrum heimasíðuna Hæglæti.is þar sem hægt að nálgast mikið magn af praktískum upplýsingum um hvernig maður geti tileinkað sér rólegri lífstíll og hversdag.

Hæglætið vill Sólveig meina að sé svar við hraða og streitu sem svo margir upplifa í nútíma samfélagi með tilheyrandi afleiðingum sem kulnun, kvíða og uppgjöf. „Ég held að það séu ákveðnar týpur sem fara í kulnun,“ segir Sólveig. „Fullkomnunaráráttukvíðatýpur, svona eins og ég var, fara bara út í lífið og ætla bara að vera með þetta. Þurfa að vera ógeðslega flottar á yfirborðinu, vera í þessu og hinu, með ógeðslega góðar einkunnir, vera í ógeðslega góðu formi og allt þetta.“

Fjölskyldan er mikið úti.
Fjölskyldan er mikið úti.

Eitt af mikilvægustu verkfærum Sólveigar og hennar stóru fjölskyldu er útiveran. Í því samhengi heldur hún úti Instagram-reikningnum útivera og börnin. Þar skrásetur hún alla sína fjölbreyttu útiveru með fjölskyldunni sem hún deilir með öðrum og þeim óteljandi möguleikum sem íslensk náttúra hefur upp á bjóða til útivistar.

„Ég held að við fullorðna fólkið getum alveg nýtt okkur börnin meira til þess að ná okkur tilbaka því við vorum einu sinni börn og þau eru snillingar í núvitund. Meðvitað geri ég það stundum að elta börnin mín í stað þess að þau séu að elta mig, vera á þeirra hraða, skoða hlutina með þeim, hætta að reka á eftir þeim,“ segir Sólveig. 

Hægt er að hlusta að Þvottahúsið á hlaðvarpsvef mbl.is.  

mbl.is